Frá hugmynd til framkvæmdar

In Fréttir by Árný Lára Sigurðardóttir

Þann 5. maí stóð UAK að vinnustofunni „Frá hugmynd til framkvæmdar“ þar sem markmið vinnustofunnar var að gefa félagskonum innsýn í ferlið frá hugmynd að veruleika. Að viðburðinum komu þær Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, framkvæmdarstýra Eyris Vaxtar og Sigurlína Ingvarsdóttir, stjórnarformaður Solid Clouds og í stjórn Eyris Vaxtar og CRI en þær búa báðar yfir yfirgripsmikilli þekkingu á nýsköpunar- og frumkvöðlaumhverfinu.

Áhersla var lögð á virka þátttöku félagskvenna og hugmyndasköpun. Þátttakendur fengu meðal annars tækifæri til þess að sannreyna viðskiptahugmyndir ásamt því að byggja upp þekkingu hvernig taka megi fyrstu skrefin í stofnun nýs fyrirtækis. Stefanía og Sigurlína komu einnig inn á tækifærasköpun og mikilvægi þess að fylgja eigin draumum. Hin ýmsu tæki og tól voru veitt til þess að koma eigin hugmyndum í framkvæmd og hvernig tækla mætti næstu skref.

Viðburðurinn var með sanni lifandi og lærdómsríkur þar sem skapaðist einstaklega gott rými fyrir félagskonur til þess að ræða opinskátt um hugmyndir, hindranir og aðra þætti með endurgjöf og fræðslu frá sérfræðingum. Þátttakan var fram úr vonum og erum við ákaflega stoltar af því að geta skapað vettvang þar sem hugmyndum kvenna er tekið fagnandi.