Framboð til stjórnar og formanns UAK 2022

In Fréttir by gudrunvaldis

Hér fyrir neðan má sjá framboð til stjórnar UAK 2022-2024 og formanns UAK 2022-2023. Frambjóðendum er raðað í stafrófsröð. Kosið er um fjögur pláss í stjórn félagsins en sá frambjóðandi sem ekki hlýtur kjör verður skipaður sem varamaður til eins árs. Aðalfundurinn fer fram þriðjudaginn 31. maí en frekari upplýsingar um hann má finna hér. Þær félagskonur sem hafa greitt félagsgjöld a.m.k. 2 vikum fyrir aðalfund hafa rétt til framboðs, setu og atkvæðagreiðslu á aðalfundinum.

Aðalheiður Júlírós Óskarsdóttir

Nafn: Aðalheiður Júlírós Óskarsdóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 32 ára
Starf: Verkefnastjóri gæðamála, Reykjanesbær

Ég starfa hjá Reykjanesbæ sem verkefnastjóri gæðamála og ber ég ábyrgð á innleiðingu á gæðahandbók sveitarfélagsins ásamt almennum gæðamálum. Markmið gæðahandbókar er að tryggja öllum með sömu þarfir sömu réttindi með góðum og skýrum verkferlum. Ég sit í stýrihóp hjá sveitarfélaginu sem sér um innleiðingu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Einnig er ég í þjónustuferlateymi sem er hluti af þremur öðrum teymum Velferðarnets Suðurnesja. Tilgangur teymisins er að greina núningsfleti, lágmarka sóun sbr. átta tegundum straumlínustjórnunar og einfalda þau ferli sem íbúar þurfa að fara í gegnum með sín erindi. Ég er með MLM gráðu í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og var ég fulltrúi fjarnema í nemendafélagi Háskólans á Bifröst. Einnig er ég með BA gráðu í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands. Ég hef verið aðstoðarþjálfari hjá Dale Carnegie ásamt því að vera sjálfboðaliði hjá Rauða krossi Íslands. Ég brenn fyrir jöfnum tækifærum fyrir alla og tel það mikilvægt að allir hagsmunahópar fái að beita rödd sinni við ákvarðanatökur.

Hanna Björt Kristjánsdóttir

Nafn: Hanna Björt Kristjánsdóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 27 ára
Starf: Junior Legal Counsel hjá Marel hf.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í stjórn Ungra athafnakvenna fyrir komandi starfsár. Félagið og félagskonurnar hafa alltaf veitt mér mikinn innblástur og langar mig að fá tækifæri til að leggja mitt af mörkum til að efla félagið og styðja við ungar konur á framabraut. Ég hef mikla reynslu af félagsstörfum, bæði úr menntaskóla og háskóla, þar sem ég var m.a. í stjórn Orators félags laganema Háskóla Íslands. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á jafnrétti og að bæta stöðu kvenna í atvinnulífinu sem og í samfélaginu öllu. Komandi úr karllægum bransa hef ég fundið hvað það er mikilvægt að efla konur og koma þeim áfram til að þær geti verið fyrirmyndir fyrir komandi kynslóðir. Því finnst mér starf UAK gríðarlega mikilvægt og ég vona að þið treystið mér til að efla félagið enn meira.

Hugrún Elvarsdóttir

Nafn: Hugrún Elvarsdóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 27 ára
Starf: Verkefnastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins

Ég heiti Hugrún Elvarsdóttir og er 27 ára stjórnmálafræðingur með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu. Ég starfa sem verkefnastjóri hjá Samtökum atvinnulífsins og hef mikinn áhuga á sjálfbærnimálum þar sem vernd umhverfisins, félagsleg velferð, góðir stjórnarhættir og hagvöxtur eru í fyrirrúmi. Jafnréttismál spila stórt hlutverk þegar kemur að sjálfbærri þróun samfélagsins en launamunur kynja, kynjafjölbreytni, aðgerðir gegn mismunun, mannréttindi og kynjahlutföll í stjórnum eru hluti af sjálfbærni. Ég stundaði bæði skíði og fótbolta af kappi á mínum yngri árum og sit nú í stjórn Skíðasambands Íslands. Að loknum menntaskóla flutti ég til Bandaríkjanna til þess að stunda nám og spila fótbolta. Í bæði grunn- og meistaranámi mínu lagði ég ríka áherslu á jafnréttismál og tók m.a. áfanga í femínískri pólitískri hugsun, kynjafræði og hagnýtri jafnréttisfræði. Ég er jákvæð, drífandi og óhrædd við að taka ábyrgð. Ég hef tekið virkan þátt í starfi UAK og finnst framtíðarsýn félagsins heillandi. Ég er tilbúin að leggja mitt af mörkum, en að starfa sem hluti af hópi öflugra kvenna sem vinna að því að skapa vettvang, þvert á pólitískar skoðanir og atvinnugreinar, sem býður upp á hagnýta fræðslu, styrkingu tengslanets og valdeflingu fyrir ungar konur á ólíkum sviðum samfélagsins, finnst mér gríðarlega mikilvægt. Vegna þess býð ég mig fram í stjórn UAK fyrir komandi starfsár.

Lísa Rán Arnórsdóttir

Nafn: Lísa Rán Arnórsdóttir
Framboð í stjórn og til formanns
Aldur: 27 ára
Starf: Vöru- og verkefnastjóri hjá Smitten

Ég hef verið félagskona UAK í nokkur ár og hef mikinn metnað fyrir málefnum félagsins. Ég er drífandi, hef gagnrýna hugsun og vil alltaf gera betur. Ég var formaður nýsköpunar- og frumkvöðlanefndar SFHR þar sem við m.a. stofnuðum Frumkvöðlasetrið SERES, fyrir núverandi og fyrrum nemendur HR. Í dag starfa ég hjá sprotafyrirtækinu Smitten sem vöru- og verkefnastjóri ásamt því að vera ritari á stjórnarfundum. Einnig sit ég í stjórn faghóps Stjórnvísis um þjónustu- og markaðsstjórnun. Áður starfaði ég hjá Nova sem vörustjóri, þar sem ég var svo lánsöm að vinna með fullt af öflugum konum sem fengu mig til að þora og vilja meira. Það er alls ekki sjálfsagt og þess vegna er vettvangurinn sem UAK býr til mikilvægur. Ég trúi því að með starfi UAK munum við bæta stöðu kvenna í atvinnulífinu og þá verður sjálfsagt fyrir allar konur að eiga góðar fyrirmyndir á sínum vinnustað.

María Kristín Guðjónsdóttir

Nafn: María Kristín Guðjónsdóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 31 árs
Starf: Alþjóða viðskiptastjóri hjá Bioeffect

Ég er alþjóðaviðskiptastjóri hjá Bioeffect þar sem ég ber ábyrgð á sölu og markaðssetningu fyrirtækisins á Evrópskum mörkuðum. Síðastliðin ár hef ég fylgst með uppgangi UAK en ég var meðlimur árin 2015/2016 áður en ég flutti erlendis. Eftir útskrift úr alþjóðaviðskipta- og markaðsfræði frá HR flutti ég til Bretlands til að starfa fyrir Weetabix sem hluti af alþjóðateyminu. Árið 2020 færði ég mig yfir til start-up fyrirtækis í London að nafni Little Moons (sem framleiðir mochi ís) þar sem ég var yfir útflutningi og alþjóðasölu. Eftir að hafa starfað erlendis, upplifði ég hversu mikilvæg samtök líkt og UAK eru en einnig hversu langt Ísland er komið í kynjajafnrétti þótt mikið megi líka betur fara. Ég vil geta deilt minni reynslu og er sannfærð um að hún muni nýtast vel í stjórn UAK og það væri mikill heiður að taka þátt í áframhaldandi þróun félagsins.