Lilja Gylfadóttir, stofnandi Ungra Athafnakvenna, Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýn, Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar og Helga Valfells, stofnandi nýsköpunarsjóðsins Crowberry Capital settust í panel til þess að ræða hið umtalaða glerþak í viðskiptalífinu en fjölmiðlakonan Edda Sif Pálsdóttir stjórnaði umræðunum.
Umræðan hófst á því að velta því upp afhverju svona fáar konur eru í ábyrgðastöðum í íslenskum fyrirtækjum, en af 18 fyrirtækjum sem skráð eru í Kauphöllinni er engin kona starfandi forstjóri. Hafa þær minni áhuga á störfunum eða er raunverulega erfiðara fyrir þær að komast að? „Maður heyrir oft að konur sækjast ekki nógu mikið eftir störfum en ég held að það sé hugarfarsbreyting sem þarf að eiga sér stað hjá fyrirtækjum landsins, ómeðvitað fá karlmenn oftar viðtöl í umsóknarferlinu en konur. Áhugi og framsækni kvenna er til staðar en fyrirtækin gætu þurft að líta í eigin barm” sagði Lilja. „Ómeðvituð hlutdrægni hjá fyrirtækjum við ráðningu starfsmanna er umhugsunarefni og eitthvað sem þarf að breyta” sagði Stefán og bætti við að það væri erfitt að vilja ráða konu með reynslu í forstjórastöðu ef hún hefur ekki fengið tækifæri til þess að afla sér þessarar reynslu á vinnumarkaði. Innleiðingar á jafnréttisstefnum og vilji til þess að leiðrétta kynjahallann innan fyrirtækja hefur færst í aukana en staðreyndin er að stefna er bara power point skjal þangað til maður fer að vinna markvisst að henni. Páll minntist á að í dag eru 6 ár síðan kynjakvóti var settur á í stjórnum opinbera hlutafélaga og einkahlutafélaga og er hissa á því að boltinn skuli ekki hafa rúllað hraðar eftir það en raun ber vitni.
Aðspurðir hvort að Stefán og Páll hafi einhverntímann átt samtal við karlkyns vini sína um jafnrétti kynjanna svöruðu þeir því báðir neitandi, það hafi aldrei átt sér stað.
Samfélagið hagnast á jöfnu kynjahlutfalli
En hvernig breytum við þessu? Hvað getum við gert til þess að breyta stöðunni í dag? „Ég bjóst við því að þegar búið væri að sanna að fyrirtækjum gangi betur með konu í stjórn að þá myndi þetta gerast sjálfkara” sagði Lilja og velti því fyrir sér hvort að það þurfi að lögfesta kynjakvóta í framkvæmdarstjórnir fyrirtækja svo að við þurfum ekki að bíða í 100 ár. Helga kom inn á að samfélagið í heild sinni hagnast á því að hér ríki jafnt kynjahlutfall, en hún kom sjálf inn í stjórn Íslandsbanka eftir að kynjakvóti komst á. Hún veltir því fyrir sér hvort að besta leiðin sé hreinlega að auglýsa öll störf. „Við erum mikið kunningjasamfélag en með því að leita aðeins út fyrir kunningjana eru meiri líkur á því að þú aukir fjölbreytileikann.“
„Besta fólkið vill vinna hjá fyrirtækjum með góða jafnréttisstefnu og hvetur fyrirtæki til þess að draga jafnréttisstefnur og markmið þeirra upp á yfirborðið svo að þau séu sýnileg öðrum” sagði Stefán um mögulegar breytingar. Páll dró þá lexíu af síðustu árum að við þurfum að ráðast í frekari aðgerðir, koma umræðunni upp á yfirborðið sem brýtur þessi brengluðu viðhorf innan fyrirtækja og í samfélaginu.
Mikilvægt að byrja fyrr
Yfir í jákvæðari nótur þá ræddu gestir panels hvað væri það besta, mikilvægasta eða jákvæðasta sem hefur gerst í jafnréttismálunum síðustu ár.
„Það er hugsunarhátturinn okkar sem er að breytast, viðhorfsbreyting hefur átt sér stað í samfélaginu og það er það mikilvægasta, með þessum byltingum sem hafa átt sér stað erum við byrjuð að hugsa meira um þessi mál og hvernig við getum bætt okkur í þeim.” sagði Lilja. Það hefur margt jákvætt breyst og má þar nefna kosningarétt kvenna og fæðingarorlof þó að þar megi alltaf gera betur.
Panelgestir voru sammála um mikilvægi þess að byrja fyrr. „Við þurfum að byrja fyrr að vera meðvituð um það hvernig við komum fram við börn og unglinga. Kennum stelpunum okkar að hafa hátt, að vera óhræddar og að gaspra oftar í kennslutímum ef þær vita rétta svarið við spurningum kennarans. Verum meðvitaðari um gjörðir okkar. Það er ákvörðun að gefa stelpum dúkku í afmælisgjöf en ekki hamar” sagði Lilja og ítrekaði mikilvægi þess að taka þátt í því að brjóta glerþakið. „Höldum áfram að brjóta glerþakið og fáum þá sem standa ofan á því að stappa það niður á meðan við höldum áfram að kýla upp”