5 ára afmæli UAK

In Fréttir by Kolfinna Tomasdottir

UAK fagnaði 5 ára afmæli félagsins fimmtudagskvöldið 17. október s.l. Afmælið var haldið í höfuðstöðvum KPMG á Íslandi, en stofnfundur félagsins var haldinn þar haustið 2014. Afmælinu fögnuðu félagskonur og góðvinir UAK.

Kvöldið hófst með ávarpi frá Jóni S. Helgasyni, framkvæmdastjóra KPMG, sem fór yfir starfsemi fyrirtækisins og tenginguna við UAK. Í kjölfarið tók stofnandi UAK, Lilja Gylfadóttir, við með erindi um upphaf, stofnun og mikilvægi félagsins. Lilja minnti okkur á mikilvægi starfseminnar, tengslin sem við myndum innan félagsins, hvatninguna sem fylgir og hugarfarsbreytingu samfélagsins. Þriðja og síðasta ávarp kvöldsins var frá Tatjönu Latinovic, formanni Kvenréttindafélags Íslands. Tatjana kom inn á mikilvægi samstarfs félaganna beggja og þau frábæru og góðu áhrif sem fjölbreytni hefur. Tatjana sagði okkur einnig frá spennandi verkefnum sem eru framundan hjá Kvenréttindafélaginu. Eftir ávörp kvöldsins flutti hin margverðlaunaða og hæfileikaríka tónlistarkona GDRN þrjú lög.

Góð stemning var í afmælisveislunni og færum við KPMG bestu þakkir fyrir gestrisnina. Sömuleiðis færum við Tatjönu, GDRN og þá sérstaklega Lilju þakkir, en án Lilju hefði UAK ekki fagnað 5 ára amfæli.