Framboð til stjórnar UAK 2018

In framboð-2018, Fréttir by annaberglind

Nafn: Auður Albertsdóttir
Aldur: 29 ára
Menntun: Ég er með BA gráðu í bókmenntafræði frá HÍ og er að útskrifast með MS gráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum úr sama skóla í haust. 
Starf: Áður en ég fór í nám síðasta haust hafði ég verið blaðakona hjá mbl.is frá byrjun árs 2014 og síðasta rúma árið var ég umsjónarmaður viðskiptafrétta á vefnum. Síðustu mánuði hef ég samhliða námið unnið sem sjálfstætt starfandi almannatengill

Ég hef áhuga á að sitja í stjórn UAK því að mér finnst þetta flott og spennandi félag sem sinnir mjög mikilvægu starfi.
Málefni kvenna og þá sérstaklega kvenna á vinnumarkaðinum standa mér nærri og kynntist ég þessum málum vel í starfi mínu sem blaðakona. Einnig hef ég reynslu af því að vera móðir á vinnumarkaðinum en ég á fimm ára strák.
Ég veit að konur eru konum bestar og trúi því að konur geta gert magnaða hluti saman sem ég hef t.d. séð  í starfi UAK. Ég er mjög skipulögð og elska að vinna með og kynnast fólki og þætti það mikill heiður að fá að vinna að frábæru starfi UAK með því að sitja í stjórn félagsins.

Nafn: Ásta Ægisdóttir
Aldur: 27 ára
Menntun/Starf: Tölvunarfræðingur

Ég hef starfað sem tölvunarfræðingur frá útskrift úr HR 2017. Á lokaárinu mínu sat ég sem fjölmiðlafulltrúi í stjórn /sys/tra, félags kvenna í tölvunarfræði við HR. Þó /sys/tur séu minna félag eiga þær margt sameiginlegt með UAK, en helsta markmið /sys/tra er að varpa ljósi á kvenkyns fyrirmyndir í tækniheiminum og hvetja þær til dáða.

Ég tel UAK vera mikilvægan vettvang fyrir ungar konur til þess að mynda tengslanet og efla hvor aðra. Ég hef áhuga á setu í stjórn UAK til þess að leggja mitt af mörkum í áframhaldandi uppbyggingu á þessu mikilvæga starfi.

Nafn: Björgheiður Margrét Helgadóttir
Aldur: 26 ára
Menntun: M.Sc. í verkfræði frá HR
Starf: Upplýsingatækni hjá Innnes

Björgheiður heiti ég og kem frá Egilsstöðum. Þegar skólagöngu minni í ME var lokið hélt mín af stað í borgina og hóf nám við HR í heilbrigðisverkfræði. Þar náði skvísan aldeilis að koma út úr skelinni og blómstra, var meðal annars í stjórn Pragma (félags verkfræðinema) í tvö ár, tók að mér kynningar fyrir framhaldsskólaheimsóknir, og tók fullan þátt í félagslífinu.
Ég útskrifaðist úr HR 2016 og stuttu eftir útskrift kynntist ég UAK og hef verið dugleg að sækja viðburði. Vá hvað það hefur fyllt allrækilega í það tómarúm sem félagslífið í skólanum hafði skilið eftir sig. Viðburðirnir hafa fyllt mig eldmóð og það er svo magnað að hitta svona margar fáránlega nettar píur og hugsa “ef hún getur það, þá get ég það”. Ég tók þátt í að aðstoða ofurkonurnar okkar í stjórninni með UAK daginn og það væri mér mikill heiður að halda áfram að taka þátt í að efla aðrar ungar athafnakonur og stuðla að jafnrétti í íslensku samfélagi.

Nafn: Eyrún Viktorsdóttir
Aldur: 27 ára
Menntun: Meistarapróf í lögfræði
Starf: Lögfræðingur hjá Dattaca Labs

Ungar athafnakonur, við erum krafturinn sem þarf til að breyta og jafna stöðu kvenna. Krafturinn sem við allar sækjum í og sem veitir okkur stuðning og innblástur til þess að gera magnaða hluti.

Ég heiti Eyrún og býð mig fram í stjórn UAK. í byrjun árs útskrifaðist ég sem lögfræðingur og starfa í dag sem slíkur hjá nýsköpunarfyrirtækinu Dattaca Labs. Áður sinnti ég rannsóknum á sviði samkeppnisréttar og hlaut m.a. styrki frá Nýsköpunarsjóði og Samkeppniseftirlitinu til þess að láta rannsóknir mínar verða að veruleika.

Ég hef talsverða reynslu bæði úr stjórnarstarfi og formennsku. Sömuleiðis hef ég setið í jafnréttisnefnd, umhverfisnefnd, í ritstjórnum og veitt lögfræðiráðgjöf í sjálfboðastarfi.

Nú er ég að taka mín fyrstu skref á atvinnumarkaðnum, skellurinn er mikill og á brattann að sækja sem kona. Tökum pláss, stöndum saman, myndum tengslanet og höldum baráttunni áfram við að jafna leikinn. UAK er krafturinn sem til þarf, ryðjum veginn saman.

Nafn: Eva Michelsen
Aldur: 33 ára
Starf: Verkefnastjóri  – Lífsgæðasetur St. Jó
Menntun: M.Sc. í Stjórnun og stefnumótun

Eva heiti ég og býð mig fram til stjórnar UAK. Ég hef víðtæka reynslu af atvinnulífinu og með öflugt tengslanet hér á landi sem og erlendis. Í dag starfa ég sem Verkefnastjóri fyrir Lífsgæðasetur St. Jó í Hafnarfirði ásamt því að vera með eigin rekstur í köku og konfektgerð. Þar áður starfaði ég hjá Sjávarklasanum sem framkvæmdastjóri Húss Sjávarklasans út á Granda.

Ég tel félagið vera góðan vettvang fyrir ungar athafnakonur til að efla tengslanet sitt og annarra kvenna, og lít á stjórnarsetu í UAK sem tækifæri til að vera fyrirmynd og mentor ásamt því að hvetja konur til virkrar þátttöku í atvinnulífinu og stjórnendastöðum.

Ég hef fylgst með félaginu á hliðarlínunni frá stofnun þess en vil nú leggja mitt á vogarskálarnar til að leiða félagið áfram og efla mátt félagskvenna til fjölbreyttra verkefna.

Nafn: Jóna María Ólafsdóttir
Aldur: 26 ára
Menntun: MSc í Verkefnastjórnun (University of Sussex) og BSc í Sálfræði (HÍ)
Starf: Verkefnastjóri á Skrifstofu Alþjóðasamskipta við Háskóla Íslands

Ég heiti Jóna María og sækist eftir kjöri til setu í stjórn UAK. Ég er 26 ára og starfa sem verkefnastjóri á Skrifstofu Alþjóðasamskipta við Háskóla Íslands. Ég lauk nýverið meistaragráðu í Verkefnastjórnun frá University of Sussex, Brighton.

Ég myndi lýsa sjálfri mér sem skipulagðri, félagslyndri og algjörum do-er. Mér líður best þar sem er líf og fjör og nóg að gera. Ég klára það sem ég tek mér fyrir hendur og legg kapp á að framkvæma það mjög vel.

Ég hef fylgst með því frábæra starfi sem UAK sinnir og tel félagið vera mikilvægan vettvang til þess að hafa áhrif í samfélaginu og efla stöðu kvenna í atvinnulífinu sem og annarsstaðar. Ég tel mig búa yfir krafti, áhuga og reynslu sem mun nýtast vel og gera mér kleift að leggja hönd á plóg í því frábæra starfi sem Ungar Athafnakonur sinna.

Nafn: Kolfinna Tómasdóttir
Aldur: 24 ára
Menntun:Laganemi við Háskóla Íslands
Starf: Sumarstarfsmaður hjá Fjárvakri

Það er með sannri ánægju sem gef kost á mér í stjórn Ungra athafnakvenna. Í gegnum árin hef ég öðlast mikla reynslu í félags- og stjórnunarstörfum. Gleðin sem ég fæ úr því að vinna með fólki hefur ávallt veitt mér mikinn drifkraft til að taka að mér ábyrgðarmikil verkefni og leitt mig til stjórnarsetu í fjölda félagasamtaka hérlendis og erlendis. Verandi núverandi forseti og endurstofnandi Íslandsdeildar ELSA (e. European Law Students’ Association) og hafandi verið alþjóðaritari Orators, félags laganema við Háskóla Íslands, forseti Norræna alþjóðaritararáðsins og stjórnarmeðlimur Ungmennaráðs UN Women á Íslandi, get ég óhrædd sagt að ég sækist glöð eftir nýjum áskorunum þar sem ég tel krafta mína vel nýtta.

Ég hef verið félagskona frá stofnun. Í UAK hef ég fundið hóp kvenna sem deilir hugsjónum mínum og eldmóði en nú vil ég leggja mitt af mörkum og nýta mína hæfileika, krafta, reynslu og styrk til að starfa fyrir UAK.

Nafn: Sara Rós Kolodziej
Aldur: 25 ára
Menntun:BSc í Tölvunarfræði
Starf: Hef verið að vinna sem tölvunarfræðingur í yfir ár og er í starfsnámi í USA út júlí. Byrja svo sem hugbúnaðarprófari hjá Meniga í ágúst.

Ég er hálf pólsk, hálf íslensk og er 25 ára gömul. Hef mikinn áhuga á bókmenntum og matargerð í frítíma mínum.

Ég útskrifaðist frá HR í júní 2017. Þar tók ég þátt í að kynna tækninám fyrir unglingum, með áherslu á að sýna ungum stelpum möguleika tæknigeirans. Var ritari og svo félagsmaður í /sys/tur alla háskólagöngu mína og tók þátt í verkefninu Tækniáhugi fyrir Samtök Iðnaðarins, þar sem ég ásamt nemanda úr HÍ fórum í framhaldsskóla landsins að kynna möguleika tæknináms. Einnig var ég mikið með kynningar fyrir HR, bæði á básum og fyrir framhaldsskólanema.

Ég hef haft mikinn áhuga á UAK síðan það var stofnað og vil taka virkan þátt í þessum frábæra félagi. Að styrkja og efla stöðu kvenna í atvinnu, þá sérstaklega upplýsingatækni, er eitt að mínum stærstu markmiðum og hefur verið síðustu ár.

Nafn: Snæfríður Jónsdóttir
Aldur: 23 ára
Menntun: Mun útskrifast með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands í október 2018.
Starf: Samfélagsmiðlafulltrúi hjá Sahara auglýsingastofu

Ungar athafnakonur sinna gríðarlega mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Að vera virk félagskona í UAK hefur veitt mér ómetanlega hvatningu til að láta til mín taka í námi, starfi og á öðrum sviðum samfélagsins. Þar að auki hefur félagið gefið mér tækifæri á að kynnast fjölmörgum mögnuðum konum sem hafa hver á sinn hátt fyllt mig innblæstri. Ég vil sitja í stjórn UAK vegna þess að ég vil nýta mína þekkingu, reynslu og ástríðu í að móta starfsemi félagsins. Ég tel mig hafa talsvert fram að færa í starfseminni og langar að fá tækifæri til að starfa fyrir félagið.