Fræðandi heimsókn í Icelandic Startups

In Fréttir by Margrét Berg Sverrisdóttir

Ungar athafnakonur kíktu í heimsókn til Icelandic Startups þann 19. október sl. Varað hafði verið við óveðri og fólk beðið um að halda sig heima en það stoppaði ekki þær tæplega 40 félagskonur sem mættu á viðburðinn til að fræðast um íslensku startup senuna.

Í upphafi kynnti Salóme Guðmundsdóttir, CEO hjá Icelandic Startups, starfsemi félagsins og í kjölfarið fóru fram panelumræður með flottum kvenfyrirmyndum úr íslensku sprotasenunni. Þátttakendur í panel voru þær Dana Rún Hákonardóttir, markaðssérfræðingur hjá Símanum, Ragnhildur Ágústsdóttir, CEO og stofnandi Icelandic Lava Show og Kolbrún Hrafnkelsdóttir, CEO og stofnandi Florealis. Skemmtilegar og líflegar umræður sköpuðust og gáfu panelþátttakendur félagskonum ýmiss ráð. Til að mynda var minnst á mikilvægi þess að þora að segja frá hugmyndinni sinni. Jafnframt voru allir panelþátttakendur sammála um mikilvægi þess að vera óhrædd um að biðja um hjálp því að fólk væri nánast undantekningalaust tilbúið til að veita þér aðstoð. Einnig var mikið til umfjöllunar hvað Gulleggið og Icelandic Startups væri stór þáttur af velgengni sprotafyrirtækja í dag.

Eftir panelumræðurnar var boðið upp á léttar veitingar og í kjölfarið var haldin vinnusmiðja þar sem að félagskonur fengu að spreyta sig í þróun viðskiptahugmyndar.

UAK vill vekja sérstaka athygli á því að ef þið eruð með hugmynd sem ykkur langar að koma í framkvæmd þá mælum við með að þið bókið fund með snillingunum hjá Icelandic Startups, en þau bjóða upp á fría aðstoð og ráðgjöf. Jafnframt bendum við á ef þig langar að spreyta sig í þessum heimi, en ert ekki með viðskiptahugmynd, þá er hægt að sækja um í Gullegginu sem einstaklingur án hugmyndar. Þannig getur þér verið komið í hóp sem að leitar að þínum hæfileikum.