Femínísk leið til að bjarga umhverfinu

In Fréttir by Auður Albertsdóttir

Ungar athafnakonur í samstarfi við Unga umhverfissinna héldu umræðukvöld í Hinu húsinu þann 15. maí sem var með yfirskriftina „Femínísk leið til að bjarga umhverfinu“. Velt var upp spurningum eins og hvaða tengsl séu á milli jafnréttis- og loftslagsmála og hvernig hægt sé að vinna saman að jafnrétti að leiðarljósi til að leysa umhverfisvanda heimsins.

Frábær mæting var á umræðukvöldið en um 40 manns mættu, úr báðum félögum og einnig aðilar utan félaganna.

Snæfríður Jónsdóttir, stjórnarkona UAK, hóf viðburðinn á að bjóða alla velkomna og gaf síðan Rakel Guðmundsdóttur, fundarstjóra orðið. Rakel talaði um hvernig við mannfólkið værum að valda miklum ágangi á auðlindir jarðar og að jörðin hafi verið komin að þolmörkum seint á sjöunda áratug síðustu aldar. Síðan þá höfum við haldið ótrauð áfram og losun aðeins aukist.

Rakel fór einnig yfir hvernig Íslendingar eru neyslufrekasta þjóð heims með háar kröfur til lifnaðarhátta og benti á að ef allir myndu neyta eins og Íslendingar þyrfti 27 jarðir til að þola álagið.

Þegar það kemur að sambandi jafnréttismála og umhverfismála sagði Rakel frá því hvernig konur verði frekar fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga og nefndi sem dæmi að 80% þeirra sem hafa þurft að flýja heimili sín vegna aðstæðna útaf loftslagsbreytingum í þróunarlöndum eru konur. „Það að tryggja réttindi kvenna hefur jákvæð áhrif á loftslagið,“ sagði Rakel og bætti við að það þyrfti að tryggja menntun og heilbrigðisþjónustu kvenna svo öðruvísi ákvarðanir yrðu teknar.

Hún nefndi jafnframt að konur hefðu yfirleitt ekki tekið jafnan þátt í ákvarðanatökum sem tengjast umhverfismálum og þá er sjaldnar fjárfest í þeim og þeirra lausnum. „Þær verða fyrir vandanum en taka ekki ákvarðanir.“

Rakel lauk erindi sínu á að minna á að það sé í raun búið að leysa vandann þar sem við vitum hvert vandamálið er. „Við þurfum að minnka losun og binda losun. Nú þarf að vakna og gera eitthvað. Hvaða lausnum getum við farið að taka þátt í?“

Næst á svið var fjölmiðlakonan Þóra Arnórsdóttir en hún hefur lengi fjallað um umhverfismál og er mikil áhugakona um hvernig sé hægt að vera hluti að lausn vandans. Hún talaði um að hún hefði lengi talað fyrir daufum eyrum en nú væru loksins orðin einhver vatnaskil þar sem fleiri eru farnir að hafa áhuga á umhverfismálum.

Þóra talaði um að það hefði verið ekkert mál að finna auðveldara umræðuefni fyrir kvöldið sem kalli ekki á jafnmikinn kvíða. „Það þarf hugrekki til að líta upp og horfast í augu við það sem blasir við,“ sagði Þóra og bætti við að það væri auðvelt að láta sér fallast hendur. Sagði hún að Íslendingar þyrftu að átta sig á að þeir hafi áhrif í þessum málum, takast á við ábyrgð okkar á loftslagsbreytingum og ættu að skara fram úr í málaflokknum á heimsvísu.

Rétt eins og Rakel talaði Þóra um hvað við værum neyslufrek og frek á náttúruna. Nefndi hún sem dæmi magnið af fötum og snyrtivörum sem margar íslenskar konur eiga.

„Við þurfum ekki allt þetta dót, það er millivegur,“ sagði Þóra og sagði að það þyrfti að breyta þeirri ofboðslegu áherslu á neyslu í samfélaginu.

Talaði Þóra um að áhugi á umhverfismálum væri oft litið á sem kvenlegt áhugamál „fyrir konur“

Benti Þóra á að það sem þurfi að gæta að í umræðunni um loftslagsmál og feminískar áherslur er að þetta verði ekki „kvennavandamál“ sem konur eigi að takast á við einar. „Við eigum ekki að eigna okkur vandamálið það mikið að aðrir geta fríað sig ábyrgð.“

Hvatti hún alla til þess að stíga fram og tala um umhverfismál, t.d. á vinnustöðum.

„Það þýðir ekki að sitja og nöldra og gera ekkert sjálfur. Þið verðið að taka ykkur pláss og ekki láta engan segja ykkur að þetta sé ómerkilegt,“ sagði Þóra. „Þetta er dauðans alvara það mikilvægasta sem við erum að takast á við núna.“

Eftir erindi Þóru var komið að umræðunum. Hópnum var skipt upp í sjö borð þar sem sérstakir borðaleiðtogar stjórnuðu umræðum og voru tilbúnir með ákveðnar spurningar. Eftir 25 mínútur af umræðunum var hópunum stokkað upp og allir fóru á nýtt borð og héldu þar umræðum áfram í aðrar 25 mínútur.

Eftir að umræðunum lauk komu allir saman og Rakel spurði hópana út í niðurstöður sínar og voru þær virkilega áhugaverðar.

Þegar það kemur að tengslum umhverfis- og jafnréttismála komst eitt borð að þeirri niðurstöðu að málaflokkarnir ættu það sameiginlegt að vera svokölluð „mjúk mál“ sem konur berjast oft frekar fyrir en karlar. Nefnt var líka að það sem málaflokkarnir eigi sameiginlegt er að það náist aldrei árangur nema allir vinni saman.

Annað sem var bent á voru tengsl umhverfismála við heimilishald sem er oftar en ekki beintengt jafnréttismálum. Var þá talað um hvernig venjan væri á einhverjum heimilum að konan færi í búðina, keypti inn og eldaði matinn og karlinn fengi bara matinn á diskinn og þyrfti ekki að hugsa út í t.d. umbúðirnar eins og konan. Þetta gæti mögulega hindrað karla í að vera meðvitaðri um umhverfið.

Næst var spurt hvað rætt hafi verið þegar það kemur að leiðum til að stuðla að umhverfismálum, hvað væri auðvelt og hvað væri erfitt. Bar þá t.d. á góma að sífellt fleiri væru orðnir grænmetisætur sem væri auðvelt fyrir marga. Þá var einnig talað um hvað það að losa sig við bílinn eða finna umhverfisvænar samgöngur væri oft erfitt.

Þegar það kom að helstu áskorunum sem standa í vegi fyrir raunverulegum aðgerðum ræddu hóparnir m.a. mikilvægi þess að fyrirtæki sýni virkilegan áhuga á umhverfismálum og sama með stjórnvöld. Bent var á að fólk geti breytt hlutum upp að vissu marki en fyrirtæki og stjórnvöld þyrftu að taka virkan þátt sömuleiðis.

Önnur áskorun sem var nefnd var það að fækka flugferðum. Íslendingar væru orðnir vanir því að skreppa til útlanda 3-4 sinnum á ári og þá væru vinnustaðir margir hverjir duglegir að senda starfsfólk erlendis í vinnuferðir. Nefndar voru mögulegar lausnir á því eins og að kolefnisjafna ferðir starfsmanna og nota frekar fjarskiptabúnað frekar en að fljúga erlendis fyrir einn fund.

Fjölmargar hugmyndir komu upp á borðunum. Var t.d. rætt hvort það væri hægt að taka fjármuni ríkisins úr landbúnaði í að rækta meira af íslensku grænmeti. Lögð var áhersla á mikilvægi samstarfs og að það væri ekki hægt að vinna í sitthvoru horninu. Til þess væri einfaldlega ekki tími þegar það kemur að loftslagsmálum. Einnig var rætt hvernig það þurfi að vera auðveldara að vera á rafbíl þegar það kemur að niðurgreiðslum og hleðslukerfi.

Svo virðist sem flestir á umræðukvöldinu hafi verið sammála um að það þurfi skýrari stjórnvaldsaðgerðir og sterkari ábyrgð fyrirtækja í þessum mikla vanda sem stendur frammi fyrir okkur. Mikilvægt sé að sýna róttækni, reyna að hafa áhrif og þrýsta á þá sem hafi raunveruleg völd.