Frú Vigdís Finnbogadóttir flutti opnunarávarp ráðstefnunnar enda við hæfi að ein merkasta fyrirmynd kvenna um allan heim segði frá sinni reynslu í byltingum og jafnréttismálum. Vigdís hefur ferðast víða í opinberum erindagjörðum og notað hvert tækifæri til að hvetja til valdeflingar kvenna. „Í gegnum árin þar sem ég hef verið á ferð þar sem konur hafa lítið andlegt vægi hef ég lagt áherslu á að allir bræður og allir feður vita að dóttirin og systurnar eru jafn klárar og þeir sjálfir. Við konur í þróunarlöndum hef ég löngum sagt: ,Lærið að lesa, lærið að lesa, lærið að lesa og reynið að afla ykkur þekkingar til jafns við bræður ykkar.’ “ Hún ítrekaði það sem löngum hefur verið sagt um jafnvægi og mannréttindi í heiminum: „Þekking og skilningur eru lykillinn að jafnrétti.“
Sem fyrsta kona heims til að vera lýðræðislega kjörinn þjóðarleiðtogi er Vigdís full trausts og trúar á íslensku kvenþjóðina. „Konur á Íslandi hafa alltaf verið sterkar. Ekki væru Íslendingasögurnar svona litríkar ef ekki væri í þeim kvenfólkið,“ benti Vigdís réttilega á. Á hennar tímum í stjórnmálum vannst mikill ávinningur er varðar kynjahutfall á Alþingi og minnist hún þess að í fyrstu skiptin hafi hún nær einvörðungu séð karlmenn í svörtum kjólfötum í þingsal. „Staðan batnaði þó og á árunum 1979-83 voru konur 5% þingmanna og óx það hlutfall svo gleðilega á árunum eftir. En svo fækkar á undanförum árum og á núverandi þingi, 35%,“ benti Vigdís á og bætti við að kynjahlutfallið í núverandi ríkisstjórn væri ekki nógu gott heldur. „Í tíu manna ríkisstjórn Íslands eru 4 kvenráðherrar, af hverju? Það er það sem við ætlum að vinna að hér í dag.“
Vigdís hefur fylgst með framþróun í jafnréttismálum og þekkir vel þær hindranir sem verða í vegi kvenna og þeirra framgangi. „Í raun eru það vanhugsun og hefðir sem kæfa framþróun í þessum málum og þannig er svo hryggilega komið enn víða í heiminum,“ sagði hún og bætti við að Íslendingar væru öðrum þjóðum innblástur í þessum málum. „Hér á landi eru komnar sýnilegar sprungur í glerþakið og þeir brestir heyrast út í heim.“ Erindi sínu lauk Vigdís svo á miklum hvatningarorðum til ráðstefnugesta. „Við ykkur vil ég segja að þið hér inni munuð mölbrjóta smásprungið glerþakið til allrar framtíðar,“ sagði frú Vigdís Finnbogadóttir og ráðstefnugestir héldu út í daginn fullir innblásturs og ástríðu.