
Nafn: Andrea Gunnarsdóttir
Aldur: 25 ára
Menntun: BSc Rekstrarverkfræði
Starf: Tæknilegur ráðgjafi, AGR Dynamics
Ég þrífst best í umhverfi sem stuðlar að bættum heimi og hef unnið að ýmsum verkefnum sem eiga það sameiginlegt að fylla mig eldmóði og hafa áhrif. Ég sat í stjórn Ungra athafnakvenna 2016-2018. Ég gegndi stöðu varaformanns Ungmennaráðs UN Women á Íslandi og var formaður nýsköpunar – og frumkvöðlanefndar SFHR. Ásamt því var ég starfsnemi hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og frá árinu 2018 hef ég verið One Young World Ambassador, en samtökin eru alþjóðlegur vettvangur sem tengir áhrifaríka unga leiðtoga með það að markmiði að skapa ábyrgari og betri heim. Ég hef fengið að nýta þekkingu mína og ástríðu fyrir jafnrétti í atvinnulífinu en ég starfaði sem Diversity & Inclusion Specialist hjá Marel. Ég vil læra af öðrum og vera hluti af þeirri orku sem skapast þegar einstaklingar með ólíkan bakgrunn koma saman og vinna að sömu markmiðum. Ég er sannfærð um að hæfileikar mínir og hugarfar muni koma sér einstaklega vel í starfi félagsins.

Nafn: Bjarklind Björk Gunnarsdóttir
Aldur: 24 ára
Menntun: Grunnnám í sálfræði í Háskólanum í Reykjavík
Starf: Sumarstarf, millistjórnandi í Jafningjafræðslu Hins Hússins
Bjarklind heiti ég og býð mig fram í stjórn UAK. Ég er 24 ára, lausnamiðuð, metnaðarfull og með sterka réttlætiskennd. Ég mætti í fyrsta skipti á viðburð hjá UAK fyrir 4 árum og á hverjum viðburði fyllist ég trú á bjartari og réttlátari framtíð. Ég á yndislegan strák sem er 18 mánaða, að vera móðir hans hefur kennt mér svo ótrúlega margt á skömmum tíma. Mig langar að miðla þeim lærdómi áfram og vera fulltrúi þeirra félagskvenna sem eru bæði framakonur og mæður. Ég hef verið í stjórnendastörfum í jafningjafræðslu Hins Hússins síðastliðin 2 ár og hef því mikla reynslu af því að vinna með fólki og skipuleggja viðburði. Ég tel að ég gæti verið góð viðbót við stjórnina því að ég brenn fyrir sömu málefnum og UAK stendur fyrir. Jafnrétti er mér mikið hjartans mál og það væri mér heiður að fá tækifæri til að taka þátt í að móta það flotta starf sem UAK hefur byggt upp.

Nafn: Elísa Arna Hilmarsdóttir
Aldur: 23 ára
Nám/starf: Lýk grunnámi úr Hagfræði við Háskóla Íslands í júnímánuði
Ég heiti Elísa Arna Hilmarsdóttir, er 23 ára og lýk grunnnámi í Hagfræði við Háskóla Íslands í næstkomandi mánuði með hæstu einkunn. Frá blautu barnsbeini hef ég verið ákveðin, með sterkar skoðanir og skýr markmið. Ég hef ætíð verið mikill dugnaðarforkur og lagt mig alla fram í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur, bæði við nám og íþróttaiðkun. Ég æfði skíði í 13 ár og var t.a.m. í afrekshópi ungmenna skíðalandsliðsins og tók m.a. þátt á Vetrarólympíuleikum ungmenna. Þegar ég lagði skíðin á hilluna og fór fyrst á atvinnumarkaðinn varð mér fljótt umhugað að stöðu kvenna í atvinnulífinu og þá sérstaklega í stjórnunarstöðum þar sem málefnið snertir mig og hef ég metnað fyrir því að ná langt og skara fram úr. Ég tel mikilvægt að efla stöðu ungra kvenna í atvinnulífinu og langar að leggja félaginu lið og hafa áhrif á starfið. Ég tel að með afburða fræðslu, aukinni vitundavakningu og hvetjandi umræðu að vopni sé kleift að ná fram settum markmiðum félagsins; að stuðla að jöfnum tækifærum kynjanna.

Nafn: Embla Líf Hallsdóttir
Aldur: 19 ára
Menntun/starf: Menntskælingur úr Borgarholtsskóla, er starfsmaður hjá Ungmennaráði Mosfellsbæjar og vinn sem sumarstarfsmaður á leikskóla og í Skemmtigarðinum í Grafarvogi.
Eftir að hafa verið virk félagskona og hef mikinn áhuga á félagsstörfum, þá finnst mér komin tími til þess að bjóða mig fram í stjórn UAK. Enda hefur UAK verið það félag sem hefur mótað mig, skoðanir mínar og hvatt mig hvað mest áfram í að taka þátt, hlusta og læra af þeim athafnakonum sem hafa komið fram og verið virkar félagskonur. Ég er 19 ára menntskælingur úr Borgarholtsskóla, er starfsmaður hjá Ungmennaráði Mosfellsbæjar og vinn sem sumarstarfsmaður á leikskóla og í Skemmtigarðinum í Grafarvogi. Mig langar mikið að hvetja fleiri ungar stelpur sem eru að ljúka mennta- og framhaldsskóla til að skrá sig í UAK. Ástæða þess er að UAK hefur hjálpað mér svo mikið og ég veit að félagið getur einnig hjálpað öðrum ungum og verðandi athafnakonum einnig. Ég er búin hlusta á og hitta margar flottar fyrirmyndir og lært mikið af öðrum félagskonum. Allar erum við fyrirmyndir fyrir hvor aðra og hvetjum áfram.

Nafn: Emilía Tinna Sigurðardóttir
Aldur: 23 ára
Nám: Verkfræðinemi í Háskólanum í Reykjavík
Ég heiti Emilía og býð mig fram í stjórn UAK. Í starfsnámi mínu í Össuri, þátttöku í hakkaþoni og vinnu með fötluðum hef ég öðlast mikla reynslu af vinnu með fólki, samskiptahæfni og það að takast á við krefjandi verkefni. Ég vil taka þátt í að stuðla að jafnrétti í samfélaginu, efla ungar konur og fylla þær eldmóði. Mikilvægt er að hjálpa ungum konum að finna styrkleika sína og grípa þau tækifæri sem þeim býðst. Ég vil einnig hjálpa til við að ryðja þá braut og fella þær hindranir sem konur standa oft frammi fyrir, sérstaklega í atvinnulífi og námi sem við margar könnumst líklega við. Ástæðan fyrir mínu framboði er sú að ég vil taka starfið enn lengra og væri það mikill heiður að fá að sitja í stjórn UAK. Ég myndi sinna starfinu af miklum eldmóð enda geri ég vel það sem ég ætla mér og brenni fyrir.

Nafn: Hanna Björt Kristjánsdóttir
Aldur: 25 ára
Nám/starf: Fulltrúi í lögfræðideild og regluvörslu hjá Marel hf. og meistaranemi í lögfræði við Háskóla Íslands.
Sælar kæru félagskonur. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í stjórn Ungra athafnakvenna fyrir komandi starfsár. Mér hefur alltaf þótt mikið til Ungra athafnakvenna koma og ég sé mikið af sóknartækifærum fyrir félagið og er ég mjög spennt fyrir þeim möguleika á að fá tækifæri til að nýta mína orku og reynslu í þágu félagsins og félagskvenna þess. Ég hef mikla reynslu af félagsstörfum, bæði úr menntaskóla og háskóla, þar sem ég var m.a. í stjórn Orators félags laganema Háskóla Íslands. Að auki við reynslu í félagsstörfum brenn ég fyrir því að jafna stöðu kvenna í atvinnulífinu sem og í samfélaginu öllu. Þetta félag hefur veitt mér mikinn innblástur og fyllt mig eldmóði til að beita mér til að bæta stöðu okkar innan atvinnulífsins og þeirra kvenna sem á eftir okkur koma.

Nafn: Heiða Skúladóttir
Aldur: 24 ára
Nám/starf: Viðskiptafræðingur sem sér um markaðssamskipti hjá Fríhöfninni.
Ég er Hafnfirðingur sem hefur áhuga á markaðsmálum, útivist, heimildarmyndum, rauðvíni, tísku og hönnun – ekki endilega í þeirri röð. Ég mun útskrifast með BS gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands í júní 2020. Með námi vann ég í markaðs- og söludeild Special Tours, var í starfsnámi á markaðssviði Háskóla Íslands og forseti Fjármála- og atvinnulífsnefndar SHÍ. Í dag sé ég um markaðssamskipti hjá Fríhöfninni, dótturfélagi Isavia. Ég býð mig fram í stjórn UAK vegna mikils áhuga á atvinnulífinu og samstöðu kvenna. Ég er opin og góð í samskiptum, úrræðagóð og lausnamiðuð sem ég tel vera mikilvæga eiginleika fyrir stjórnarkonu UAK. Í störfum mínum innan Háskóla Íslands og Fríhöfninni hef ég öðlast reynslu og byggt upp tengslanet sem ég tel koma að góðum notum fyrir félagið. Ég vil því leggja mitt að mörkum í undirbúning spennandi dagskrár fyrir næstu tvö ár og efla og hvetja ungar konur í atvinnulífinu.

Nafn: Ingveldur María Hjartardóttir
Aldur: 25 ára
Starf: Verkefnastýra hjá Samfés, samtökum félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi og verkefnastýra hjá Pieta samtökunum
Ég heiti Inga María og er 26 ára Skagamær. Ég hef verið tónlistarkona frá unga aldri, en ég lauk námi frá einum virtasta tónlistarháskóla heims, Berklee College of Music í Boston, þar sem ég lærði tónlistarviðskipta- og markaðsfræði. Að skólaárunum loknum fluttist ég til Los Angeles þar sem ég vann sem umboðskona. Nú er ég búsett í Reykjavík þar sem ég starfa sem verkefnastýra Samfés, en ég hef einnig nýlega ráðið mig sem verkefnastýru Pieta samtakanna. Reynslan frá árunum í Bandaríkjunum hefur reynst mér ótrúlega vel í þeim störfum sem ég gegni í dag og býð ég mig fram í stjórn UAK til að deila þeirri reynslu með öllum þessu frábæru konum. Það er mér mikilvægt að konur standi saman og læri frá hvorannarri og ég sé hvergi betri tækifæri til þess en hjá UAK! Takk fyrir.

Nafn: Katrín Pétursdóttir
Aldur: 25 ára
Menntun: Meistaragráða í lögfræði
Starf: Vinn sem eftirlitsaðili hjá Barnavernd Reykjavíkur
Ég er í sambandi, búsett í Reykjavík og á tvö börn. Frá því að ég man eftir mér hefur mér alltaf liðið vel í þeirri aðstöðu að sitja til hliðar og vera laus við ákvörðunartökur og það skipulag sem felst í að stjórna félögum, þó ég sé virkur þátttakandi. Ég keypti mér íbúð árið 2015 og kynntist þá að vera partur af húsfélagi. Íbúar hússins hvöttu mig til þess að sitja í stjórn og harðneitaði ég og vildi vera áfram í þessari þægilegu stöðu að taka þátt en taka ekki neinar ákvarðanir eða skipuleggja. Stjórn húsfélagsins það ár var algerlega óvirkt og tók ég við stjórninni því enginn annar gerði það, en áttaði mig á því að mér fannst þetta mjög skemmtilegt og áhugavert og hef verið formaður húsfélagsins síðan þá. Ástæða framboðs míns er að ég vil taka þátt í að gera UAK enn betra og afla mér víðtækari reynslu á stjórnum félaga.

Nafn: Katrín Sigríður Þorsteinsdóttir Bachmann
Aldur: 25 ára
Menntun: BA (Honors) í alþjóða viðskipta- og hótelstjórnun frá Les Roches Global Hospitality Education Switzerland
Starf: Móttökuvaktstjóri, Center Hotels Arnarhvoll
Mér hefur alltaf þótt mikilvægt að styðja við aðrar konur og ég vona að þið treystið mér til þess svo ég geti sýnt það í verki. Ég býð mig fram í stjórn UAK vegna brennandi áhuga á starfi félagsins og löngun til að taka þátt í að móta starfsemi félagsins á komandi misserum. Ég er jákvæð, opin og hef metnað fyrir þeim verkefnum sem ég tek mér fyrir hendur. Ég bý að margra ára reynslu af viðburðar-og stjórnarstörfum sem hefur mótað mig mikið sem einstakling. Fyrsta ár UAK var ég virkur meðlimur í félaginu en fylgdist svo með úr fjarska á meðan ég stundaði nám í hótelstjórnun við Les Roches í Sviss. Það hefur gefið mér mikið að hafa verið hluti af okkar frábæra félagsskap í vetur eftir að ég lauk náminu mínu og flutti heim. Ég hlakka til að kynna mig frekar og fá tækifæri til að segja ykkur frá hugmyndum mínum fyrir UAK á komandi aðalfundi.

Nafn: Kristjana Björk Barðdal
Aldur: 24 ára
Starf: Framkvæmdastjóri Reboot Hack
Kristjana Björk heiti ég og vinn sem hakkaþonráðgjafi, ég var að klára skipuleggja fyrsta stafræna hakkaþonið á Íslandi, Hack the Crisis Iceland. Ég er með BS í iðnaðarverkfræði og tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Ég hef ágæta reynslu af félagastörfum, ég sat m.a. í stjórn Ungmennaráðs UN Women og Stúdentaráði HÍ. Ég er meðstofnandi Ada, hagsmunafélags kvenna í upplýsingatækni við HÍ og gegni þar stöðu forseta ásamt því að vera varaformaður VERTOnet. Meira um mig hér. Mínir helstu kostir eru skipulagshæfileikar, jákvæðni og drifkraftur sem ég tel eiga heima í stjórn UAK. Félagið er magnaður grundvöllur sem skiptir máli fyrir jafnréttisbaráttuna. Á þeim tíma sem ég hef verið í félaginu hef ég fundið fyrir gríðarlegum stuðningi og eftir alla viðburði líður manni eins og heimurinn sé í höndum manns, maður sé óstöðvandi. Ég vil nýta bakgrunn minn, reynslu og tengslanet til að halda áfram að móta og byggja upp starfið.

Nafn: Rizza Fay Elíasdóttir
Aldur: 26 ára
Menntun: BA gráða í ensku með alþjóðalögfræði sem aukagrein.
Starf: International Service Manager / Alþjóðlegur þjónustustjóri @ Ghostlamp og Samfélagsmiðlafulltrúi @ PIPAR\TBWA
Ég vil gjarnan gefa mér kost í stjórn UAK. Bý yfir mikilli reynslu af stjórnarstörfum og nefndarstörfum og tel að ég gæti komið með gott innsýn og deilt reynslu minni með stjórn UAK og félagskonur. Nokkur dæmi um reynslur er að ég sat sem formaður Háskóladansins árið 2018 – 2019 og þar áður var ég kynningarstjóri félagsins árið 2015. Hef einnig tekið þátt í Stúdentaráði Háskóla Íslands sem meðlimur fyrir hönd Vöku og sat einnig í stjórn Vöku. En besta reynsla og upplifun sem ég hef aflað mér er þegar ég sat sem ritari í nýsköpunar og frumkvöðlanefnd SHÍ. Þar tók ég þátt í að efla unga frumkvöðla með því að vera í verkefnastjórn Gulleggsins undir leiðsögn Icelandic Startup ásamt önnur verkefni með þeim. Þar lærði ég að það þyrfti að hvetja fleiri ungar konur til að taka þátt í nýsköpun og frumkvöðlastarfi, þannig að nefndin tók sig til og skellti í viðburð sem bar heitið “Women take the lead” í samstarfi við Student Talks. Þar fengum við þrjár öflugar ungar konur, enn í námi, til að tala um þau verkefni sem þau hafa byrjað á og hvað veitti þeim innblástur til að byrja. En þetta er bara brot af því sem ég hef gert og bý yfir enn fleiri sögum og reynslum sem væri gaman að deila. Allt þetta er undirstaða áhuga míns á Ungra athafnakvenna. Í leiðinni kynntist ég frábærar konur sem hafa nú þegar setið í stjórn UAK og hafa veitt mér mikinn innblástur til að stíga mig fram og gera það sama.

Nafn: Stefanía Theodórsdóttir
Aldur: 22 ára
Nám: Nemandi við Háskólann í Reykjavík er að læra rekstrarverkfræði
Ég heiti Stefanía og verð 23 ára á þessu ári. Uppalin í Garðabæ og bý þar hjá foreldrum mínum ásamt fimm yngri systkinum. Stunda nám við HR þar sem ég er að læra rekstrarverkfræði og mun útskrifast jólin 2020, samhliða því æfi ég handbolta með mfl Stjörnunnar. Skemmtilegt hlutverk bíður mín í haust þar sem ég og kærastinn minn erum að flytja saman og eigum von á okkar fyrsta barni. Mínir helstu kostir eru að ég er opin, jákvæð
og drífandi. Ástæða þess að ég býð mig fram er að ég tel þetta tækifæri til að kynnast fleirum og láta gott af mér leiða. Eftir að hafa komið á fundi í vetur fannst mér starfið sem UAK stendur fyrir mjög áhugavert, skemmtilegt og hvetjandi fyrir yngri konur, ég mikinn áhuga á að taka þátt í því starfi og efla það ennþá frekar.

Nafn: Zoë Vala Sands
Aldur: 25 ára
Menntun: MPM, meistaranám í verkefnastjórnun, HR. Jazz söngur, FÍH/MÍT.
Starf: Sumarstarf sem Grænn fræðsluleiðbeinandi, Reykjavíkurborg.
Ég kynntist UAK þegar ég stundaði nám við Ivy League háskólann, Dartmouth, þar sem ég var forseti alþóðanemendafélagsins og stofnaði Norrænafélag skólans. Ég hafði búið lengi erlendis, þekkti fáa, en í UAK fann ég magnaðar konur sem tóku mér opnum örmum. Ég flutti heim síðastliðið haust eftir að hafa unnið í Suður-Afríku og Amsterdam sem ráðgjafi á sviði upplýsingatækni fyrir samtök á borð við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO). Í gegnum þetta starf og áður hjá samtökunum Voice4Girls í Indlandi og Flóttamannastofnun-Sameinuðu-þjóðanna varð mér ljóst mikilvægi tengslanets, fræðslu og hópeflingar. Nú langar mig að leggja mitt af mörkum innan kraftmikils samfélags UAK. COVID-19 hefur undirstrikað mikilvægi starfs ýmissa kvennastétta. Við uppbyggingu efnahagslífsins er sérstaklega áríðandi að taka mið af þörfum kvenna. Ég vil vinna með UAK og gefa sem fjölbreyttustum hóp kvenna aðgang að þeim tækifærum sem að UAK hefur fram að færa og þannig gera félagið að enn sterkara afli í jafnréttisbaráttunni.

Nafn: Þóra Rut Jónsdóttir
Aldur: 27 ára
Starf: Sérfræðingur í Sjálfbærni og Gæðamálum hjá Advania Ísland ehf.
Ég heiti Þóra Rut Jónsdóttir og vil bjóða mig fram í stjórn UAK 2020-2022. Ég tel mig hafa margt fram að bjóða í stjórnsetu UAK. Hef fylgst með uppgangi félagsins frá stofnun, var virkur meðlimur fyrstu árin og svo aftur eftir að ég flutti heim til Íslands árið 2019 eftir meistaranám erlendis. Jafnréttismál eru mér mikilvæg og ég tel að tíminn fyrir framþróun í jafnréttismálum sé akkúrat núna. UAK er mikilvægur hlekkur í að ýta undir sjálfstraust ungra íslenskra kvenna til að láta til sín taka í atvinnulífinu og samfélaginu í heild. Það er einmitt það sem UAK hefur gert fyrir mig, en eftir hvern viðburð fyllist ég af innblæstri sem ég fæ hvergi annarstaðar. Það væri heiður að fá að taka þátt í næstu stjórn UAK og halda áfram að byggja á þeim frábæra grunni sem félagið stendur á.