UAK dagurinn var settur með glæsibrag nú í morgun af Elizu Reid forsetafrú. En Elizu þarf vart að kynna. Hún vann hug og hjörtu þjóðarinnar þegar hún varð forsetafrú sumarið 2016. Eliza er með BA gráðu í alþjóðasamskiptum frá Trinity College, University of Toronto og lauk síðar meistaraprófi í sagnfræði frá St. Anthony’s College við Oxfordháskóla. Hún er verndari ýmissa samtaka á Íslandi og er virkur stuðningsmaður baráttunnar fyrir kynjajafnrétti.
Ræðu Elizu er best lýst sem samtali við fólkið í salnum. Hún ætlar að reyna sem minnst að lesa af blaði. Þetta er góðlátlegt spjall þar sem hún leggur okkur lífsreglurnar og hvetur ungar konur áfram.
Hún byrjar á að segjast ætla að vera “Jack of all trades” sem hún þýðir í þúsundþjalasmið. Eliza ætlar ekki að vera sérfræðingur í neinu á ráðstefnunni í dag en hún varpar ljósi á 10 mikilvæg atriði sem hún litar af reynslusögum af sjálfri sér og minnir á að við eigum að nota tækifærin sem við fáum. ,,Carpe Diem” segir Eliza.
Hér koma atriðin 10:
- Haltu þínu striki. – ,,Rödd kvenna verður að heyrast.”
- Finndu fyrirmyndir. – Af fyrirmyndum í æsku sinni segir Eliza: ,,Ég ólst upp í þeirri trú að ég gæti gert hvað sem er, farið hvert sem er og orðið hvað sem ég vildi.”
- Treystu á vináttu. ,,Þróum okkar tengslanet sem konur og notum það til að styðja hver aðra.”
- Trúðu á sjálfa þig. – ,,Ef þú trúir ekki á sjálfa þig mun enginn annar gera það.”
- Sýndu mannúð, heiðarleika og hollustu.
- Láttu rödd þína heyrast. – Þar minntist Eliza á þegar hún heimsótti Zaatari flóttamannabúðirnar í september síðastliðnum. En áður en Eliza kom í flóttamannabúðirnar hélt hún að þar væru konurnar bara að bíða. ,,Þar eru konurnar að vinna og bæta lífið sitt eins og það er núna og láta raddir sínar heyrast.” Einnig benti hún á mikilvægan punkt um það að vera forsetafrú. Hún sagðist vera mjög stolt af eiginmanni sínum, forsetanum, en hún vildi ekki vera þekkt sem kona einhvers: ,,Það var mikilvægt fyrir mig að halda áfram mínu starfi og ekki vera fylgifiskur.” Hún notaði einnig tækifærið og sagði að makar gætu líka tjáð sig og að konur hafi líka sterka rödd.
- “Pay it forward.”
- Láttu ekki smámuni halda aftur að þér.
- Ræktaðu framtíðargarðinn. – Þar minnti hún á að við ættum að ala stráka upp svo þeir viti að konur eru jafnar körlum.
- Síðast en ekki síst minnti hún okkur á að fylgja því sem hjartað segir. – “Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér.” En þá minntist Eliza á það að þegar hún var lítil sveitastelpa í Kanada þá hélt hún ekki að hún yrði forsetafrú Íslands. Hún vissi varla hvað Ísland var.
Að lokum skildi Eliza salinn eftir með þá hugsun að: “Okkur beri skylda til að vera þær allra bestu fyrirmyndir sem við getum. Fyrimyndir sona, dætra, eiginmanna og eiginkvenna. Raddir okkar skipta máli. Skiptir máli hvernig við tölum um okkur sjálfar. Okkur ber skylda til að reyna að miðla jákvæðum boðskap til hverrar manneskju.”