Heimsókn til ríkislögreglustjóra

In by Hugrún Elvarsdóttir

Viðburður fer fram: 19/03/2024
Klukkan: 5:00 e.h. - 7:00 e.h.
Hvar: Húsnæði Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar, Krókháls 5b


Þriðjudaginn 19. mars nk. býður ríkislögreglustjóri félagskonum UAK í heimsókn. 

Það kom skýrt fram á ráðstefnu UAK vorið 2023 sem bar yfirskriftina ,,Jafnrétti á okkar lífsleið” að Ísland á langt í land þegar kemur að kynbundnu ofbeldi sem brýtur gegn mannréttindum og grundvallarfrelsi kvenna. Í kjölfarið ákvað UAK að setja umræðu um kynbundið ofbeldi í forgang og hélt m.a. viðburð á Kvennafrídaginn þann 24. október s.l. undir yfirheitinu Tölum um ofbeldi þar sem aðilar líkt og Bjarkarhlíð, öryggis- og greiningarsvið ríkislögreglustjóra, aðilar frá atvinnulífinu, Heimilisfriður og hagsmunasamtök brotaþola komu saman og og ræddu um kynbundið ofbeldi í íslensku samfélagi og kynferðislega áreitni á vinnustöðum. Samkvæmt opnunarávarpi Katrínar Jakobsdóttur á ráðstefnunni er heimilsofbeldi um helmingur af afbrotum á Íslandi. Félagið vill því halda áfram að berjast gegn kynbundnu ofbeldi og hvetur allar félagskonur til þess að mæta í heimsókn til Ríkislögreglustjóra þar sem tækifæri gefst til þess að skyggnast inn í þeirra störf, breytingar undanfarin ár, þau verkefni sem eru í gangi á vegum afbrotavarna með áherslu á kynbundið ofbeldi og eiga samtal. 

Við bendum á að félagið er með söfnun í gangi til styrktar Bjarkarhlíðar þar sem allur ágóði á sölu á skissubók UAK rennur til þeirra, sjá hér: https://www.ungarathafnakonur.is/product/uak-skissubok/.

Dagskrá:

  1. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri tekur á móti félagskonum UAK og fer yfir áherslur sínar og þær breytingar sem hún hefur beitt sér fyrir hjá lögreglunni undanfarin ár. 
  2. Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri afbrotavarna hjá ríkislögreglustjóra segir okkur frá þeim verkefnum sem eru í gangi vegna afbrotavarna með áherslu á kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn börnum.
  3. Félagskonur fá kynningu á bæði þjálfun og aðstöðu mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar. 
  4. Léttar veitingar

Sigríður Björk Guðjónsdóttir (f. 10. júlí 1969) er lögfræðingur, lögreglumaður og núverandi ríkislögreglustjóri. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, skipaði Sigríði í embætti ríkislögreglustjóra þann 12. mars árið 2020. Hæfnisnefnd hafði metið Sigríði hæfasta umsækjandann um starfið og tók hún við embættinu þann 16. mars sama ár.

Á árunum 2014 til 2020 gegndi Sigríður Björk embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, 2009 til 2014 gegndi hún embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, 2007 til 2008 var hún aðstoðarríkislögreglustjóri þar áður var hún sýslumaður á Ísafirði á árunum 2002-2006 og skattstjóri Vestfjarða frá 1996 til 2002.

Eygló Harðardóttir (f. 12. desember 1972) er verkefnisstjóri afbrotavarna á skrifstofu ríkislögreglustjóra, með áherslu á kynbundið ofbeldi og börn. 

Hún hefur átt sæti m.a. í aðgerðateymi gegn ofbeldi, starfshópi um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynbundnu ofbeldi og kynferðisbrotum, starfshópi um þjónustu vegna ofbeldis og starfshópi um bætta heilbrigðisþjónustu vegna kynferðisofbeldis.

 Eygló lauk sveinsprófi í matreiðslu í janúar 2024. Hún var verkefnisstjóri við byggingu áfangaheimilis og neyðarathvarfs Samtaka um kvennaathvarf 2017-2022, þingmaður Framsóknarflokksins fyrir Suðurkjördæmi 2008-2013, SV-kjördæmi 2013-2017 og samstarfsráðherra Norðurlandanna og félags- og húsnæðisráðherra 2013-2016.

Vekjum athygli á því að takmarkaður fjöldi plássa er í boði og mikilvægt er að skrá sig!

Hlökkum til að sjá ykkur!

Skráning

Skráning er lokuð.