Tengslakvöld: Af hverju UAK?

In Fréttir by Björgheiður Margrét Helgadóttir

Stemningin var rafmögnuð fimmtudaginn 18.febrúar en þá tóku Ungar athafnakonur á móti félagskonum á fyrsta raunviðburði starfsársins síðan í september, tengslakvöldið “Af hverju UAK?”. Sóttvarnaraðgerðir settu svip á viðburðinn en salnum var skipt í tvö hólf og konur sátu dreift um hólfin. Það var þó engin hindrun fyrir þennan kraftmikla hóp kvenna og umræður kvöldsins voru lifandi og einlægar.

Í byrjun kvöldsins deildu félaskonurnar Aníta Rut Hilmarsdóttir, Karen Björk Eyþórsdóttir og Kristín Sverrisdóttir með okkur sínum bakgrunni og hvernig UAK hefur haft áhrif á þeirra starfsframa. Í kjölfarið stýrði Vala Rún Magnúsdóttir, formaður UAK, panelumræðum þar sem notast var við fiskabúrs (e. fishbowl) aðferð sem heppnaðist stórvel og félagskonur voru óhræddar við að taka þátt og deila sínum sögum. 

Aníta talaði um að félagið gæfi sér pepp frá félagskonum og viðmælendum, fjölbreytta fræðslu sem víkkar sjóndeildarhringinn og ómetanlegt tengslanet. “Á endanum vil ég að það verði hallærislegt fyrir stjórnendur að vera einungis með einsleitan hóp karla í jakkafötum á starfsmannalistanum sínum”. Karen kom með stutta hugvekju um mikilvægi þess að hugsa frekar um langtímahamingju frekar en skammtímahamingju. Hin gamla ofurkona sem var allt í öllu gengur ekki og veitir ekki lífsfyllingu, stundum þurfum við að læra að segja nei. Það er einnig mikilvægt að við tökum yngri konur og jaðarsettar með okkur í vegferðina. Mikilvægasti punktur kvöldsins var samt gott heilráð: “Ekki deita gæja sem er ekki femínisti”. Kristín flutti heim eftir 7 ár erlendis og var því ekki með neina tengingu við atvinnulífið og aldrei mætt í hinar víðfrægu vísindaferðir sem vinir hennar töluðu um. Hún er því tiltölulega ný í félaginu en hefur alls ekki slegið slöku við og mætt á 10 viðburði á einu ári og fyllst innblæstri á þeim öllum, “þvílík forréttindi að geta mætt á svona viðburði”. 

Þegar félagskonur bættust svo í panelumræðurnar ræddu þær meðal annars um fyrirmyndir sínar, sérstaklega úr sínu nærumhverfi. Einnig hvernig hin “mjúku” gildi þurfi að fá meira vægi í atvinnulífinu og hvernig við færum umræðuna um jafnréttismál yfir í áherslur á fjölbreytileika og fáum þannig fleiri með okkur í lið. Ýmis góð ráð komu til skjalanna við því að stjórna álagi, meðal annars að setja sér mörk, segja stundum nei við verkefnum og hittingum, skilja “FOMOið” eftir heima og vera ekki of ströng við sig þegar verkefni klárast ekki á settum tíma.

Mikill fjöldi félagskvenna sem mættu á viðburðinn sýndu hugrekki og tóku þátt í panelumræðunum með því að fá sér sæti. Viljum við í stjórn UAK þakka þeim sérstaklega fyrir og einnig hinum sem mættu, en félagskonur eru eina ástæðan fyrir því að starf félagsins blómstrar. 

Nánar um fiskabúrsfyrirkomulag 

Hefðbundið fiskabúr notast við röð af 4 stólum og þá skipa þeir sem vilja taka þátt í umræðunum. Einn stóll í fiskabúrinu skal alltaf vera tómur svo hver sem er geti farið og tekið þátt í umræðunum. Ef einhver sest í tóma stólinn skal einn standa upp. Þetta fyrirkomulag gefur þáttakendum tækifæri til að taka sjálfir þátt í umræðunum og deila sínum sögum.