Hvar er frúin í Hamborg? Fjárfestum til framtíðar

In by Aðalheiður Júlírós

Viðburður fer fram: 28/11/2023
Klukkan: 5:30 e.h. - 7:00 e.h.
Hvar: Arion Banki, Borgartún 19


Í samstarfi við Nasdaq Iceland stendur UAK fyrir viðburðinum Hvar er frúin í Hamborg? Fjárfestum til framtíðar þann 28. nóvember n.k. í sal Arion Banka. Húsið opnar kl. 17 og hefst dagskrá stundvíslega kl. 17:30.

UAK og Nasdaq Iceland hafa staðið saman að viðburðum undanfarin misseri sem taka til þess að efla þekkingu ungs fólks á fjármálum og hlutabréfamörkuðum. Áherslan hjá Nasdaq Iceland í ár er fræðsla til almennra fjárfesta en markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi aukins fjármálalæsis og fjárfestaverndar.

Fyrr í vor stóð UAK fyrir viðburðinum, Fjármál 101, sem var mjög vel sóttur og mikil eftirspurn hefur verið eftir framhaldi meðal félagskvenna. Því ætlar Snædís Ögn Flosadóttir, forstöðumaður sölu og þjónustu fjárfesta hjá Arion Banka, að mæta aftur til okkar og mun hún taka sérstaklega fyrir fjárfestingar og hlutabréfaviðskipti. Að því loknu munum við spjalla við hana Guðbjörgu Eddu Eggertsdóttur um hennar vegferð og reynslu í fjárfestingum. Iða Brá Benediktsdóttir, aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka, mun opna viðburðinn.

Markmið viðburðarins er að fylla félagskonur innblæstri til að taka upplýstar ákvarðanir um sínar fjárfestingar og stuðla þannig að aukinni þekkingu og fjárhagslegu sjálfstæði ungs fólks. Að loknum erindum gefst tækifæri til tengslamyndunar og léttar veitingar verða í boði Arion banka.

Mikilvægt er að skrá sig á viðburðinn til að tryggja sér sæti.

Hlökkum til að sjá þig!


Iða Brá Benediktsdóttir er aðstoðarbankastjóri og framkvæmdarstjóri viðskiptabankasviðs Arion Banka Hún tók við starfi framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs í júlí 2017 og starfi aðstoðarbankastjóra í apríl 2022.

Iða Brá hefur starfað hjá Arion banka og forverum hans frá árinu 1999. Frá þeim tíma hefur hún gegnt ýmsum störfum innan bankans, nú síðast sem framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs frá 2016 til 2017. Áður hafði Iða Brá m.a. verið forstöðumaður samskiptasviðs, einkabankaþjónustu og í fjárstýringu bankans. Iða hefur setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja; Sparisjóðs Ólafsfjarðar, AFL – sparisjóðs, fasteignafélagsins Landfesta og HB Granda hf. Iða Brá er varaformaður stjórnar Varðar trygginga hf. Iða Brá er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hún er með MSc í fjármálum frá Erasmus Graduate School of Business í Hollandi og með próf í verðbréfaviðskiptum.

Fjármál 201 – Fjárfestingar

Snædís Ögn Flosadóttir er forstöðumaður Sölu og þjónustu fagfjárfesta hjá Arion banka. Snædís hefur starfað á mörkuðum síðastliðin fimmtán ár. Á þeim árum hefur hún komið að fjölmörgum þáttum stýringar lífeyrissjóða og þjónustu við fagfjárfesta; eignastýringu fagfjárfesta, daglegs reksturs lífeyrissjóða, áhættu- og gæðastýringu. Og svo sl. átta ár sem framkvæmdastjóri lífeyrissjóðanna EFÍA og LSBÍ og rekstrarstjóri Lífeyrisauka, viðbótarlífeyrissparnaðar Arion banka. Á þessum árum hefur hún einnig unnið með Landssamtökum lífeyrissjóða, var formaður fræðslunefndar samtakanna, ásamt því að hafa komið að ýmsum verkefnum á þeirra vegum.  

Snædís hefur m.a talað fyrir áherslum lífeyrissjóða í ábyrgum fjárfestingum og aukinni fræðslu og stuðningi við fjármálalæsi, bæði hér heima og erlendis. Hún hefur haldið fjölda fyrirlestra, tekið þátt í innlendum og alþjóðlegum ráðstefnum og birt greinar um þessi málefni og fleiri er tengjast umhverfi og regluverki lífeyrissjóða.

Sófaspjall með Guðbjörgu Eddu

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir starfaði hjá Actavis og forverum þess í yfir 30 ár og gegndi ýmsum stjórnunarstöðum þar, síðast sem forstjóri Actavis á Íslandi 2010-2014. Síðan þá hefur hún setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og staðið að eigin fjárfestingum. Guðbjörg Edda situr nú í stjórn Össurar hf frá 2013, Florealis ehf 2014-2023, Orf Líftækni hf frá 2015, Bioeffect ehf frá 2015, Brunnur Vaxtarsjóði frá 2015, Saga Medica nú Saga Natura ehf frá 2016 og Coripharma Holding ehf frá 2018. Einnig er hún formaður stjórnar og Háskólaráðs Háskólans í Reykjavík frá 2022. Guðbjörg Edda er með Kandídatspróf í lyfjafræði (M.Sc. Pharm.) frá Danmarks Farmaceutiske Höjskole (nú Copenhagen University).

Skráning

Skráning er lokuð.