Konur í hönnun og listum

In by admin

Viðburður fer fram: 21/04/2020
Klukkan: 7:30 e.h. - 10:00 e.h.
Hvar: ,


Þriðjudaginn 21. apríl munum við standa fyrir örfyrirlestrakvöldi um konur í hönnun og listum. Viðburðurinn hefst kl. 20:00 en „húsið” opnar kl. 19:30. 

Við munum fá fjórar konur úr ólíkum áttum listageirans til að deila reynslu sinni með félagskonum, segja frá ferli sínum og þeirra sýn á stöðu kynjajafnréttis í dag með tilliti til atvinnugreinarinnar. Á þessum viðburði gefst félagskonum einstakt tækifæri til að hlusta á og fá innblástur frá þremur flottum fyrirmyndum. 

ATH! Vegna gildandi samkomubanns verður viðburðurinn í formi fjarfundar og munu skráðar félagskonur því fá sendan link og nánari upplýsingar um fyrirkomulag þegar nær dregur. Við hvetjum ykkur eindregið til að sækja þennan viðburð og njóta hans að heiman. Viðburðurinn er aðeins fyrir félagskonur UAK. 

Fyrirlesarar verða:

Hildur, lagahöfundur og tónlistarkona.

Hildur Kristín Stefánsdóttir (Hildur) er lagahöfundur og tónlistarkona úr Reykjavík, fædd 1988. Hún hefur getið sér gott orð sem popp-lagahöfundur og ber þar helst að nefna lögin “I’ll Walk With You” sem hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin fyrir popplag ársins árið 2017, Bammbaramm sem komst í úrslit Söngvakeppninnar 2017 og svo lagið Picture Perfect sem hefur verið streymt hátt í 4 milljón sinnum á Spotify. Hún hefur gefið út tvær EP-plötur með eigin tónlist og vinnur nú að fyrstu plötunni í fullri lengd. Hildur vinnur líka mikið erlendis sem lagahöfundur fyrir aðra listamenn í Þýskalandi, Norðurlöndunum og Bretlandi. Árið 2018 landaði hún stórum publishing samning við fyrirtækið Kobalt. Hildur hefur einnig haldið lagasmíðanámskeið bæði á eigin vegum með áherslu á kven-lagahöfunda og einnig í samstarfi við Stef ásamt Jóni Jónssyni. Hún kennir nú lagasmíðar í MÍT/FÍH. Áður fyrr var Hildur einnig afkastamikil í indie-rokki með hljómsveitinni Rökkurró þar sem hún söng og spilaði á selló en hljómsveitin gaf út þrjár breiðskífur og fóru á nokkur tónleikaferðalög um Evrópu.

Ugla Hauksdóttir, leikstjóri og handritshöfundur

Ugla Hauksdóttir útskrifaðist í kvikmyndaleikstjórn frá Columbia University í Bandaríkjunum árið 2016. Síðan þá hefur hún starfað við nokkuð stór verkefni í kvikmyndaheiminum en hún leikstýrði m.a. tveimur þáttum í Ófærð 2. Hún hefur einnig skrifað og leikstýrt nokkrum stuttmyndum og tónlistarmyndböndum. Í upphafi þessa árs var Ugla ráðin til að leikstýra tveimur þáttum í nýrri þáttaröð streymisveitunnar Amazon sem heita The Power en verkefnið er það stærsta á ferli hennar sem leikstjóri.

 

Þórhildur Laufey Sigurðardóttir, vörumerkjastýra Orku náttúrunnar.

Þórhildur (Tóta) er grafískur hönnuður og bókmenntafræðingur og útskrifaðist með M.a. gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á sjónræna menningarfræði (hér má lesa ritgerðina „Rusl menningar“ https://skemman.is/handle/1946/10622). Hún hefur einnig B.a. gráðu í grafískri hönnun frá Den Grafiske Højskole í Danmörku og B.a. gráðu í bókmenntafræði frá HÍ. Þórhildur er einnig forstýra og ein af stofnefndum Grapíku – félagi kvenna í hönnun á Íslandi. Þórhildur Laufey vinnur þessa dagana að vörumerkjauppbyggingu Orku náttúrunnar en þar áður var hún vörumerkjastýra Krónunnar og átti þar mikinn þátt í uppbyggingu vörumerkisins og mótun stefnu fyrirtækisins í umhverfis- og markaðsmálum. Þórhildar hefur einnig starfað hjá markaðsdeild Íslandsbanka, rekið eigið fyrirtæki – Kúper Blakk, og kennt hagnýta fjölmiðlun við Háskóla Íslands ásamt því að halda fyrirlestra um mörkun vörumerkja (e. branding). Hennar helsta ástríða er að nýta „hönnunarheilann“ og  breyta heiminum til hins betra.

Þuríður Blær Jóhannsdóttir, leikkona og meðlimur og stofnandi Reykjavíkurdætra

Þuríður Blær Jóhannsdóttir er leikkona í Borgarleikhúsinu. Hún útskrifaðist frá leiklistardeild LHÍ árið 2015 og hefur síðan þá leikið hlutverk á borð við Nínu í Mávinum, Sölku Völku í Sölku Völku og Strákinn í Himnaríki og Helvíti. Þuríður var þar að auki í Njálu og Mamma mia sem slógu rækilega í gegn á sviði Borgarleikhússins. Þá lék hún í bíómyndinni Svanurinn og þáttunum Flateyjargátan. Þuríður er einnig meðlimur og stofnandi hljómsveitarinnar Reykjavíkurdætur en hljómsveitin hefur spilað út um allan heim og unnu nýverið tvenn verðlaun á MME verðlaununum í Hollandi. Þær fengu einnig viðurkenningu á degi Íslenskrar tungu.

Skráning

Skráning er lokuð.