Framboð til stjórnar og formanns UAK 2024

In Fréttir by Sóley Björg Jóhannsdóttir

Hér fyrir neðan má sjá framboð til stjórnar UAK 2024-2026 og formanns UAK 2024-2025. Frambjóðendum er raðað í stafrófsröð. Kosið er um þrjú pláss í stjórn félagsins en næstu tveir frambjóðendur sem ekki hljóta kjör verða skipaðir sem varamenn til eins árs. Aðalfundurinn fer fram þriðjudaginn 28. maí en frekari upplýsingar um hann má finna hér. Þær félagskonur sem hafa greitt félagsgjöld a.m.k. 2 vikum fyrir aðalfund hafa rétt til framboðs, setu og atkvæðagreiðslu á aðalfundinum.

Alma Stefánsdóttir

Nafn: Alma Stefánsdóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 29 ára
Starf: Sérfræðingur í vinnslutækni jarðvarmavirkjana hjá Landsvirkjun

Ég heiti Alma Stefánsdóttir og er 29 ára efna- og umhverfisverkfræðingur frá Akureyri. Ég hef setið í stjórn Ungra umhverfissinna (UU) og félags tækninema í Evrópu (BEST), ásamt því að vera virk í félagi kvenna í orkumálum (KíO). Síðastliðin ár hef ég fylgjst með starfi UAK erlendis frá og skráði mig loks í félagið í byrjun árs.
Starfandi í karllægum orkugeira, finn ég sterkt mikilvægi þess að eiga öflugar kvenfyrirmyndir og bakland hvetjandi kvenna með breiðan bakgrunn. Félagið hefur minnt mig á að kvenlægu gildin eru okkar styrkleiki sem má skína skært, en ekki veikleiki sem þarf að móta í fyrirfram ákveðin box. Ég er jákvæð, heiðarleg og óhrædd við að taka ábyrgð. Ég sé tækifæri í að styrkja tengslin við landsbyggðina og ég vil styðja við félagskonur að fræðast, eflast og blómstra í jafnvægi atvinnu- og einkalífs. Það væri sannur heiður að starfa með drífandi stjórnarkonum á næsta starfsári. 

Athena Neve Leex

Nafn: Athena Neve Leex
Framboð í stjórn
Aldur: 26 ára
Starf: Markaðsfulltrúi hjá Origo

Ég heiti Athena og ég býð mig fram í stjórn UAK. Í júní mun ég útskrifast með meistaragráðu í markaðsfræði frá Háskóla Íslands en ég er einnig með BS gráðu í sálfræði. Ég hef sinnt ýmsum félags- og sjálfboðaliðastörfum en ég hef verið hagsmunafulltrúi meistaranema í viðskiptafræði og hagfræði, varafulltrúi í sviðsráði og Stúdentaráði og markaðsstjóri Hugrúnar geðfræðslufélags, en í starfi Hugrúnar kynntist ég einmitt fyrst UAK og starfsemi þeirra. Hugrún og UAK stóðu fyrir sameiginlegum viðburði sem bar heitið „Ofurkonan þú“ og eftir þann viðburð var ég full af innblæstri, tengdi við þau gildi og markmið sem UAK stendur fyrir og skráði mig fljótlega eftir það í félagið. Mér hefur fundist ótrúlega gaman að vera meðlimur í félaginu þar sem UAK hefur fært mér svo margt og langar mig núna til þess að taka ennþá virkari þátt í starfseminni og hjálpa til við að efla félagið enn frekar.

Birta María Birnisdóttir

Nafn: Birta María Birnisdóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 23 ára
Starf: Sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf hjá Arctica Finance

Ég heiti Birta María Birnisdóttir og ég býð mig fram til stjórnar UAK. Ég starfa í fyrirtækjaráðgjöf hjá Arctica Finance og er ég með BSc gráðu í hagfræði og fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík.Ég býð mig fram í stjórn UAK til þess að styðja við bakið á öðrum öflugum, ungum konum. Sjálf hef ég verið í félaginu síðan 2021 og öðlast mikla þekkingu á ýmsum málefnum, eflt tengslanetið margfalt og er ég sannfærð um að félagið hafi hjálpað mér að taka mín fyrstu skref á vinnumarkaði. Því vil ég fá tækifæri til þess að gefa af mér og taka þátt í að deila þeim lærdómi og vitundarvakningu sem ég hef öðlast í gegnum starf félagsins.Ég hef mikinn metnað fyrir öllum þeim verkefnum sem ég tek mér fyrir hendur og vil ég nota mína færni og frumkvæði til þess að gera gott starf enn betra.

 Elín Halla Kjartansdóttir

Nafn: Elín Halla Kjartansdóttir
Framboð í stjórn 
Aldur: 24 ára
Starf: Sérfræðingur í stefnumótun og viðskiptaþróun hjá Icelandair (Business Analyst in Strategy and Corporate Development)

Ég heiti Elín Halla Kjartansdóttir og býð mig fram til stjórnar UAK. Ég er 24 ára hagfræðingur og starfa við stefnumótun hjá Icelandair. Ég hef mikla reynslu af félagsstörfum og viðburðahaldi. Í MR var ég bæði gjaldkeri Skólafélagsins og síðar Forseti Framtíðarinnar og bar ábyrgð á öllum viðburðum og starfi nemendafélagsins. Samhliða því sat ég í framkvæmdastjórn SÍF. Í Háskóla Íslands var ég formaður Ökonomíu, félags hagfræðinema. Það er tæpt ár síðan ég skráði mig í UAK og sé alls ekki eftir því. Síðastliðna mánuði hef ég mætt á ótal viðburði félagsins og fengið að kynnast vel hvað UAK stendur fyrir. Ég hef lært mjög mikið, hef margfaldað tengslanetið mitt og vil nú leggja mitt að mörkum til að hjálpa öðrum konum að gera slíkt hið sama. Ég tel að reynsla mín af félagsstörfum muni gagnast UAK vel og er tilbúin að leggja mig alla fram í þetta hlutverk.

Embla Líf Hallsdóttir

Nafn: Embla Líf Hallsdóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 23 ára
Starf: Samfélagsmiðla- og verkefnastjóri hjá Ding Digital dótturfyrirtæki SAHARA

Ég heiti Embla Líf Hallsdóttir, 23 ára Mosfellingur. Ég hef verið virk félagskona síðan 2018 eða síðan ég var 17 ára gömul. Í haust lýk ég grunnnámi við Háskólann á Bifröst þar sem ég hef stundað nám í viðskiptafræði með áherslu á verkefnastjórnun og markaðsfræði. Á öðru ári í náminu sat ég sem forseti nemendafélagsins á Bifröst og ýtti við starfinu þar. Nýlega lauk ég starfi mínu sem formaður ungmennaráðs UMFÍ. Sama hversu oft ég hef farið á viðburði hjá Ungum athafnakonum, labba ég alltaf út af miklum innblæstri. Ég hef brennandi áhuga á starfinu og vil taka þátt í að móta það, því býð ég mig fram til stjórnar Ungra athafnakvenna. Ég hef mikinn áhuga á félagsstörfum þar sem ég fæ tækifæri til þess að efla tengslanetið og reynslu á félags- og viðburðastjórnun. Ég bý yfir skipulagsfærni, leiðtogafærni, ástríðu fyrir jafnrétti og tel mig vera góða viðbót við stjórnina.

Melkorka Mist Gunnarsdóttir

Nafn: Melkorka Mist Gunnarsdóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 28 ára
Starf: Sérfræðingur í Próteintækni hjá ORF Líftækni

Ég hef fylgst með UAK úr fjarska í mörg ár, en ákvað í fyrra að skrá mig loksins. Ég hafði nefnilega aldrei, fyrr en þá, hugrekkið til að taka skrefið. Bæði vegna þess að ég hélt að ég væri ekki “nógu mikil“ athafnakona né fannst mér ég geta gefið mér tímann. Ég er nefnilega þannig byggð að ég vil geta gefið 100% af mér í allt það sem ég tek mér fyrir hendur. Eftir að hafa skráð mig í UAK sá ég hvað ég hafði rangt fyrir mér. Það er ekkert sem heitir “nógu mikil“ athafnakona. UAK er fyrir allar konur sem vilja efla tengslanetið, sjálfstraustið, framkomu, auka á tækifærin sín og ég gæti haldið lengi áfram. Ég býð mig fram í stjórn UAK af þeirri ástæðu að ég vil vera hvatning fyrir aðrar ungar konur í að taka skrefið, finnum hugrekkið og setjum okkur í fyrsta sæti.

Ólöf Kristrún Pétursdóttir Blöndal

Nafn: Ólöf Kristrún Pétursdóttir Blöndal
Framboð til formanns
Aldur: 22 ára
Starf: Verkefnafulltrúi hjá KLAK Icelandic Startups

Ég hef setið í stjórn UAK síðastliðið ár sem viðskiptastjóri, en sá tími hefur gefið mér ómetanlega reynslu, fræðslu og gleði. Félagskonur eru mér dýrmæt hvatning og kvenskörungar sem ég hef kynnst í starfi UAK veita mér stöðugan innblástur til þess að takast á við fjölbreytt verkefni í lífi og leik. Ég var að ljúka BSc gráðu í hátækniverkfræði frá HR og vinn hjá KLAK -Icelandic Startups, meðal annars við skipulagningu og framkvæmd viðskiptahraðla. Jafnrétti á vinnumarkaði er mér mikið umhugsunarefni og ég tel að með áframhaldandi vitundarvakningu í samfélaginu, meðal annars útfrá boðskapi UAK, getum við tekið skref í rétta átt. Ég sækist eftir embætti formanns UAK og það væri mér heiður að vinna áfram að þeirri framþróun sem við félagskonur höfum staðið fyrir síðustu ár. Mig langar að leggja áherslu á að efla enn frekar og víkka út tengslanet kvenna þvert á geira, en samtakamátturinn og samtalið á að vera leiðarljós í öllu starfi þessa mikilvæga félagsskapar.

Ragnhildur Auður Mýrdal Ragnheiðardóttir

Nafn: Ragnhildur Auður Mýrdal Ragnheiðardóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 23 ára
Starf: Laganemi í Regluvörslu Landsbankans. Meistaranemi í lögfræði við Háskóla Íslands

Ef ég hefði vitað hvert ferðalagið myndi leiða mig eftir að ég sótti minn fyrsta UAK viðburð, hefði ég gerst félagskona frá fyrsta degi. UAK er sá vettvangur sem ég sæki minn innblástur, drifkraft og hvatningu fyrir mína framtíð. Í gegnum félagið hef ég einnig kynnst sjálfri mér betur, fundið styrkleika mína og uppgötvað fjölbreyttar fyrirmyndir sem ég get speglað mig í. Af reynslu minni sem formaður Málfundafélags Verzlunarskólans, lögfræðimenntun og starfsreynslu í fjármálageiranum, hef ég fengið góða sýn inn í íslenskt atvinnulíf og öðlast sterka leiðtogahæfni. Framtíðarsýnin mín fyrir félagið er að stuðla að áframhaldandi hvatningu til starfsþróunar, tengslamyndunar og viðhorfsbreytinga. Ég vil tryggja að félagskonur finni fyrir sama stuðningi og ég hef verið svo lánsöm að hafa fengið í gegnum UAK og það væri því heiður að koma að áframhaldandi vegferð félagsins. Ég er fús til að koma með kraft, hugmyndir og hollustu til stjórnar UAK, og saman getum við mótað farsæla framtíð fyrir ungar athafnakonur.

Thelma lind Valtýsdóttir

Nafn: Thelma Lind Valtýrsdóttir
Framboð í stjórn
Aldur: 27 ára
Starf: Ráðgjafi á Consulting sviði hjá Deloitte

Ég er 27 ára frá Reykjavík og starfa sem ráðgjafi hjá Deloitte og aðstoða fyrirtæki í þeirra vegferð í stafrænni umbreytingu. Áður starfaði ég hjá Teya, fjártæknifyrirtæki, bæði í söluteyminu og viðskiptatengslum. Ég er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands. Ég elska að hlaupa og hef mikla ástríðu fyrir því.Ég hef verið félagskona núna í fjögur ár en ég mætti á minn fyrsta viðburð haustið 2020. UAK á stóran stað í mínu hjarta og mér þykir mjög vænt um félagið. Ég hef ótrúlega mikinn metnað fyrir félaginu og vil sjá það dafna og vaxa og þar tel ég að ég get komið inn og nýtt mína hæfileika til góðs.

Þorbirna Mýrdal

Nafn: Þorbirna Mýrdal
Framboð í stjórn
Aldur: 33 ára
Starf: Löggiltur fasteignasali hjá Croisette – Knight Frank fasteignasölu- og fasteignaráðgjöf.

Ég hef verið félagskona í UAK í eitt ár og er heilluð af starfi þessa félags. UAK eflir konur í atvinnulífinu og styrkir tengslanet þeirra. Innblástur og hvatning innan UAK hefur leitt mig til þeirrar ákvörðunar að bjóða fram krafta mína og metnað til stjórnar fyrir komandi starfsár. Í sumar útskrifast ég sem Löggiltur fasteignasali frá Endurmenntun HÍ en samhliða því hef ég starfað við fagið hjá Croisette – Knight Frank fasteignasölu- og fasteignaráðgjöf síðan í apríl 2023. 2010 til 2019 bjó ég og starfaði í New York, Osló og í Dubai hjá flugfélaginu Emirates sem veitti mér víðtæka sýn á atvinnulíf og menningu ólíkra landa. Eftir þessi ár erlendis langar mig að styrkja tengslanet mitt á Íslandi og kynnast öflugum og metnaðarfullum konum í atvinnulífinu. Persónulegir eiginleikar, drifkraftur, jákvæðni og skipulag mitt mun nýtast vel í stjórn UAK. Ég hlakka til að efla og móta framtíð félagsins.