Hér fyrir neðan má sjá framboð til stjórnar UAK 2021-2023 og formanns UAK 2021-2022. Frambjóðendum er raðað í stafrófsröð. Kosið er um þrjú pláss í stjórn félagsins en þeir frambjóðendur sem ekki hljóta kjör og eru næstu tvær inn verða skipaðar sem varamenn til eins árs. Aðalfundurinn fer fram fimmtudaginn 27.maí en frekari upplýsingar um hann má finna hér. Þær félagskonur sem hafa greitt félagsgjöld a.m.k. 2 vikum fyrir aðalfund hafa rétt til framboðs, setu og atkvæðagreiðslu á aðalfundinum.
Nafn: Andrea Gunnarsdóttir
Framboð til formanns (er nú þegar í stjórn UAK)
Aldur: 26 ára
Starf: Tæknilegur ráðgjafi, AGR Dynamics
Ég er varaformaður og viðskiptastjóri Ungra athafnakvenna og sat einnig í stjórn félagsins 2016-2018. Ég gegndi stöðu varaformanns Ungmennaráðs UN Women á Íslandi og var starfsnemi hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Frá árinu 2018 hef ég verið One Young World Ambassador, en samtökin eru alþjóðlegur vettvangur sem tengir áhrifaríka unga leiðtoga með það að markmiði að skapa ábyrgari og betri heim. Ég hef fengið að nýta þekkingu mína og ástríðu fyrir jafnrétti í atvinnulífinu en ég starfaði sem Diversity & Inclusion Specialist hjá Marel. Í dag gegni ég einnig hlutverki varaungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði kynjajafnréttis. Þessi margvíslegu verkefni eiga það sameiginlegt að fylla mig eldmóði og gera mér kleift að leggja mitt af mörkum í átt að bættu samfélagi þar sem öll kyn standa jafnfætis. Ég er sannfærð um að hæfileikar mínir og hugrekki, hugarfar mitt og geta til að veita öðrum innblástur muni koma sér einstaklega vel í þessu hlutverki.
Nafn: Árný Lára Sigurðardóttir
Framboð í stjórn og formann
Aldur: 29 ára
Starf: Verkefnastjóri hjá Alþjóðasviði Háskóla Íslands.
Ég hef fylgt af einlægum áhuga starfi Ungra athafnakvenna frá 2015. Félagið hefur gefið mér innblástur og mótað að miklu leyti mín fyrstu skref á vinnumarkaði. Ég er ákaflega stolt af baráttu félagsins að jöfnum tækifærum. Sú barátta er ein af ástæðum þess að ég gef kost á mér í stjórn UAK og að formannskjöri.
Ég er stjórnmálafræðingur með MA í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands. Ég sat í stjórn Erasmus Student Network á Íslandi 2014-2017, gegndi formannsstöðu 2015-2017 og er ein af stofnendum nemendafélagsins Linguae við HÍ. Á undanförnum árum hef ég m.a. starfað sem aðstoðarmaður Dr. Silju Báru Ómarsdóttur, gengt stöðu verkefnastjóra hjá Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og nú sem verkefnastjóri hjá Alþjóðasviði HÍ.
Ég hef mikinn metnað fyrir öllum þeim verkum sem ég tek mér fyrir hendur og barátta Ungra athafnakvenna er mér mikið hjartansmál. Það væri mér mikill heiður að fá að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu og starfi félagsins.
Nafn: Berglind Grímsdóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 25 ára
Starf: Verslunarstýra í 66°Norður í Miðhrauni
Berglind heiti ég og er ég verslunarstýra hjá 66°Norður í Miðhrauni. Með þessari umsókn vil ég gefa kost á mér í stjórn Ungra athafnakvenna. Ég er með BA gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands og Oxford Brooks University og MA í afbrotafræði og megindlegri aðferðafræði frá University of Kent. Starf UAK hefur alltaf heillað mig og höfðað til mín að því leitinu til að sjálf er ég kona og stjórnandi og því vil ég nýta mína reynslu og orku í að hvetja aðrar ungar konur áfram í atvinnulífinu, bæði stjórnendur og starfskonur, og finna þá samstöðu sem konur atvinnulífinu búa yfir og nýta sér hana. Sjálf er ég skipulögð, metnaðarfull og lausnamiðuð kona og tel ég þá eiginleika eiga heima í stjórn UAK. Félagið er ótrúlega kraftmikill vettvangur kvenna og er ég spennt að fá tækifæri til að vera partur af teymi sem stuðlar að þessum eflandi vettvangi. Ég brenn fyrir jafnrétti og jöfn tækifæri kvenna og karla í atvinnulífinu og þeim málefnum sem UAK stendur fyrir og vil ég geta gefið af mér mína reynslu og leggja mitt af mörkum til félagsins.
Nafn: Guðrún Valdís Jónsdóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 27 ára
Menntun: Tölvunarfræðingur
Starf: Öryggisráðgjafi hjá Syndis
Ég er tölvunarfræðingur frá Princeton University og starfa í dag sem öryggisráðgjafi hjá Syndis þar sem ég hakka vefsíður, net og öpp viðskiptavina. Eftir nám bjó ég í New York þar sem ég vann við öryggisprófanir hjá Aon. Mikilvægi félagasamtaka eins og UAK er mér mjög skýrt eftir að hafa verið ein þriggja kvenna í 60 manna teymi öryggisprófana hjá Aon og nú eina konan í 20 manna teymi hjá Syndis. Ég hef aldrei unnið á vinnustað þar sem kona var hærra sett en ég innan teymisins og aldrei haft kvenkyns yfirmann. Ég gekk nýlega í stjórn VertoNET og kom einnig að mörgum viðburðum hjá Aon sem miðuðu að því að hvetja ungar konur í STEM-tengd nám og störf. Þá reynslu langar mig að nýta til að auka sýnileika kvenna í íslensku atvinnulífi og skapa öflugt samfélag ungra kvenna á Íslandi sem geta verið fyrirmyndir hver fyrir aðra.
Nafn: Katrín Sigríður Þorsteinsdóttir Bachmann
Framboð í stjórn
Aldur: 26 ára
Starf: Sölufulltrúi í bókunardeild, Center Hotels
Menntun: BA (Honors) í alþjóðaviðskiptum- og hótelstjórnun frá Les Roches Global Hospitality Education Switzerland
Ég býð mig fram í stjórn UAK til þess að styðja við bakið á öðrum öflugum, ungum konum. Ég hef mikinn áhuga á því starfi sem fram fer innan vébanda félagsins og hef metnað til þess að móta starfsemi þess og þróa til framtíðar. Starfsemi félagsins hefur undanfarið rúmt ár auðvitað litast af heimsfaraldrinum, en nú þegar rofar til eru tækifærin fyrir UAK óteljandi. Sjálf starfa ég í ferðaþjónustu, þeirri grein sem kom hvað verst út úr faraldrinum, en síðastliðið ár hefur einmitt gert mig reynslunni ríkari og þjálfaðri í að sjá tækifæri þótt á móti blási. Ég er metnaðarfull og jákvæð að eðlisfari og bý að magra ára reynslu af viðburðar- og stjórnunarstörfum. Ég hlakka mjög til að fá tækifæri til að kynna mig frekar á þessum vettvangi og greina frá hugmyndum mínum fyrir félagskonur á komandi aðalfundi.
Nafn: Kristín Sverrisdóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 28 ára
Menntun: BS í vélaverkfræði, MSc í heilbrigðisverkfræði
Starf: Framleiðsluverkfræðingur í sílíkondeild hjá Össuri
Ég er umbótaþenkjandi, umhyggjusöm, óhrædd við að taka ábyrgð og tækla nýjar áskoranir. Mér finnst lífið meira gefandi þegar húmor fær að vera við völd, og finnst ekkert skemmtilegra en að ná markmiðum og deila sigurstundum með þeim sem standa mér nærri.
Ég ólst upp í Reykjavík en flutti til Daytona Beach að loknum menntaskóla þar sem mér hlaust ómetanlegt tækifæri að klára grunnnám í vélaverkfræði og spila fótbolta. Eftir námið starfaði ég í eitt ár í Bandaríkjunum áður en ég flutti til Stokkhólms og lauk tveggja ára framhaldsnámi í heilbrigðisverkfræði frá KTH.
Ég gerðist félagskona UAK í upphafi árs 2020 og hef tekið virkan þátt í starfsemi félagsins síðan. Ég tel mig hafa orðið hluti af verðmætu samfélagi sem lætur gott af sér leiða í fræðslu, valdeflingu og tengslamyndun ungra kvenna. Ég hef góða innsýn í starfsemi UAK og er sannfærð um að ég hafi reynslu og metnað sem munu nýtast í starfi.
Nafn: Unnur Sesselía Ólafsdóttir.
Framboð í stjórn
Aldur: 28 ára
Starf: Verkefnastjóri í Menningardeild
Menntun: BA í leiklist frá Rose Bruford University, MA í Performing Arts Management (menningarstjórnun með viðskiptafræði) frá Milano Politecnico & Accademia Teatro alla Scala – MA í Listkennslufræði frá LHÍ (í námi).
Konur hafa verið miklar fyrirmyndir í mínu lífi. Móðir mín hvatt mig til náms, systir mín kennt mér þrautseigju, yfirmenn og kennarar veitt mér tækifæri og vinkonur veitt mér gleði og stuðning. Ég vil kynnast enn fleiri frábærum konum og gera mitt besta til veita öðrum tækifæri, stuðning og vináttu. Ég er með ágæta menntun, gengur þokkalega í starfi, ég er hugmyndarík og ábyrg og væri vel til í að vera með UAK í liði.
Nafn: Steinunn Rut Friðriksdóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 28 ára
Starf: Máltæknifræðingur hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Ég heiti Steinunn og er 28 ára máltæknifræðingur, ættuð frá Egilsstöðum en búsett í Reykjavík. Ég hef verið meðlimur í UAK í rúmt ár. Ég hef töluverða reynslu af félagsstörfum þar sem ég var á háskólagöngu minni formaður félags frönskunema, meðstjórnandi í félagi íslenskunema og stofnandi sameinaðs félags nemenda í erlendum tungumálum. Sem meistaranemi í Gautaborg kynntist ég starfsemi félaga sem, eins og UAK, stefna að því að efla samstarf kvenna í atvinnulífinu og áttaði mig á mikilvægi þess að konur fái vettvang til þess að efla tengslanet sitt og fá öflugar fyrirmyndir sem sýna að okkur eru allir vegir færir. Ég vil leggja mitt af mörkum og býð mig því fram í stjórn UAK.