Paula Gould er leiðtogi í tengsla- og markaðsstarfi. Þar til nýlega starfaði hún sem Principal hjá Frumtak Ventures, þar sem hún leiddi alþjóðlegt tengsla- og markaðsstarf Frumtakssjóðanna og eignasafna þeirra. Hún sagði ráðstefnugestum á UAK deginum frá sinni vegferð í atvinnulífinu.
Markmiðin breyttust á leiðinni
Paula hefur yfirgripsmikla þekkingu á frumkvöðlafyrirtækjum og hefur unnið með slíkum fyrirtækjum í Bandaríkjunum, Ísrael og Íslandi á sviði viðskiptaþróunar, markaðssetningar og almannatengsla. Hún byrjaði þó með aðrar hugmyndir um starfsframa og ætlaði sér að verða dýralæknir.
Í skóla fór hún að vinna fyrir viðburðafyrirtæki þar sem hún kynntist því að stýra stórum viðburðum og fannst það eiga við sig. Hún vann sig fljótt upp innan rekstursins en þegar náminu lauk, og hún útskrifaðist, var ekki laust fullt starf fyrir hana nema sem aðstoðarmaður framkvæmdastjórans.
„Og ég hafði engan áhuga á að vera aðstoðarmaður. Ég hafði gert ýmislegt mikilvægara en að vera aðstoðarmaður,“ útskýrði hún. Paula sagðist taka við starfinu með því skilyrði að fá meiri ábyrgð en áður hafði verið og starfinu var breytt til að hæfa henni.
Ákvað að taka sénsinn á sjálfri sér
Eftir að hafa unnið við skipulag stórra viðburða fór hún að taka eftir því að yfirmenn hennar og karlarnir á vinnustaðnum fengju allan heiðurinn af þeim verkefnum sem hún vann og kunni því illa. Að lokum fór það svo að hún tók svo við sem framkvæmdastjóri viðburðarhússins þegar yfirmaðurinn hennar hætti.
„Ég hefði aldrei fengið framkvæmdastjórastöðuna hefði ég tekið stöðu aðstoðarmanns,“ segir hún og bætir við að titlar skipti máli á ferilskránni. Hún tók stefnuna þó enn hærra og ákvað að flytja frá Boston til Los Angeles. Hún lýsti því sem stóru skrefi og sagðist hafa óttast óvissuna sem fylgdi því að flytja af stað án þess að hafa atvinnu á nýja staðnum.
Á miðri leið fékk hún símtal frá viðburðarstjóra sem hún hafði kynntist í fyrra starfi sem bauð henni vinnu. „Ég tók áhættu á sjálfri mér, og notaði samböndin sem ég hafði til að fá vinnu sem setti stefnuna fyrir ferilinn minn,“ sagði hún.
Í lagi að sækja ekki kaffi
Í Los Angeles fór hún fljótlega að finna fyrir því að samstarfsmenn hennar litu á hana frekar sem konuna á skrifstofunni en sem mikilvægann starfskraft. Hún þurfti að standa með sjálfri sér og ekki leyfa samstarfsmönnum að kynna hana sem „stelpuna á skrifstofunni“.
„Það er í lagi að segja „nei ég ætla ekki að sækja kaffið“ til að ná stjórn á ferlinum,“ sagði hún.
Í Los Angeles starfaði hún með tónlistarbransanum og kvikmyndaiðnaðinum á miklum umrótartímum, þegar tónlist varð stafræn og kvikmyndir voru sóttar á netið. Hún hugsaði með sér að tæknihliðin á þessu öllu höfðaði til hennar og ákvað að sækjast eftir frama í einhverju því tengdu.
Hóf eigin rekstur
Eftir að hafa starfað sem samskiptastjóri hjá tæknifyrirtækinu TagWorld áttaði hún sig á því að hún vildi gera hlutina eftir eigin höfði. Það sem hún hræddist þó var að fara út á nýja braut og stofna fyrirtæki. Úr varð almannatengslafyrirtækið PEG PR.
Í gegnum fyrirtækið sinnti viðskiptavinum í tækni, lista og skemmtanaiðnaðinum. Hún hefur veitt sprotafyrirtækjum ráðgjöf sem stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og markaðsstjóri í á fjölbreyttum sviðum, svo sem tónlistar, kvikmynda, auglýsinga, tækni, fjárfestinga og neysluvara.
Fimm árum síðar, eftir að hafa kynnst íslenskum eiginmanni sínum, hætti hún rekstrinum. Þá uppgötvaði hún að hún þyrfti ekki að óttast að fá ekki góða vinnu, þá myndi hún bara aftur stofna fyrirtæki.
Lærði margar lexíur á leiðinni
Laura sagðist oft hafa fengið spurningar á borð við „þú getur ekki gert þetta“ og “hver heldurðu að þú sért?“. Hún segist hafa tekið það inn á sig fyrst um sinn en síðar lært af fyrirmundum í kringum sig að standa með sjálfri sér og hafa trú á eigin verðleikum.
„Ég er 42 ára í dag og þegar einhver segir þetta við mig svara ég: sjáðu mig bara gera þetta,“ sagði hún. Paula segir að ömmur hennar séu stærstu fyrirmyndirnar; þær hafi sýnt henni að konur geti gert það sem þær vilja. „Þetta er umhverfið sem ég ólst upp í,“ segir hún.
Paula deildi svo því helsta sem hún hefur lært á ferlinum:
- Það er mikilvægt að taka áhættu á sjálfum sér (oftar en einu sinni)
- Þú lærir hratt hvað þú getur og hvað þú getur ekki
- Þú getur lært nýja hæfni
- Reynsla þín skiptir máli, hún hefur gildi
- Sumir munu ekki sjá gildi þitt. Sannaðu þig fyrir þeim hratt eða snúðu þér að öðrum.
- Heimurinn er stór. Finndu þína sérstöðu og nýttu þér hana.
- Það eru málamiðlanir við hvern starfsferil
- Það er erfitt að vera innflytjandi
- Horfðu reglulega til baka á það sem þú hefur gert vel og það sem hefur mistekist
- Þú getur EKKI gert neitt ein
- Hafðu samúð
- Taktu séns á öðrum.
Mikilvægasta sem hún hefur lært er þó eftirfarandi:
- Þú getur gert
- Þú þorir að gera
- Þetta er sú sem þú ert
Að lokum sagði Paula: „Vertu eins og vatn. Ef þú kemst ekki áfram, finndu þá aðra leið.“