Breytum heiminum fyrir konur en ekki konunum fyrir heiminn

In Fréttir, UAK-dagurinn by Auður Albertsdóttir

„Vertu dama. Ekki vera of feit. Ekki vera of grönn. Ekki vera of stór. Ekki vera of lítil. Borðaðu vel. Grenntu þig. Ekki borða of hratt.” segir m.a. í ljóði hinnar 22 ára Camille Rainveille. Ljóðið hefur farið sigurför um internetið í flutningi Bandarísku leikkonunnar Cynthiu Nixon í áhrifamiklu myndbandi sem Þórey Vilhjálmsdóttir hjá Capacent opnar erindi sitt á því að sýna. Ljóðið lýsir veruleika kvenna og er einskonar samantekt allra þeirra fjölmörgu og óraunhæfu krafna sem gerðar eru til kvenna um hegðun þeirra og útlit í lífi og starfi.

Vinna Þóreyjar í Jafnréttisvísi Capacent hefur það að markmiði að stuðla að stefnumótun og vitundarvakningu um jafnréttismál. Í þeirri vinnu felst m.a. að horfa á jafnrétti út frá 360 gráðum en ekki einungis út frá launamuni kynjanna. Ómeðvitaðir kynbundnir fordómar séu bleiki fíllinn í herberginu sem jafnréttisvísirinn leitist við að vekja athygli á.

Áskoranir í fyrirtækjamenningu snúa m.a. að mismunandi upplifun kynjanna á vinnustaðnum. Meðal væntinga sem gerðar eru til kvenna er að þær sinni heimilisverkum vinnustaðarins, s.s. frágangi á kaffistofu, sæki kaffi, taki minnispunkta á fundum og skipuleggi viðburði. Konur verða fyrir meiri mismunun og finna frekar til útilokunar heldur en karlar og þá fá konur gjarnan stöðuhækkun eftir að hafa sannað sig eða sýnt fram á hæfni sína, en karlar frekar vegna þess að þeir þyki efnilegir segir Þórey.

Þá segir Þórey að viðhorf til skorts á konum í áhrifastöður hafi verið að þær þyrftu að mennta sig betur. Í dag eru meirihluti þeirra sem útskrifast úr háskólanámi konur og Ísland trónir í fyrsta sæti lista Work Economic Forum um kynjajafnrétti. Samt sem áður er engin kona forstjóri fyrirtækis sem skráð er á markað í Kauphöll Íslands og einungis 11% forstjóra 100 stærstu fyrirtækja landsins eru konur. Þórey segir þetta staðfesta það að eitthvað í fyrirtækjamenningunni hamli konum í því að komast áfram.

Í jafnréttisvísinum eru notaðar teikningar eftir Rán Flygenring sem sýna á skoplegan hátt hvernig fordómar leynast í menningu fyrirtækja. „Besta leiðin til þess að takast á við fordóma er að hlæja þá í hel” segir Þórey “…og stundum þegar við hlæjum að hlutunum áttum við okkur betur á þeim.” 

„Um leið og við byrjum að tala um þetta getum við farið að breyta heiminum”, segir Þórey og á þar við um hina ómeðvituðu kynbundnu fordóma. Markmiðið jafnréttisvísisins sé að fá heiminn til að breytast fyrir konur, en ekki konur til að breytast fyrir heiminn. 
Fjöldi rannsókna hefur staðfest að fyrirtækjum með blönduðum hópi kynjanna gangi betur og er Þórey sannfærð um og bjartsýn á að við séum á réttri leið. Besta ráð sem Þórey segist hafa fengið kom frá Eve Ensler, höfundi The Vagina Monologues: „Do you want to be good, or do you want to be great?” Átti hún þar við að konur þyrftu að hætta að vera þægar og góðar, því það væri til þess gert að halda þeim niðri og líkur Þórey erindi sínu á orðunum: „Verið bara þið sjálfar” .