Tölum um ofbeldi

In by Aðalheiður Júlírós

Viðburður fer fram: 24/10/2023
Klukkan: 8:00 e.h. - 10:00 e.h.
Hvar: Kornhlaðan, Bankastræti 2


Í tilefni af Kvennafrídeginum þann 24. október mun UAK standa fyrir viðburðinum Tölum um ofbeldi en markmiðið er að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi í íslensku samfélagi og kynferðislegri áreitni á vinnustöðum.

Það kom skýrt fram á ráðstefnu félagsins vorið 2023 sem bar yfirskriftina ,,Jafnrétti á okkar lífsleið” að Ísland á langt í land þegar kemur að kynbundnu ofbeldi en það brýtur gegn mannréttindum og grundvallarfrelsi kvenna. Skamkvæmt opnunarávarpi Katrínar Jakobsdóttur á ráðstefnunni er heimilsofbeldi um helmingur af afbrotum á Íslandi. Félagið vill því t.a.m. vekja athygli á bæði þeim úrræðum sem standa félagskonum til boða, líkt og Bjarkarhlíð, en einnig hvernig vinnustaðir landsins geta fyrirbyggt og brugðist við kynferðislegri áreitni í vinnuumhverfinu.

Við vekjum athygli á því að takmarkaður fjöldi plássa er í boði og því mikilvægt að skrá sig á viðburðinn.

Húsið opnar kl. 19:30 og hefst viðburðurinn stundvíslega kl. 20:00.

Við hlökkum til að sjá ykkur!


 

,,Ég veit ekki hvort ég á heima hérna”

Svava Guðrún Helgadóttir og Karen Birna V. Ómarsdóttir eru ráðgjafar í Bjarkarhlíð.

Svava Guðrún er með BS gráðu í sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Þá stundar hún jafnframt meistaranám í klínískri sálfræði við sama skóla. Hún er með diplómugráðu í heilbrigðisvísindum með áherslu á sálræn áföll og ofbeldi við Háskólann á Akureyri. Svava hefur margra ára reynslu af starfi með börnum og unglingum með fjölþættan vanda og ýmis hegðunarfrávik. Svava hefur að leiðarljósi áfallamiðaða nálgun í starfi sínu með þolendum ofbeldis. Hún leggur ríka áherslu á að mæta þolendum þar sem þeir eru staddir og mæta þeim með stuðningi og samkennd. Þar með eru skilaboð þess efnis að ofbeldi sé ekki undir neinum kringumstæðum liðið.

Karen Birna er með BA og MA gráðu í félagsráðgjöf og starfsréttindi sem félagsráðgjafi. Karen stundaði nám við Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands. Karen hefur langa reynslu með að vinna með fólki og einkum í umönnunarhlutverki. Hún er mentor í þjónandi leiðsögn. Karen hefur tilkeinkað sér áfallamiðaða nálgun í vinnu sinnu með þolendur ofbeldis. Hún leggur áherslu á að vinna með þolendum ofbeldis á þeirra forsendum og jafnframt koma þeim skilaboðum til samfélagsins að ofbeldi sé aldrei liðið.

Um Bjarkarhlíð: Bjarkarhlíð er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Markmið Bjarkarhlíðar er að veita stuðning, ráðgjöf og fræðslu um eðli og afleiðingar ofbeldis. Bjarkarhlíð bíður upp á áfallamiðaða ráðgjöf, stuðning og upplýsingar fyrir þolendur ofbeldis, 18 ára og eldri.

Sófaspjall

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn og sviðsstjóri hjá öryggis- og greiningarsviði ríkislögreglustjóra.

Karl Steinar útskrifaðist úr Lögregluskóla Íslands árið 1988, lauk BS – gráðu í afbrotafræði frá California State University  í Fresno, Kaliforníu árið 1994, og MBA gráðu við Háskólinn í Reykjavík árið 2006.  Þá útskrifaðist hann úr stjórnunarnámi hjá FBI í Quantico árið 2002. Hann hefur starfað hjá ríkislögreglustjóra frá 2021 og borið ábyrgð á alþjóðasamskiptum og öryggismálum hjá embættinu. Á árunum 2018 til 2020 leiddi hann miðlægu rannsóknardeildina hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, árin 2014 til 2018 var hann tengslafulltrúi Íslands hjá Europol, og á árunum 2007 til 2014 leiddi hann rannsóknir á skipulagðri glæpastarfsemi hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Þar áður bar hann ábyrgð m.a. á útkallslögreglunni og forvarnardeild lögreglustjórans í Reykjavík á árunum 1997-2007. Þá sat hann m.a. í karlanefnd jafnréttisráðs og var fulltrúi Íslands í norrænu netverki um afbrotavarnir.

Þórunn Eymundardóttir Cand.psych er hluti af sálfræðiteymi Heimilisfriðar auk þess sem hún sinnir almennri sálfræðiþjónustu. Þórunn er með Cand.psych gráðu frá Háskólanum í Árósum og BA gráðu í sálfræði frá háskólanum á Akureyri.

Um Heimilisfrið: Heimilisfriður er meðferðar- og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum og meðferðarúrræði fyrir einstaklinga sem beita eða hafa beitt ofbeldi í nánum samböndum. Þungamiðja meðferðarinnar snýst um að taka ábyrgð á eigin ofbeldishegðun og þróa leiðir til að takast uppbyggilega á við það sem upp kemur í samskiptum við maka.

Þolendur kynferðisofbelds og réttarkerfið

Guðný S. Bjarnadóttir er stjórnarformaður hagsmunasamtaka brotaþola sem stofnuð voru 2023. Guðný hefur beitt sér fyrir málefnum brotaþola, meðal annars með því að deila eigin reynslu af kynferðisofbeldi í einlægu viðtali sem vakti þjóðarathygli. Hún hefur fundað með yfirmönnum innan lögreglunnar og þingfólki til að þrýsta á um réttarbætur og var heiðursgestur í lokaþætti baráttuhópsins Öfga. Guðný er menntuð í afbrotafræði.

Sófaspjall

Adriana Karolina Pétursdóttir starfar sem leiðtogi í starfsmannaþjónustu ISAL (e. HR team lead People Experience) (Rio Tinto á Íslandi hf.). Rio Tinto hlaut Hvatningaverðlaun jafnréttismála árið 2022. Jafnréttismál hafa löngum verið hornsteinn í starfsemi Rio Tinto á Íslandi og hlutu þau til að mynda Hvatningarverðlaun jafnréttismála fyrst fyrirtækja árið 2014. Nýlega hafa tvö ný frumkvæði verið innleidd í starfsemi fyrirtækisins sem eru veigamikið og framsækið skref í jafnréttismálum. Annars vegar er um að ræða útfærslu á fæðingastyrk og hins vegar stuðningur við starfsfólk sem er þolandi heimilisofbeldis og hins vegar veitir Rio Tinto fæðingarstyrk til töku fæðingarorlofs. Rio Tinto einsetur sér að vera í fremstu röð og eru þessi framtök til marks um vilja fyrirtækisins og ásetning um að setja jafnrétti, hagsmuni og velferð starfsfólks í forgang. Stuðningur við þolendur heimilofbeldis hefur vakið verulega athygli annarra fyrirtækja og leggur Rio Tinto áherslu á að vera leiðandi á vinnumarkaði til framtíðar með jafnrétti að leiðarljósi.

Einnig hefur hún starfað hjá Samskip sem sérfræðingur á mannauðssviði, sem teymisstjóri á miðlægri launadeild hjá Reykjavikurborg og sem starfsmannastjóri hjá V Austurstræti (veitingahúsarekstur sem var með nokkra skemmtistaði og veitingastaði)

Adriana er viðskiptafræðingur með Bs gráðu í viðskiptafræði frá háskólanum á Bifröst og 2015 útskrifaðist hún með master í alþjóðaviðskiptum einnig frá Bifröst.

Auk þess að vera starfandi hjá ISAL er Adriana einnig formaður Mannauðs, félags mannauðsfólks á Íslandi en hún var kosin í vor, var áður í stjórn Mannauðs frá 2019.

Ragnhildur Bjarkadóttir er framkvæmdastýra nýsköpunar og þróunar hjá Auðnast. Hún er klínískur sálfræðingur með framhaldsmentun í fjölskyldumeðferð og MA í alþjóðasamskiptum. Ragnhildur sinni handleiðslu og fræðslu til stjórnenda og starfsfólks í atvinnulífinu ásamt því að sitja í EKKO (einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi) teymi Auðnast sem hefur veg og vanda af því að auka þekkingu og öryggi starfsfólks á málaflokknum.

Um Auðnast: Auðnast var stofnað árið 2014 af Hrefnu og Ragnhildi. Í dag starfa 25 einstaklingar hjá fyrirtækinu og er starfsemin tvíþætt:

  1. Auðnast sinnir atvinnulífinu: Síðastliðin níu ár höfum við sérhæft okkur í að þjónusta atvinnulífið um allt er varðar heilsu og sálfélagslegt öryggi starfsfólks.
  2. Auðnast sinnir meðferð og ráðgjöf: Á Auðnast klíník er markmiðið að veita bestu mögulegu meðferð og ráðgjöf fyrir einstaklinga, fjölskyldur og hópa.

 

Skráning

Skráning er lokuð.