Fyrri panelumræða UAK dagsins fjallaði um mikilvægi fjölbreytileika og ábyrgð fyrirtækja í þeim efnum. Gestir panelsins voru Ari Fenger, Claudie Wilson, Guðmundur Hafsteinsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Panelstýra var Elín Margrét Böðvarsdóttir.
Í upphafi panelumræðunnar byrjaði Elín á því að spyrja Guðmund hvort að mikilvægi fjölbreytileika hafi sýnt sig í hans störfum á frumkvöðlavettvangi en ásamt því að hafa starfað hér á landi hefur hann meðal annars unnið í Kísildalnum sem yfirmaður vöruþróunar á Google Assistant. Sagði Guðmundur að árangur fyrirtækja yrði alltaf betri ef að starfsfólk þess væri með fjölbreyttan bakgrunn. Þar skipti þó fleiri þættir en kyn máli, til dæmis aldursdreifing.
En er íslenskt atvinnulíf að taka mið af þessu? Ari, forstjóri 1912 ehf, nefndi töluverðar breytingar síðustu ár í hans geira atvinnulífsins. Sagði hann frá því að eitt af hans fyrstu verkum á vinnustaðnum hafi verið að ráða inn kvenstjórnanda, en fram að því höfðu nær eingöngu verið karlar í stjórnunarstöðum. Segir hann að það hafi verið honum mikilvægt að ráða inn fjölbreyttari hóp fólks og líkt og Guðmundur nefndi að líta einnig til aldursdreifingarinnar. „Þetta er bara ákvörðum sem stjórnendur þurfa að taka, þetta breytir allri dýnamíkinni. Við þurfum að fara dýpra inn í félögin og það má gera betur,” sagði Ari.
Claudie, héraðsdómslögmaður og aktívisti, ræddi um að við þurfum að horfa á fjölbreytileika í víðara samhengi en eingöngu að líta til kyn og aldurs. Mismunandi reynsla starfsfólks, bakgrunnur og sérstaklega menning gerir fyrirtæki betur í stakk búin á alþjóðavettvangi og tók hún sem dæmi fyrirtæki á borð við Marel, CCP og Össur þar sem stór hluti starfsfólks er af erlendum uppruna og hafa þessi fyrirtæki öll náð góðum alþjóðlegum árangri.
Kynjakvótar og hvatakerfi
„Ég var framan af á móti kynjakvótum í stjórnir. Það var 2 ára aðlögunartímabil en það gerðist bara ekki rassgat fyrr en kynjakvótarnir komu inn. Ég er eindreginn stuðningsmaður kynjakvóta í dag” segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir stjórnmálakona aðspurð hvernig stjórnvöld ættu að beita sér frekar fyrir því að auka fjölbreytileika á vinnumarkaðnum. Þorgerður vill einnig setja á frekari hvatakerfi til fyrirtækja sem uppfylla jafnréttislög og eru með að lágmarki 40% af öðru kyni í framkvæmdarstjórn. Það sé margt hægt að gera. Ekki voru þó allir á sama máli og Guðmundur nefndi að hann væri hvorki hrifinn af kynjakvótum né jafnlaunavottun.
„Þetta er bara þessi almenna skynsemi hjá nýjum stjórnendum, auðvitað ráðum við konur inn, við viljum fá fjölbreyttan hóp og þetta á ekkert að vera erfitt” segir Ari, en hann nefnir líkt og Þorgerður að hvatar myndu ná betri árangri en hömlur.
Margar hindranir í vegi íbúa af erlendum uppruna
15,6% af mannfjölda Íslands er af erlendum uppruna, og í þeim hópi er mikið af hæfu fólki, fólki með háa menntun. Samt sem áður er þetta fólk ekki að fá störf við hæfi og sýna rannsóknir að fólk af erlendum uppruna er oftar en ekki of menntað fyrir þau störf sem þeim býðst. Telur Claudie að þar spili margt inn í en nefnir þó sérstaklega flókið regluverk á Íslandi, en umsækjendur þurfa að fara í gegnum 12 stofnanir til þess að fá menntun sína metna.
Þorgerður Katrín á síðasta orðið í panelumræðunni þar sem hún segir „Við getum ekki leyft okkur að slaka á, og meðan svo er, þá verðum við að standa þessa jafnréttisvakt. Það er ekkert óþægilegt að standa hana”.