Forysta framtíðar í fyrirrúmi

In Fréttir by Árný Lára Sigurðardóttir

Fimmta ráðstefna UAK var haldin á liðnu starfsári og var hún að þessu sinni tileinkuð konum í íslensku atvinnulífi. Bar ráðstefnan yfirskriftina ,,Forysta til framtíðar” og var henni ætlað að valdefla ungar konur í lífi og starfi, stuðla að hugarfarsbreytingu sem skapar framtíð jafnra tækifæra.

Andrea Gunnarsdóttir, formaður UAK setti athöfnina með góðri áminningu á að kraftur sem myndast í samstöðu meðal kvenna sé gulli betri. „Við erum straumurinn og þessi samkoma … er okkar farvegur“. Þátttaka í starfi félagsins og sá mikli fjöldi gesta sem lagði sér leið á ráðstefnuna er merki þess að enn sé langt í land og mikil þörf fyrir félag eins og UAK.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra hélt opnunarávarp á ráðstefnunni en auk hennar tóku til máls fjölmargar af hinum þekktustu kvenskörungum íslensk samfélags sem allar eiga það sameiginlegt að nýta krafta sína í þágu framþróunar og jafnréttis. Erindin mörkuðu forystu og framsýn íslenskra kvenna að leiðtogum framtíðarinnar og þeim tækifærum sem þar leynast.

Gunnhildur Arnardóttir, framkvæmdarstjóri CEO Huxun og Stjórnvísi flutti erindið Gildin þín – Fjárfesting til framtíðar þar sem áhersla var lögð á mælingar á framförum í átt að jöfnum rétti allra og auknu frelsi. Hvers virði er okkur viðhorfsbreytingar og aukin þekking sem vinnur stöðugt að framþróun í samfélaginu. Þá tók Edda Blumenstein, framkvæmdastjóri framþróunar verslunar og viðskiptavina hjá BYKO einnig í sama streng og benti á mikilvægi þess að fylgja óhrædd eigin draumum og geta lifað í óvissu framtíðarinnar. Herdís Pála Pálsdóttir, stjórnunarráðgjafi og stjórnendaþjálfi spurði ráðstefnugesti hvernig skapa mætti tækifæri á vinnumarkaði og hvaða þekkingu væri nauðsynlegt að byggja upp til að auka möguleikana. Mikilvægt væri að fara ótroðnar slóðir og reynslan sýnir að stundum er nauðsynlegt að vera eigin fyrirmynd svo hægt sé að líta fram á veginn. Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans, Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi ræddu allar um þýðingu þess að nýta gamla þekkingu á nýjan hátt og lærdómurinn sem fylgir því að vera hluti af félagi sem þessu.

Mikil fjölbreytni var meðal bæði gesta og viðmælenda ráðstefnunnar og setti það svip á líflegar og fróðlegar umræður. Fulltrúar listakvenna voru þær Rakel Tómasdóttir, listakona sem sá um hönnun á UAK pokanum þetta árið ásamt Söga Sig, ljósmyndari, listakona og leikstjóri. Saga talaði fyrir því að nota röddina til hvatningar fyrir sjálfan sig sem og aðra á skapandi hátt. Sköpun mætti finna víðsvegar og nauðsynlegt er að leyfa hlutunum að flæða. Þetta árið voru það þær Sylvía Briem Friðjónsdóttir og Eva Mattadóttir, þáttastjórnendur Normsins og athafnakonur sem fengu það göfuga verkefni að hrista vel upp í hópnum með léttum æfingum og fróðlegri vinnustofu í að setja mörk og auka þar með afköst og lífsgæði.

Það hefur reynst gríðarlega mikilvægt að sjá allskonar fyrirmyndir á öllum sviðum samfélagsins. Því mætti svo að orði komast að sporin sem báru okkur hingað koma víða. Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, benti á að við værum allar sporgöngumenn þess sem á undan hefur gengið og höldum við áfram að marka leiðina fyrir þær sem koma á eftir. Áskoranir framtíðarinnar munu krefjast þolinmæði og þúsundir stunda, hugarrýmis og heilabrota svo nýta megi þær til framfara. Umræður ráðstefnunnar markar þrotlausa vinnu fyrri kynslóða að jöfnum rétti að tækifærum í lífi og starfi. Þó svo að enn sé langt í land að jafnrétti á öllum sviðum er ljóst að til staðar sé sá byr sem þarf. Það má því með sanni segja að framtíðin sé björt.