Framboð til stjórnar og formanns UAK 2023

In Fréttir by gudrunvaldis

Hér fyrir neðan má sjá framboð til stjórnar UAK 2023-2025 og formanns UAK 2023-2024. Frambjóðendum er raðað í stafrófsröð. Kosið er um fjögur pláss í stjórn félagsins en næstu tveir frambjóðendur sem ekki hljóta kjör verða skipaðir sem varamenn til eins árs. Aðalfundurinn fer fram miðvikudaginn 17. maí en frekari upplýsingar um hann má finna hér. Þær félagskonur sem hafa greitt félagsgjöld a.m.k. 2 vikum fyrir aðalfund hafa rétt til framboðs, setu og atkvæðagreiðslu á aðalfundinum.

Bryndís Rún Baldursdóttir

Nafn: Bryndís Rún Baldursdóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 28 ára
Starf: Markaðsstjóri heilsu- og íþróttasviðs Icepharma

Ég brenn fyrir að vinna með fólki, góð samvinna og árangur hvetja mig áfram. Ég hef verið svo heppin að vinna með kraftmiklum konum sem hafa veitt mér mikinn innblástur og styrk í starfi. Ég nýt mín við að takast á við stórar áskoranir og ná settum markmiðum. Ég býð mig fram í stjórn UAK því ég vil efla ungar konur í atvinnulífinu og vera hluti af vegferð þeirra á atvinnumarkaði. Ég hef verið félagskona síðastliðin tvö ár og hefur starf félagsins styrkt mig í starfi og þróað minn feril á atvinnumarkaði ásamt því að efla tengslanet mitt. Tækifærin á komandi starfsári UAK eru óteljandi og vonast ég til að mér muni gefast kostur á að vera hluti af leiðandi hópi félagsins. Ég hef lokið meistaraprófi í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands og starfað í markaðsmálum síðastliðin ár. Ég er sannfærð um að reynslan mín, áhugi á samstarfi með fjölbreyttu fólki og drifkrafturinn sem ég bý yfir muni nýtast vel í stjórnarsetu UAK.

Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir

Nafn: Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 27 ára
Starf: Sjávarútvegsfræðingur/Sérfræðingur í sjálfbærum orkuvísindum

Ég heiti Gunnlaug og er 27 ára sjávarútvegsfræðingur að ljúka meistaragráðu í sjálfbærum orkuvísindum. Ég sinni sjálfbærni- og auðlindamálum að mikilli alúð; hef nýlega hafið störf hjá Carbfix og var skipuð í starfshóp um leiðir til bættrar öflunar og nýtingu orku á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Ég býð mig fram til stjórnar þar sem mín upplifun er sú, að í báðum þeim geirum sem ég hef starfað í (sjávarútvegi og orkugeiranum) hallar verulega á konur. Mig langar til þess að láta gott af mér leiða með því að efla framgöngu kvenna og stuðla að jöfnum tækifærum kynjanna. Ég er jákvæð og drífandi, brenn fyrir atvinnusköpun og hef ríkan hug á því að efla samfélagið okkar. Ég hef sem dæmi sinnt kennslu við Sjávarútvegsskóla unga fólksins og komið að uppbyggingu styrjueldis í minni heimabyggð, Ólafsfirði. Mér finnst fátt meira gefandi en að miðla fróðleik og taka virkan þátt í samfélaginu.

Kamilla Tryggvadóttir

Nafn: Kamilla Tryggvadóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 23 ára
Starf: Stuðningsfulltrúi
Menntun: Nemandi á síðasta ári í BA námi í miðlun og almannatengslum við Háskólann á Bifröst

Ég býð mig fram í stjórn Ungra athafnakvenna fyrir komandi starfsár þar sem ég vonast til að fá tækifæri til að stækka sjóndeildarhringinn. Ég er móðir tveggja stúlkna, eiginkona og nemandi í miðlun og almannatengslum við Háskólann á Bifröst. Sjálf hef ég verið skráð í félagið í rúmt ár og líkað mjög vel, þar sem ég hef fengið nýja sýn á hin ýmsu málefni og lært af frábærum konum sem eru miklar fyrirmyndir fyrir okkur hinar. Mér þykir ótrúlega vænt um félagið og það sem það hefur gefið mér, og því langar mig til að taka þátt í því frábæra starfi sem það ber að geyma og miðla minni þekkingu. Ég er mjög forvitin að eðlisfari og þykir gaman að kynnast nýju fólki. Ég brenn sérstaklega fyrir því að gefa öðrum konum byr undir báða vængi og valdefla þær. Konur eru konum svo sannarlega bestar, þorum að taka okkar pláss og styðjum við hvor aðra, það er lang skemmtilegast.

María Kristín Guðjónsdóttir

Nafn: María Kristín Guðjónsdóttir
Framboð til formanns (situr nú þegar í stjórn UAK)
Aldur: 32 ára
Starf: Framkvæmdarstjóri viðskiptaskrifstofu breska sendiráðsins í Reykjavík

Ég sit í stjórn UAK og gegni hlutverki viðskiptastjóra. Félagið er mér mjög kært og síðastliðið ár hef ég dregið ómetanlegan lærdóm, innblástur og stuðning frá bæði félagskonum og þeim öflugu konum sem sátu með mér í stjórn. Sjálf starfa ég sem framkvæmdarstjóri viðskiptatengsla milli Bretlands og Íslands í breska sendiráðinu í Reykjavík. Eftir að hafa búið og starfað erlendis upplifði ég hversu mikilvægt er að hafa vettvang fyrir konur til að koma saman, efla tengslanet, styðja hvor aðra og þannig stuðla að framróun í jafnréttismálum líkt og UAK gerir. Það væri mikill heiður að taka við hlutverki formanns fyrir komandi starfsár og halda áfram að móta félagið til framtíðar. Tækifærin fyrir UAK eru óteljandi og ég er sannfærð um að mín reynsla, metnaður og hugafar muni koma sér einstaklega vel í þessu hlutverki.

Ólöf Kristrún Pétursdóttir Blöndal

Nafn: Ólöf Kristrún Pétursdóttir Blöndal
Framboð í stjórn
Aldur: 21 árs
Starf: Verkefnafulltrúi hjá Klak – Icelandic Startups
Menntun: Nemi í BSc Hátækniverkfræði í HR

Í gegnum UAK hef ég vaxið í áttina að þeirri konu sem ég vil vera, ég hef kynnst frábærum fyrirmyndum og kem út af hverjum einasta viðburði full innblásturs til að takast á við þau verkefni sem við, ungar athafnakonur, stöndum frammi fyrir í dag. Ég vil bjóða mig fram til stjórnar til þess að taka þátt í að dreifa þeirri vitundarvakningu sem ég hef orðið fyrir og knýja fram nauðsynlegar breytingar á stöðu kvenna þegar kemur að jafnréttismálum. Sem formaður Listafélags NFVÍ öðlaðist ég dýrmæta reynslu í viðburðahaldi og teymisvinnu sem ég nýti í núverandi starfi mínu hjá Klak og er þess fullviss að það veganesti myndi nýtast vel sem stjórnarkona UAK. Það er draumur að fá tækifæri til þess að vinna með öðrum ungum athafnakonum og ég er staðráðin í að halda uppi gildum félagsins og nota mína færni og frumkvæði til þess að stuðla að nýjungum á komandi starfsárum.

Sigríður Borghildur Jónsdóttir

Nafn: Sigríður Borghildur Jónsdóttir
Framboð í stjórn og til formanns
Aldur: 30 ára
Starf: Process Engineer hjá Elkem Ísland

UAK er frábær félagsskapur, fullur af metnaðarfullum og drífandi ungum konum. Félagið hefur sýnt mér að ég er ekki ein í þessu, sem ungar konur á vinnumarkaði eru mínar upplifanir oft ykkar líka. Því er þessi samhugur sem hjá okkur myndast svo einstakur. Stuttlega um mig, þá tók ég vélaverkfræðina í HÍ, og var á þessum tíma einnig í ýmsum félögum, og ávallt að vinna að jafnréttissjónarmiðum. Fór til Hollands í MSc, en kom heim í covid. Er nú að klára MSc meðfram fullri vinnu hjá Elkem Ísland þar sem ég starfa sem Process Engineer yfir tveimur ferlum. Ég hef góða framtíðarsýn fyrir félagið, og ég legg mikið uppúr mikilvægi þess að efla og styðja við hæfni ungra kvenna. Ég hef verið þátttakandi að einhverju leyti í félaginu frá stofnun þess, en nú vil ég leggja mitt af mörkum fyrir þetta flotta félag sem hefur gefið mér svo margt.

Sóley Björg Jóhannsdóttir

Nafn: Sóley Björg Jóhannsdóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 24 ára
Starf: Afgreiðsla og innheimta hjá Kírópraktorstöðinni
Menntun: Nemi í miðlun og almannatengslum við Háskólann á Bifröst

Ég heiti Sóley Björg Jóhannsdóttir og er 24 ára gömul. Ég er nemandi við Háskólann á Bifröst og starfa á Kírorpraktorstöðinni samhliða námi í afgreiðslu og innheimtu. Ég hef tekið þátt í starfi Dale Carnegie sem aðstoðarþjálfari frá árinu 2018 sem hefur reynst mér virkilega vel í gegnum árin. Í kjölfarið lærði heilsumarkþjálfun í Institute for Integrative Nutrition og útskrifaðist árið 2020. Ég hef tek þátt í starfi UAK undanfarin ár og tók meðal annars þátt sem sjálfboðaliði í UAK ráðstefnunni árið 2021. Ég brenn fyrir starfi UAK og hef lært svo ótal margt af því að taka þátt í samtökunum, mig langar að leggja mitt að mörkum svo að fleiri konur getur fengið að taka þátt og upplifað það magnaða starf sem UAK stendur fyrir. Starfsemi UAK er dýrmætur vettvangur til að valdefla, fræða og tengja saman öflugar konur. Ég tel að reynsla mín og áhugi muni nýtast vel í stjórn UAK fyrir komandi starfsár.