Starfsþróun – örfyrirlestrakvöld

In by asbjorge

Viðburður fer fram: 28/11/2017
Klukkan: 6:00 e.h. - 9:30 e.h.
Hvar: Vonarsalur SÁÁ, Efstaleiti 7


Þriðjudagskvöldið 28. nóvember næstkomandi ætla Ungar athafnakonur að hittast í Vonarsal SÁÁ og fræðast um starfsþróun í formi örfyrirlestra. Húsið opnar kl 18.00 og hvetjum við félagskonur til að vera mættar tímanlega þar sem fyrsti örfyrirlesturinn hefst kl 18.15.
 
Venju samkvæmt hefur UAK fengið kraftmiklar konur til liðs við sig en hver og ein þeirra mun halda stutt erindi um málefni sem þær þekkja vel til og tengjast starfsþróun. Eftir hvert erindi mun félagskonum gefast tækifæri til að spyrja spurninga. Gert verður hlé á erindum um kvöldmatarleytið þar sem boðið verður upp á veitingar.
 
Dagskráin er eftirfarandi:
 
18.00: Húsið opnar
18.15: Sjáðu mig! – Sandra Björg Helgadóttir ræðir hvernig á að koma sér á framfæri innan fyrirtækis
18.45: Leiðtogahæfni – Lára Óskarsdóttir fjallar um hvernig við getum unnið gegn vanmati á okkur sjálfum
19.15: Matarhlé
19.45: Draumastarfið – hvernig kemst ég þangað? – Unnur María Birgisdóttir ræðir hvernig maður á að finna starf við hæfi og landa því
20.15: Elevator pitch – Kristrún Frostadóttir fer yfir mikilvægi undirbúnings fyrir viðtöl og samtöl almennt
20.45: Að semja um laun – Guðrún Ragnarsdóttir miðlar sinni reynslu af því hvernig við fáum sem mest úr launaviðtölum.
 
Opnað hefur verið fyrir skráningu á viðburðinn en takmarkaður fjöldi sæta er í boði svo við mælum með að félagskonur skrái sig sem fyrst til að tryggja sér sæti.
 
Nánar um erindi og flytjendur:
 
Sjáðu mig!
Sandra fer yfir það hvernig hún komst í gegnum þær hindranir sem urðu á vegi hennar í þeirri starfsþróun sem hún þráði hjá Ölgerðinni. Mikilvægi sjálfstrausts í starfi, vinnusemi og kjarks.
 
Sandra Björg Helgadóttir starfar hjá Ölgerðinni sem vörumerkjastjóri PepsiCo vörumerkjanna. Hún hóf starfsferil sinn hjá Ölgerðinni árið 2013 og hefur síðan þá starfað innan fyrirtækisins á fjórum mismunandi stöðum. Sandra starfar í dag hjá fyrirtækinu KVAN við að efla ungt fólk ásamt því að bjóða fyrirlestra um markmiðasetningu og fleira. Hún hefur einnig starfað sem dansari og spinningkennari og hefur meðal annars staðið fyrir styrktarspinningtímanum Stærsti Spinningtími Ársins 2 ár í röð. Sandra er með BS próf frá Háskóla Íslands í iðnaðarverkfræði.
 
Ert þú skörungur?
Fyrirlestur um leiðtogahæfni
„Hvað heldur þú að þú sért“ er setning sem ekki er sögð upphátt við okkur en við hugsum oft á þennan hátt til okkar sjálfra, sérstaklega þegar okkur bjóðast ný tækifæri eða áskoranir. Fyrirlesturinn Ert þú skörungur? fjallar um hvernig við getum unnið gegn vanmati á okkur sjálfum.
 
Lára Óskarsdóttir er PCC markþjálfari. Lára lauk B.Ed. próf frá HÍ 2008 og diplóma í mannauðsstjórnun frá EHÍ. Hún hefur einnig lokið námi í stjórnendamarkþjálfun (e. Executive coaching) frá Opna háskólanum í HR og Coach University. Lára er með PCC vottun frá International Coach Federation. Árið 2016 lauk hún námi í Straumlínustjórnun (Lean management) frá Opna háskólanum í HR. Lára rak sitt eigið fyrirtæki til ársins 1994 en söðlaði þá um. Um árabil starfaði hún sem kynningarstjóri fyrir Íþrótta- og Ólympíusambandið og Ungmennafélag Íslands. Hún starfaði sem Dale Carnegie þjálfari fram til ársins 2013. Lára hefur mikla reynslu af kennslu, þjálfun og námskeiðahaldi og hefur m.a. starfað með stjórnendum og starfsmönnum fjölda fyrirtækja og stofnanna á Íslandi. Lára þýddi bókina Meira sjálfstraust eftir Paul McGee, 2010.
 
Draumastarfið – hvernig kemst ég þangað?
Hvað vil ég verða þegar ég verð stór? Þegar kemur að því að finna starf við hæfi er mikilvægt að vera fylgin sér. Unnur María fjallar um hvernig finna megi draumastarfið og fara í gegnum atvinnuleitina án þess að gefa of mikinn afslátt af eigin gildum.
 
Unnur María Birgisdóttir er þjálfunarsálfræðingur og stjórnandi hjá heilbrigðistæknifyrirtækinu SidekickHealth. Hjá SidekickHealth kemur hún að sölu og viðskiptaþróun, vöruþróun og þjálfun heilbrigðisstarfsfólks út um allan í heim, ásamt því að bera ábyrgð á góðri upplifun viðskiptavina. Unnur hefur starfað í mannauðsmálum hjá þremur íslenskum fyrirtækjum, þar af sem mannauðsstjóri hjá tveimur þeirra. Hún hefur einnig verið sjálfstætt starfandi sem þjálfunarsálfræðingur í nokkur ár, mest með atvinnuíþróttafólki bæði hérlendis og erlendis. Unnur María er með BSc í heilbriðgisvísindum frá Kaupmannahöfn og MSc í þjálfunarsálfræði (coaching psychology) frá London.
 
Segðu rétt frá, segðu þína sögu
Kristrún ætlar að fara yfir mikilvægi undirbúnings fyrir viðtöl og samtöl almennt um starfsþróun. Góð viðtalstækni og framkoma snýst að miklu leyti um hvernig viðkomandi rammar inn sína sögu, hvaðan við komum og hvert við erum að fara. Auðmýkt og ósérhlífni, sjálfstraust og metnaður geta vel farið saman.
 
Kristrún Frostadóttir tók við starfi hagfræðings Viðskiptaráðs Íslands í vor. Hún starfaði áður hjá bandaríska fjárfestingarbankanum Morgan Stanley, sem sérfræðingur í greiningardeild, fyrst í New York og síðan í London. Hún hefur setið í nefndum og starfshópum á vegum ráðuneyta, og starfaði áður m.a. hjá Arion banka og Seðlabanka Íslands. Kristrún er með meistaragráðu í alþjóðafræðum frá Yale-háskóla í Bandaríkjunum, með áherslu á hagstjórn og alþjóðafjármál, og meistaragráðu í hagfræði frá Boston-háskóla. Þá er hún með BS-próf í hagfræði frá Háskóla Íslands.
 
Ertu fyrirvinna?
Guðrún ætlar að fara yfir það hvernig maður fær þau laun sem maður á skilið og hvernig er best að fara að í launaviðtölum. Hún mun deila sinni eigin persónulegu reynslu á málaflokknum en hún er þaulreynd á vinnumarkaðnum.
 
Guðrún Ragnarsdóttir er meðeigandi og ráðgjafi hjá fyrirtækinu Strategía, ásamt því situr hún í stjórn FKA og Fræðslusjóðs. Hún hefur mikið starfað innan fjármálageirans og setið í fjölda stjórna m.a. hjá Samkeppniseftirlitinu, Samninganefnd ríkisins, Bankasýslu ríkisins og Nýherja svo fátt eitt sé nefnt. Hún er með BS gráðu í viðskiptum frá Carleton University í Kanada og MBA gráðu í gæðastjórnun frá Nyenrode Business University í Hollandi.

Skráning

Skráning er lokuð.