Fyrri panelumræða UAK dagsins fjallaði um byltingar og bakslög til aðgerða. Gestir panelsins voru Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Silja Bára Ómarsdóttir og Þorsteinn V. Einarsson.
Panelumræðan byrjaði á því að Silja og Guðrún ræddu sínar persónulegu reynslu sem þær höfðu af byltingum. Nefndi Silja, sem er stjórnmálafræðingur og bæði verkefnastjóri og sviðstjóri Jafnréttisnefndar, það þegar hún og fleiri femínistar límdu bleikan borða á héraðsdóm þegar þar stóðu yfir framkvæmdir. Á borðanum stóð „Gerum við inni fyrst.“ Báðir bentu þær á mikilvægi þess að hafa húmorinn í hávegum í kvenréttindastörfum. Silja benti á að við ættum ekki að hika við að vera stundum kjánalegar. Guðrún minntist einnig á mikilvægi húmorsins og minntist þess þegar vinkonur hennar skúruðu einu sinni dómsmálaráðuneytið eftir skandal sem þá var symbólísk kvenleg athöfn. Aðspurð um persónulegar reynslu sagði Guðrún að hún vissi ekki „hvar hún hefði ekki verið“ enda alin upp í rauðsokkuhreyfingunni, var í Kvennalistanum, félagsráðgjafi á kvennadeild Landspítalans, þingmaður og svo mætti lengi telja. Sem dæmi um byltingum minntist Guðrún á Kvennafrídaginn sem leiddi til þess að Vigdís var kjörin forseti, fóstureyðingarfrumvarpið 1975 og þegar Reykjavíkurlistinn náði meirihluta í Reykjavík og vann í leikskólamálum frá A – Ö. Silja Bára nefndi fóstureyðingarfrumvarpið og minntist á byltinguna sem getnaðarvarnir voru. „Að konur fái að ráða hvort og hvenær þær eignast börn.“
Adda og Þorseinn hafa bæði verið kölluð forsprakkar byltingar. Adda kom af stað Free the nipple á Íslandi og Þorsteinn vakti athygli fyrir myllumerkið karlmennskan en Þorsteinn talar um sig sem fyrrverandi karlrembu og stundum fávita. Hvati að byltingu Þorsteins var: „eftir samtöl við vinkonur mínar var veruleikinn útskýrður fyrir mér og einhvern veginn tókst mér að hlusta og sjá og eftir að ég sá þennan veruleika sem við búum við hef ég leitast eftir því að eiga samtal við mína líka. #karlmennskan varð svo einn af þeim snertiflötum.“ Adda talaði um að kveikjan af Free the nipple hefði verið ótrúlega mikil reiði hjá henni sjálfri því henni fannst hún ekki hafa vald yfir líkama sínum.
Verðum að finna eldinum farveg
En þá er spurningin hvað er það sem veldur bakslögum og þurfa þau alltaf að verða? Geta þau verið bæði jákvæð og neikvæð? Silja talaði um að þau gætu verið bæði jákvæð og neikvæð. Bakslög gegn byltingum sem grafa undan lýðræðinu geta verið jákvæð en bakslög gegn byltingum eins og Adda og Þorsteinn eru að lýsa er svipting sem er neikvæð.
Í þessu samhengi sagði Guðrún: „Það koma alltaf bakslög og mál sofna en undir niðri þá er alltaf eldur og við verðum bara að finna honum farveg. Aðalatriðið að maður festist ekki í sinni búbblu. Verðum að gera hlutina saman. Ekki hafa þetta eignarhald á kvennabaráttunni, þetta verður að vera sameign.“
Þá eru það afleiðingarnar. Adda nefndi þrjá punkta sem jákvæðar afleiðingar af Free the nipple byltingunni. Í fyrsta lagi aukin vitundarvakning um hvað má og hvað ekki samkvæmt samfélaginu. Í öðru lagi aukin sýn á að líkamar okkar eru alls konar. „Við erum allar ógeðslega flottar á okkar eigin hátt,“ sagði Adda. Í þriðja og síðasta lagi breyttist umræðan um stafrænt ofbeldi „Við tölum varla um hefndarklám í dag því þetta er ekki klám heldur stafrænt kynferðislegt ofbeldi.“
Aldrei gefast upp
En hvernig er þá best að tryggja aðgerðir í kjölfar byltinga? Adda og Silja töluðu báðar um það að breyta þyrfti stjórnmálamenningu. Adda sagði að stjórnmálamennirnir þyrftu að hlusta og Silja sagði að stundum þyrfti bara að bjóða sig fram. Sömuleiðis minntust Silja og Þorsteinn á mikilvægi hversdagslega valdsins. Silja sagði að „við verðum að vera meðvitaðar um hvernig við getum aðstoðað þegar konur sérstaklega og fólk í alls konar minnihlutahópum verða fyrir aðkasti á samfélagsmiðlum.“ Svo verður aldrei of oft kveðið að best er að tryggja aðgerðir með því að „gefast aldrei upp.“ eins og Guðrún minntist réttilega á.