Fjármál 101

In Fréttir by Aðalheiður Júlírós

UAK og Nasdaq Iceland hafa staðið saman að vel sóttum viðburðum undanfarin misseri sem taka til þess að efla þekkingu ungs fólks á fjármálum og hlutabréfamörkuðum. Þann 12. apríl tóku UAK, Nasdaq Iceland og OHR höndum saman og stóðu að viðburðinum Fjármál 101. Mikill áhuga var fyrir viðburðinum og var hann fljótur að fyllast og myndaðist biðlisti. Góð þátttaka var á viðburðinum sjálfum en yfir 100 félagskonur mættu í Opna háskólann.

Markmið viðburðarins var að veita tæki og tól til þess að taka upplýstar ákvarðanir um sparnað sinn, fjárfestingar, hlutabréfaviðskipti o.fl. í þeim tilgangi að stuðla að aukinni þekkingu og fjárhagslegu sjálfstæði ungs fólks.

Snædís Ögn Flosadóttir og Baldur Thorlacius fóru vel yfir eftirfarandi viðfangsefni á viðburðinum: 

  • Fjármál heimilisins
  • Sparnaður og fjárfestingar
  • Hlutabréfaviðskipti
  • Lán og lánshæfi

Snædís kom einnig sérstaklega inn á lífeyrissparnað og benti á muninn á milli kynjanna en það er margt sem spilar þar inni í, svo sem fæðingarorlof og fleira. Baldur velti fyrir sér hvort að orðið Kauphöll sé kannski ekki nógu lýsandi fyrir það hvað hún stendur fyrir og jafnvel eru einhverjir sem forðast það að fjárfesta vegna þess að þeir tengja ekki við orðið. Jafnvel gæti orðið “Veski”, “Skipti markaður” eða jafnvel “Markaður fyrir almenning” verið meira lýsandi.

Fjármál eru oft á tíðum feimnismál sem umræðuefni inni á heimilum en það er mikilvægt að vera vakandi fyrir útgjöldum og flokka þau í nokkra flokka. Einnig er gott að flokka sparnað í þrjá flokka; Skammtíma útgjöld, skammtíma plön eins og ferðalög og svo langtíma plön sem ætti alltaf að vera fjárhagslegt sjálfstæði.

Þátttakendum í sal gáfust tækifæri til þess að spyrja Snædísi Ögn og Baldur út í viðfangsefnið og sköpuðust góðar og áhugaverðar samræður á milli þátttakenda og fyrirlesara.

UAK þakkar Snædísi Ögn og Baldri kærlega fyrir þeirra framlag fyrir viðburðinn og mjög áhugaverð og fræðandi erindi.