Eru konur auðveldara skotmark?

In Fréttir by Auður Albertsdóttir

Rúmlega 100 manns mættu á panel-umræður sem haldnar voru af Ungum athafnakonum þriðjudagskvöldið 30. október. Yfirskrift viðburðarins var  „Eru konur auðveldara skotmark?“ og var umfjöllunarefnið umræða um konur, bæði í fjölmiðlum og annars staðar. Var velt upp spurningum eins og hvort það sé erfiðara að fá konur í viðtal, af hverju konur virðast oft fá harðari og öðruvísi umfjöllun í fjölmiðlum en karlar og hvers vegna það er vegið öðruvísi og oft á persónulegri hátt að konum en körlum.

Viðmælendur kvöldsins voru Andrés Jónsson, framkvæmdarstjóri Góðra samskipta, Edda Sif Pálsdóttir, íþróttafréttakona og þáttastjórnandi hjá RÚV, Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands og Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Panel-stýra var Kolfinna Tómasdóttir, ráðstefnustjóri Ungra athafnakvenna.

Hefur mest hringt í 15 konur

Fyrsta spurning kvöldsins sneri að því hvort að það væri erfiðara að fá konur í viðtöl en karla en það hefur stundum verið í umræðunni. Edda Sif sagðist hafa áhugaverðan samanburð í þeim málum en hún er bæði í mannlífsþættinum Landanum og svo íþróttafréttum á RÚV.

„Í Landanum er ekkert mál að fá konur og það eru alltaf jafn margar konur og karlar og það hefur verið þannig í mörg ár og aldrei verið neitt vandamál. Þar er fólk að tala um eitthvað sem það er að gera, fyrirtæki sem það á, eitthvað sem það er að búa til og vill tala um það. Og það er enginn annar sem veit meira en akkúrat þessi manneskja,“ útskýrði Edda Sif.

„En í íþróttunum hefur mér fundist erfiðara að fá konur í viðtöl. Ég hef mest hringt í 15 konur til þess að fá eina í stutt spjall um handbolta. Konur segjast frekar vera búnar að fylgjast með deildinni en að það sé einhver annar sem veit meira. En kallarnir segjast hafa ekki séð einn leik en eru samt til í viðtal og segja bara ,Þetta reddast, ég kem’,“ sagði Edda Sif en bætti við að þetta væri ekki alltaf svona.

Andrés sagðist ekki upplifa þetta lengur. Lýsti hann því að hann væri oft að bóka fólk í viðtöl fyrir fjölmiðla og að síðustu 18 mánuði hafi hann engan mun séð á löngum karla og kvenna til að vera í viðtölum.

„Ég veit ekki hvað þetta þýðir en kannski er þetta því við erum búin að ræða þetta lengst og gera mest í þessu og ég vona að þetta þýði að eitthvað sé búið að breytast,“ sagði Andrés.

Katrín benti á að fjölmiðlar ættu mögulega að sækja meira í konur en þeir gera í dag. „Ég verð alveg að viðurkenna það sem hefur komið mér mest á óvart eftir að ég varð formaður Viðskiptaráðs Íslands hvað lítið hefur verið sótt í mig sem álitsgjafa í viðskiptalífinu. Umhverfið finnst mér vera þannig að það er búið að þjálfa konur í að segja alltaf já en svo er það notað svolítið sem afsökun, ,Æj það er svo erfitt að tala við konur’. Ég er alltaf að segja ,Halló, halló ég er til!’.“

Stefanía sagði að fyrst þegar farið var að gera rannsóknir á hlutfalli kvenna í fjölmiðlum kom í ljós að þær voru ekki nema um þriðjungur og þá talið með konum í auglýsingum og skemmtiatriðum. Sagði hún að þær tölur hafi ekki komið neinum á óvart þegar þær voru birtar fyrir um 20 árum síðan. „Við sem eldri erum ólumst upp við að sjá aldrei og heyra aldrei í konum í fjölmiðlum. Við áttum fáar fyrirmyndir,“ sagði Stefanía. Bætti hún við að þær raddir sem sögðu að konur hefðu ekki áhuga á að vera í fjölmiðlum hreint bull og sagði að skýringarnar á þessu væru að ákveðnu  leyti þær að konur voru ekki í þeim forystuhlutverkum sem oftast voru fengin til að svara spurningum fjölmiðla. Benti hún á að nú hafi konum fjölgað í forystuhlutverkum og því hlutfallið eflaust að breytast.

Katrín sagði að það væri ekki skrýtið að færri konur væru að svara fyrir viðskiptalífið en karlar þar sem þær stýra aðeins 8% af 400 stærstu fyrirtækjum landsins. „Upplifun mín er að í pólitískri upplifun er talað algjörlega jafnt við karla og konur. Pólitíkin er komin lengra í jafnréttinu.“

Karlrembugaurinn að úreldast

Næsta spurning sneri að því hvort að konur hefðu í gegnum tíðina notað tilfinningar meira en karlar í viðtölum og annarri umfjöllun. Sagði Katrín að konur væru með hærri rödd en karlar og nefndi hún að sumar konur, sem tala með ástríðu, séu sagðar of árásagjarnar, reiðar og dæmdar fyrir að sýna of miklar tilfinningar í viðtölum.

Edda rifjaði upp þegar hún byrjaði í íþróttafréttunum þegar að hún var að byrja og yfirmaður hennar þáverandi, sem var kona, sagði henni að vera meira eins og strákur. „Það hljómar illa en hjálpaði mér ótrúlega mikið,“ sagði Edda og útskýrði að með þessu ráði hafi yfirmaðurinn verið að meina að hún ætti að vera afslappaðri og „meira sama“.

„Þessi setning hljómar illa en gaf mér samt ákveðið viðhorf,“ sagði Edda.

Andrés sagði frá manni sem var skipaður forstjóri í fyrirtæki sem hann vann fyrir. Maðurinn passaði ekki inn í „forstjóranormið“, var ekki harður og kúl heldur mjúkur og þægilegur. Sagði Andrés að það hafi ekki verið vel liðið meðal „forstjóraelítunnar“ en hann var rosalega vinsæll innan síns fyrirtækis. „Við sjáum karlrembugaurinn úreldast og fara af sviðinu.“

Konur mega ekki gera mistök

Næsta umræðuefni sneri að því af hverju umræðan ætti til að mála konur í neikvæðu ljósi en karla í jákvæðu fyrir sömu hegðun. Nefndi Kolfinna til dæmis þegar konur eru frekar á meðan karlar eru ákveðnir, þeir eru leiðtogar en þær stjórnsamar og hann staðfastur en hún haldin þráhyggju.

Katrín sagði að sér væri reglulega sagt að hún væri „of umdeild“.

„Ég er nú þannig manneskja að ég er mjög hreinskiptin og er yfirleitt ekkert að skafa utan af hlutunum. Ég reyni að gera það kurteislega sem tekst stundum, stundum ekki. Maður sér alveg í stjórnum fyrirtækja að þær konur sem lifa af að vera í stjórnum eru svolítið þægu konurnar, ég ætla alveg að kasta því fram,“ sagði Katrín en bætti við að þarna væri hún að alhæfa.

„En við þekkjum öll freka karlinn. En ef þú vogar þér að nálgast það að vera freka kerlingin ertu jörðuð gjörsamlega, en samt ekki með tærnar þar sem freki kallinn er með hælana.“

Edda nefndi sem dæmi hvernig orðræðan um íþróttafréttakonur og karla væri gjörólík þar sem konurnar væru gagnrýndar á allt annan hátt. Nefndi hún að þær væru gagnrýndar fyrir fötin sem þær væru í og fyrir að spyrja endurtekið sömu spurninganna. „Ég hef aldrei heyrt það um karlanna. Þá er það bara fyndið og þeir eru bara ,meistarar og snillar’ og eitthvað en ef þetta er kona er hún bara frekar glötuð.“

Andrés sagði þetta viðhorf kristallast í því að konur mættu ekki gera mistök og að þær væru gagnrýndar fyrir eitthvað sem aðrir eru ekki gagnrýndir fyrir. „Ef þær gera mistök þá er gefið veiðileyfi og það má hvað sem er það er bara hanskarnir af,“ sagði Andrés. Benti hann á að karlar væru oft líka gagnrýndir en á allt annan hátt. „Það er hjólað í eiginleika konunnar, gáfu hennar og hæfni. Farið beint í bara ,Þú átt ekki skilið að vera hérna’.“

Hatrið á tengingunni öllu yfirsterkara

Síðar var rætt um mismunandi umfjöllun um konur og karla og ákveðna „kvenlæga“ umfjöllun. Nefndi Katrín sem dæmi þegar að Halla Tómasdóttir fékk starf í sumar hjá B-Team. „Þetta er eitt af stærstu djobbum sem Íslendingur hefur landað erlendis. Fréttin um þetta birtist á Smartlandi. Þetta fór ekki einu sinni á viðskiptasíðurnar,“ sagði Katrín. „Halla er smart en ég meina, ég var sárlega móðguð fyrir hennar hönd. Ég er viss um að hefði þetta verið karl væri búið að kalla hann í Kastljós og hann fengið drottningarviðtöl í öllum blöðum, en nei látum þetta vera í Smartlandi og týnast þar.“

Edda rifjaði upp þegar hún var ráðin hjá RÚV sem íþróttafréttakona en á sama tíma var pabbi hennar útvarpsstjóri og hlaut töluverða gagnrýni fyrir það.  „Ég bara sótti um og fór í fréttamannapróf og gerði alla þessa hluti. Var líka með MS próf í blaða- og fréttamennsku. En hatrið á þessari tenginu var alltaf meira og yfirsterkara. Svo var mér sagt upp á RÚV og fannst það eiginlega bara ágætt. Ég hafði ekki haft það í mér að ganga aftur  þarna inn eftir þessar uppsagnir.“

Bætti hún við að fólk væri enn að tala um þetta, mörgum árum síðar. „Fólk veit kannski ekki hvort ég heiti Erna eða Edda en það veit alltaf að ég er Pálsdóttir.“

Stefanía nefndi sem dæmi þegar að hún fór í prófkjör og var að reyna að koma sér á framfæri í fjölmiðlum. Komst hún í eitt blaðið en fréttapunkturinn varð að pabbi hennar, sem var þá þekktur kosningastjóri, væri að stýra kosningabaráttunni. Með fylgdi mynd af henni með pabba sínum.

Vanir að bjarga hvor öðrum

Næsta spurning sneri að því hvort það væri virkilega þannig að konur séu konum verstar.

Katrín sagðist aldrei muna taka undir það og að henni þætti það vera klisja sem ætti að útrýma. „En ég skil hana ofsalega vel,“ sagði hún. „Ég skil rosalega vel að konur séu bara 8% forstjóra. Konur hlaupa svolítið í skjól eða láta ekki heyra í sér því þær vita ef þær stíga fram eru þær settar í hakkavélina. Ef hlutföllin væru jafnari, fengju þær meiri kannski meiri stuðning.”

Katrín bætti við að karlar séu vanir að bjarga hvor öðrum. „Það er fallhlíf fyrir þá“ segir hún og bætir við hvernig karlarnir réttu forstjóranum fallhlíf í ákveðnu máli hjá Orkuveitunni nýlega. „Það væri búið að taka konuna af lífi sem hefði rétt þessa fallhlíf.“

Karlar hræddari við að taka afstöðu

#metoo byltingin barst einnig í tal. Katrín sagði að sér hafi fundist áhugavert að allir hafi verið sammála um að líkamleg áreitni væri „algjört nono“ og þá karlmenn líka. „En um leið og maður fór að tala um meðvitað eða ómeðvitað kynferðislegt eða kynbundið misrétti t.d bara í orðræðunni, eins og að allt sé karllægt þar, eða hrútskýringar eða augnaráðið, þá urðu þeir brjálaðir,“ sagði Katrín. „Það hefur verið öskrað á mig á stjórnarfundi þar sem mér var sagt að þetta misrétti væri bara ekki rétt. Þeir áttu auðvelt með að viðurkenna þetta líkamlega en þetta óþreifanlega eiga þeir enn eftir að fatta. Þarna eigum við mikið verk að vinna.“

Einnig barst í tal afstaða karla í þessum málum. Benti Edda á að sér þætti eins og karlar væru hræddari við að taka afstöðu í málum sem tengjast konum. Nefndi hún sem dæmi þegar hún varð fyrir ofbeldi í vinnuferð í Rússlandi í sumar hafi fjölmiðlakonur stigið fram og fordæmt það en ekkert heyrðist í fjölmiðlakörlum. „Af hverju sendu þeir ekki líka eitthvað frá sér?“ spurði Edda og sagðist hafa fengið fjölmörg skilaboð og faðmlög en voða lítinn stuðning frá körlum opinberlega.

Katrín tók undir það. „Mér finnst ég stundum verið að predika fyrir páfann. Mikið vildi ég að það væri fullur salur af körlum hérna. Við erum alltaf að tala við hvor aðra.“

Stjórn UAK þakkar þátttakendum kærlega fyrir komuna og skemmtilegar umræður.