Viðburður fer fram: 03/10/2018
Klukkan: 6:00 e.h. - 9:00 e.h.
Hvar: Háskólinn í Reykjavík, Menntavegur 1
Miðvikudaginn 3. október næstkomandi mun UAK halda örfyrirlestrakvöld um starfsframa og fjölskyldulíf. Viðburðurinn, sem verður haldinn í Háskólanum í Reykjavík (stofu M104), ber heitið „En hvar eru börnin þín?“ og er þar vitnað í spurningu sem margar mæður fá í daglegu amstri. Húsið opnar kl 18.00 og mun dagskrá ljúka um kl 21.00. Fyrsti örfyrirlesturinn hefst kl 18.15 svo við hvetjum félagskonur til að vera mættar tímanlega.
Við munum fá fjórar kraftmiklar konur til okkar en hver og ein þeirra mun halda stutt erindi um mismunandi málefni sem tengjast því að samtvinna þessa tvo mikilvægu þætti í lífi okkar; starfsframa og fjölskyldulíf. Eftir hvert erindi mun félagskonum gefast tækifæri til að spyrja spurninga. Gert verður hlé á erindum miðja vegu og boðið upp á léttan kvöldmat.
Dagný Ósk Aradóttir Pind, lögmaður hjá Rafiðnaðarsambandi Íslands, mun fræða okkur um réttindi mæðra á vinnumarkaði, fæðingarorlof og fleira í þeim dúr sem er oft óljóst og erfitt að fá skýr svör um.
Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, forstjóri Marel á Íslandi, hefur einstaka sögu að segja þegar kemur að því að eignast börn og vera móðir í ábyrgðarmiklu starfi.
Björt Ólafsdóttir, formaður Bjartrar framtíðar og fyrrverandi Umhverfis- og auðlindaráðherra, ætlar að segja okkur frá sinni reynslu og upplifun af því að eiga börn í stjórnmálasenunni á Íslandi.
Helen Breiðfjörð, mannauðsstjóri Sýn, mun ræða málin frá sjónarhorni vinnustaðarins en Vodafone hefur beitt sér fyrir jafnrétti og gaf út yfirlýsingu síðastliðið haust um að þau ætli að þróa áfram sérstaka fjölskyldustefnu.
Opnað hefur verið fyrir skráningu á viðburðinn en takmarkaður fjöldi sæta er í boði svo við mælum með að félagskonur skrái sig sem fyrst til að tryggja sér sæti.
Skráning
Skráning er lokuð.