Forystuþjóð sem á enn langt í land

In Fréttir by Dagný Engilbertsdóttir

Góð mæting og stemning var á umræðu- og tengslakvöldi með yfirskriftinni „Erum við forystuþjóð?“ sem fór fram fimmtudaginn 9. mars sl. í húsakynnum Kviku banka.

Kvöldið hófst á því að þær Edda Hermannsdóttir og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir sögðu okkur frá ferlinu við útgáfu viðtalsbókarinnar Forystuþjóð sem fjallar um stöðu jafnréttismála á Íslandi árið 2017. Bókin var gefin út í samstarfi við Samtök atvinnulífsins en í henni er fjölbreyttur hópur karla og kvenna fenginn til að tjá sig um jafnréttismál – sem bókin leggur áherslu á að sé ekki bara kvennamál. Þær Edda og Ragnhildur gátu sagt okkur ýmsar sögur af hvernig hugmyndin af bókinni kom til, hindrunum sem urðu á vegi þeirra og hlutum sem komu þeim á óvart í viðtölunum. Til dæmis kom þeim á óvart að engir tveir viðmælendur voru fullkomlega sammála um hvaða leið væri best að fara til að komast að lokamarkmiðinu um fullkomið jafnrétti kynjanna.

Næst ræddi við okkur hún Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Símanum, sem var einmitt einn viðmælandi bókarinnar. Hún sagði okkur frá sinni reynslu, bæði frá því að hún var að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum og svo í stöðu sinni sem yfirmaður bæði karla og kvenna. Hún var einlæg í frásögnum sínum og tengdu eflaust margir þegar hún sagði okkur frá ranghugmyndum sínum frá því að hún var í háskóla og upplifði að karlar og konur stæðu nánast alveg jöfn. Hún hafði því talið jafnréttisbaráttuna að mörgu leyti óþarfa en áttaði sig svo smám saman á því að staðan var önnur þegar hún kom út á vinnumarkaðinn.

Að lokum tók allur salurinn þátt í umræðum um þær áskoranir sem konur standa frammi fyrir í atvinnulífinu í dag og skipst var á skoðunum og ráðum um hvaða leiðir væri best að fara í þeim efnum. Munaði þá mjög um að hafa reynslumikla aðila á við Birnu Ósk í salnum. Kvöldið leystist svo upp í óformlegra spjall og gátu félagskonur keypt bókina Forystuþjóð á sérstöku tilboðsverði.

Við þökkum þeim Eddu, Ragnhildi og Birnu kærlega fyrir að hafa verið með okkur, Kviku fyrir ótrúlega flotta aðstöðu og veitingar, Vífilfell fyrir veigar og félagskonur fyrir frábæra þátttöku! Það var frábært að fá að heyra skoðanir ykkar og kynnast hópnum betur.