Hvernig vinnuumhverfi vilt þú skapa?

In by Bjarklind

Viðburður fer fram: 14/12/2020
Klukkan: 8:00 e.h. - 10:00 e.h.
Hvar: ,


UAK mun mánudagskvöldið 14. desember klukkan 20:00 standa fyrir panelumræðum um vinnustaðamenningu út frá jafnréttissjónarmiðum, undir yfirheitinu “Hvernig vinnuumhverfi vilt þú skapa?” Viðburðurinn verður stafrænn og eingöngu opinn fyrir félagskonur UAK, en þær sem skrá sig munu fá sendan hlekk á Zoom fund.

Tilgangur viðburðarins er að ræða um vinnuumhverfi og hvaða þættir það eru sem skipta máli þegar kemur að því að tryggja jafnrétti á vinnustöðum. Við veltum meðal annars upp hlutverkum “þriðju vaktarinnar” á vinnustöðum og hverjir sinna henni, hvaða aðgerðum fyrirtæki geta beitt til þess að tryggja vinnuumhverfi sem öllum hugnast að vinna í og hvernig ungar athafnakonur geta haft áhrif á þeirra vinnuumhverfi.

Gestir kvöldsins verða Auður Albertsdóttir, ráðgjafi hjá samskiptafélaginu Aton.JL, Selma Svavarsdóttir, forstöðumaður á starfsmannasviði Landsvirkjunar, og Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, stofnandi og eigandi Empower. Panelstýra verður Björgheiður Margrét Helgadóttir, fjármálastjóri UAK. Við viljum endilega fá félagskonur til þess að taka þátt í umræðunni með okkur og munum hvetja ykkur til þess að spurja spurninga í lokin.

Nánar um gesti

Auður Albertsdóttir starfar sem ráðgjafi hjá samskiptafélaginu Aton.JL en áður var hún blaðamaður og umsjónarmaður viðskiptafrétta hjá mbl.is. Auður er með MS gráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá HÍ og BA gráðu í bókmenntafræði frá sama skóla. Auður sat í stjórn UAK starfsárin 2018-2019 og 2019-2020.

Selma Svavarsdóttir er forstöðumaður á skrifstofu forstjóra/starfsmannasviði hjá Landsvirkjun. Hún er með MBA próf frá Háskólanum í Reykjavík, B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og er markþjálfi frá Háskólanum í Reykjavík og Coach University.
Selma hefur hjá Landsvirkjun leitt jafnréttisáherslu fyrirtækisins, unnið að ýmsum breytingaverkefnum, menningu, innri markaðssetningu, samskiptum og verið forstöðumaður innri þjónustu. Áður vann hún í markaðsmálum hjá Arion banka. Í frítímanum sinnir Selma áhugamálinu sem er Heimilisfélagið, netverslun sem hún stofnaði árið 2016.

Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé er stofnandi og eigandi Empower sem er alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki í jafnréttismálum. Empower hefur leitt helstu fyrirtæki og stofnanir í gegnum verkefnið Jafnréttisvísi sem er vitundarvakning og stefnumótun í jafnréttismálum. Þórey býr yfir 20 ára reynslu af fyrirtækjarekstri, stjórnun og stefnumótun. Hún situr í stjórn Íslandsnefndar UN women og er einn af stofnendum V-dagsins á Íslandi (V-day), samtök sem berjast gegn kynbundnu ofbeldi. Hún hefur einnig reynslu úr stjórnsýslu og stjórnmálum sem fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra og fyrrverandi formaður Landssamband Sjálfstæðiskvenna.

Opnað hefur verið fyrir skráningu og hvetjum við félagskonur til að skrá sig sem fyrst.

Hlökkum til að sjá ykkur!

 

Skráning

Skráning er lokuð.