Aðalfundur UAK var haldinn 17. maí í sal Akademias. Lísa Rán Arnórsdóttir, fráfarandi formaður fór yfir starfsárið en stjórn UAK 2022-2023 stóð fyrir 17 viðburðum ásamt því að halda úti samstarfi við Opna háskólann í Reykjavik, KVAN, Akademias og Dale Carnegie.
Guðrún Valdís Jónsdóttir fór yfir ársreikning félagsins og var hann lagður til samþykktar á fundinum.
Hugrún Elvarsdóttir kynnti örnámskeið fyrir félagskonur sem mun fara af stað á næstu vikum en um er að ræða samstarfsverkefni á milli UAK og Akademias, svokallaður örsprettur með yfirheitið Leiðtogi í eigin lífi.
Kristín Soffía Jónsdóttir, Leitari mætti á fundinn og sagði frá sér og sinni vegferð að þeim stað sem hún er á í dag en hún starfar í dag sem Leitari hjá Leitar Capital Partners.
Að lokum var komið að framboðsræðum frá þeim sem buðu sig fram í stjórn UAK 2023-2024. Þær sem hlutu kjör eru: Bryndís Rún Baldursdóttir, Kamilla Tryggvadóttir, Sóley Björg Jóhannsdóttir og Ólöf Kristrún Pétursdóttir Blöndal. Frá fyrra starfsári sitja áfram þær Aðalheiður Júlírós Óskarsdóttir, Hugrún Elvarsdóttir og María Kristín Guðjónsdóttir.
Þær tvær konur sem fengu næstflest atkvæði í kosningum til stjórnar verða því varamenn til eins árs. Það eru þær Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir og Sigríður Borghildur Jónsdóttir.
María Kristín Guðjónsdóttir var kjörin formaður félagsins fyrir starfsárið 2023-2024 en hún sat í stjórn UAK 2022-2023.