Viðburður fer fram: 31/01/2020
Klukkan: 8:00 e.h. - 10:00 e.h.
Hvar: Mengi, Óðinsgata 2
ATH. Skráningu líkur 31.janúar kl. 12:00
Tengslakvöld UAK verður haldið föstudaginn 31. janúar kl. 20:00 í Mengi, Óðinsgötu 2, húsið opnar 19:30. Á viðburðinum ætlum við að leggja áherslu á mikilvægi tengslaneta og kosti félagsstarfa ásamt því að velta upp áskorunum og tækifærum í þeim efnum. Að sjálfsögðu höldum við áfram í markmið tengslakvölda UAK sem er að félagskonur styrki innbyrgðis tengslanet sitt og skemmti sér saman.
Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups mun opna kvöldið og fjalla um hvers vegna tengslamyndun skiptir máli ásamt því að segja okkur frá reynslu sinni og áhrif félagsstarfa í atvinnulífinu. Þá munu þrjár fyrrverandi stjórnarkonur UAK þær Andrea Gunnarsdóttir, Rakel Guðmundsdóttir og Sigyn Jónsdóttir vera með stutt erindi og deila hinum ýmsu ráðum með félagskonum þegar kemur að félagsstörfum, frama og tengslaneti.
Kvöldið verður svo toppað með sérstakri forkynningu á dagskrá UAK dagsins 2020 en hún verður birt í fyrsta sinn á tengslakvöldinu.
Við minnum á að það verða fljótandi veigar í boði Coca Cola á Íslandi ásamt laufléttu snarli.
Hlökkum til að sjá ykkur og kynnast ykkur betur!
Um gestina:
Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups
Salóme hefur frá árinu 2014 starfað í hringiðu tækni og nýsköpunar sem framkvæmdastjóri Icelandic Startups. Hún hefur unnið náið með háskólum, stjórnvöldum, fjárfestum, hagsmunasamtökum atvinnulífsins og mörgum af framsæknustu fyrirtækjum landsins að því að byggja upp nýsköpunarumhverfið á Íslandi og verið valin meðal áhrifamestu einstaklinganna innan norræna sprotasamfélagsins (2016 og 2017). Árið 2017 var hún skipuð í sjö manna vinnuhóp á vegum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, MIT háskóla og Háskólans í Reykjavík um aðgerðir til að efla nýsköpunardrifinn hagvöxt, en því verkefni lauk í byrjun árs 2019 og hefur verið nýtt sem innlegg í nýsköpunarstefnu stjórnvalda. Áður en Salóme tók við starfi framkvæmdastjóra Icelandic Startups stýrði hún Opna háskólanum í HR. Hún er viðskiptafræðingur að mennt og lauk stjórnendanámi, AMP frá IESE Business School í Barcelona í júní s.l. Salóme situr í stjórn Viðskiptaráðs Íslands og hefur verið formaður stjórnar Byggingarfélags námsmanna frá árinu 2014. Salóme var skipuð varamaður í Útflutnings- og markaðsráði á síðasta ári og á einnig sæti í Fulltrúaráði SA fyrir hönd Samtaka iðnaðarins.
Andrea Gunnarsdóttir:
Andrea er að ljúka Bs.c í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur víðamikla reynslu úr félagsstörfum en samhliða verkfræðináminu hefur hún unnið að ýmsum verkefnum sem eiga það sameiginlegt að fylla hana eldmóði og hafa áhrif. Hún sat í stjórn Ungra athafnakvenna 2016 – 2018 og var varaformaður Ungmennaráðs UN Women á Íslandi. Andrea var formaður nýsköpunar – og frumkvöðlanefndar SFHR og hefur starfað náið með Icelandic Startups í gegnum fjölbreytt verkefni á þeirra vegum. Frá árinu 2018 hefur Andrea verið One Young World Ambassador en samtökin eru alþjóðlegur vettvangur sem tengir áhrifaríka unga leiðtoga með það að markmiði að skapa ábyrgari og betri heim.
Rakel Guðmundsdóttir:
Rakel Guðmundsdóttir sat í stjórn UAK fyrsta starfsárið, 2014-2015. Hún var rekstrarstjóri Gló 2013-2018. Rakel er með BSc gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og starfar í dag sem sérfræðingur hjá Alfa Framtak en Alfa Framtak rekur 7 milljarða króna framtakssjóð.
Sigyn Jónsdóttir:
Sigyn Jónsdóttir starfar sem Head of Professional Services hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Men&Mice og situr í stjórn Tækniþróunarsjóðs. Hún er með meistaragráðu í Management Science & Engineering frá Columbia University og var formaður UAK árin 2017-2019.
Skráning
Skráning er lokuð.