Stýra hormónar starfsferlinum?

In by Aðalheiður Júlírós

Viðburður fer fram: 01/02/2023
Klukkan: 8:00 e.h. - 10:00 e.h.
Hvar: Kex Hostel (Nýló salurinn), Skúlagata 28


Þann 1. febrúar stendur UAK fyrir viðburði í Nýló sal á Kex Hostel sem ber yfirheitið “Stýra hormónar starfsferlinum?”. Húsið opnar kl. 19:30 en viðburðurinn hefst kl. 20:00. Leitast verður svara við spurningunni með erindum frá einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn. Markmið viðburðarins er að vekja athygli á mikilvægi þess að hlúa að eigin líðan og heilsu, stuðla að vitundarvakningu um kvenheilsu og gera grein fyrir hvernig málefnið snerti allt samfélagið með einum eða öðrum hætti. Til þess, fáum við til liðs við okkur góða gesti.

Hanna Lilja Oddgeirsdóttir sérnámslæknir í kvensjúkdóma- og fæðingalækningum og stofnandi og framkvæmdastjóri lækninga hjá GynaMedica, Lilja Guðmundsdóttir formaður Samtaka um endómetríósu, Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Erla Björnsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Betri svefns munu vera með erindi á viðburðinum.

Þar á eftir munu þau taka þátt í pallborðsumræðum sem Andrea Eyland, athafnakona mun stýra. Félagskonur munu fá tækifæri til að senda inn spurningar fyrir umræðurnar og þannig fræðast enn frekar um málefnið.

Hlökkum til að sjá ykkur.


Hanna Lilja Oddgeirsdóttir er læknir og er að klára sérhæfingu sem kvensjúkdóma- og fæðingalæknir. Hanna Lilja er meðstofnandi og eigandi lækninga- og heilsumiðstöðvarinnar GynaMedica sem sérhæfir sig í fræðslu, ráðgjöf og meðferð fyrir konur á breytingaskeiði. Auk þess heldur hún úti fræðslusíðunni Gynamedica á instagram og er ötull talsmaður aukinnar vitundarvakningar um heilsu kvenna.


Lilja Guðmundsdóttir er formaður Samtaka um endómetríósu og upphafskona Tilurðar, hugarfósturs tveggja vinkvenna sem þekkja ófrjósemi af eigin raun. Lilja er með MA gráðu í óperusöng og er í mastersnámi í félagsráðgjöf. Hún starfar sem forstöðumaður á sambýli fyrir fatlað fólk, sem söngkona og söngkennari.

Árið 2020 skrifaði Lilja meistararitgerð í félagsráðgjöf um upplifun kvenna með endómetríósu af viðmóti heilbrigðiskerfisins. Hún hefur verið viðriðin starf Samtaka um endómetríósu síðan hún var sjálf greind með sjúkdóminn árið 2017 en var kjörin formaður í apríl 2022. Samtökin hafa það að meginmarkmiði að berjast fyrir réttindum fólks með endómetríósu, stuðla að vitundarvakningu í samfélaginu og að veita fólki með endómetríósu og aðstandendum þeirra stuðning.


Halldór Benjamín hefur verið framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins frá árinu 2016 en var framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Icelandair Group hf. 2009-2016. Hann hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu m.a. sem hagfræðingur og síðar framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands um tíma. Auk þessa hefur hann m.a. starfað hjá Milestone, Norræna fjárfestingabankanum og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Halldór Benjamín hefur sinnt stundakennslu í þjóðar- og rekstrarhagfræði bæði við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og er höfundur fjölda greina og rita um hagfræðileg málefni.


Dr. Erla Björnsdóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri Betri svefns. Erla er klínískur sálfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum og sérfræðingur í svefnrannsóknum.

Erla hefur birt fjölda greina í erlendum ritrýndum tímaritum og skrifað mikið um svefn á innlendum vettvangi og tengsl hans við hormón kvenna. Erla gaf út bókin Svefn með Forlaginu árið 2017 og barnabækurnar Svefnfiðrildin árið 2020 og Svefninn minn 2021.


Andrea Eyland er athafnakona sem hefur með störfum sínum unnið að því að gefa foreldrum og þá sérstaklega konum sterkari rödd í samfélaginu og hefur hún m.a. gefið út bókina Kviknar, sjónvarpsseríurnar Líf kviknar og Líf dafnar. Auk þess hefur hún séð um hlaðvarpið Kviknar og samnefndan Instagram reikning.

Skráning

Skráning er lokuð.