
Nafn: Anna Berglind Jónsdóttir
Aldur: 26 ára
Starf: Tölvunarfræðingur hjá Spectralis
Menntun: BSc í Heilbrigðisverkfræði og Tölvunarfræði frá HR
Anna Berglind heiti ég, 26 ára Egilsstaðabúi sem býr í Kópavogi.
Ég er með BSc gráðu í Heilbrigðisverkfræði og Tölvunarfræði úr Háskólanum í Reykjavík. Þar sat ég sem varaformaður í stjórn Pragma, félagi verkfræðinema, og sinnti öðrum misgáfulegum félagsstörfum af fullum metnaði. Í dag starfa ég sem hugbúnaðarsérfræðingur hjá Spectralis, sem er hugbúnaðarfyrirtæki undir Verkís.
UAK hefur komið mér virkilega á óvart, algjörlega frábær og nauðsynlegur félagsskapur sem mig langar að verða stærri partur af. Eftir hvern einasta fund labba ég út eins og ég geti sigrað heiminn. Geggjuð tilfinning sem ég vil hjálpa fleirum að upplifa. Þið í UAK hafið opnað augu mín fyrir mörgu og kennt mér að maður eigi að sækjast eftir öllu sem mann dreymir um og vera óhræddur við það. Því sæki ég hér um og ég vona að ég geti veitt öðrum jafn mikinn innblástur og þið hafið veitt mér.

Nafn: Ásbjörg Einarsdóttir
Aldur: 26 ára
Starf: Áhættustýring Arion banka
Menntun: M.Sc. í Iðnaðarverkfræði frá Stanford University og B.Sc. í Iðnaðarverkfræði frá HÍ
Ásbjörg heiti ég og er 26 ára Reykjavíkurmær. Nú fyrr í vor lauk ég meistaranámi mínu í iðnaðarverkfræði við Stanford háskóla í Californiu og er því nýkomin heim og byrjuð að taka þátt í atvinnulífinu hér á Íslandi, í áhættustýringu Arion banka nánar til tekið. Ég hef fylgst með starfi Ungra athafnakvenna frá Californiu og hef brennandi áhuga á að taka þátt í því af miklum krafti. Eftir að hafa dvalið í Bandaríkjunum undanfarin tvö ár þá er ég full af eldmóði og hugmyndum til að styrkja okkur Íslendinga enn frekar í baráttunni til jafnréttis. Á meðan á náminu stóð markaði ég mér stöðu sem kraftmikill jafnréttissinni, enda er það ekki átakalaust að berjast gegn úreltum staðalímyndum í námi þar sem stór meirihluti er karlkyns, og viðhorfin eru jafn þröngsýn og í Bandaríkjunum. Ég vil efla þann ferska blæ sem starf Ungra athafnakvenna hefur sett á atvinnulífið hérlendis og vona að þið treystið mér til þess.

Nafn: Elísabet Brynjarsdóttir
Aldur: 24 ára
Starf/nám: Hjúkrunarfræðingur í heimahjúkrun og að útskrifast úr hjúkrunarfræði við HÍ í vor
Ég hef fylgst með starfi Ungra athafnakvenna frá upphafi og hrifist af þessari hugmynd. Ég hef mikinn áhuga á jafnréttindum allra og hef því ákveðið að bjóða mig fram í stjórn UAK. Sjálf er ég að útskrifast sem hjúkrunarfræðingur en hjúkrunarfræðingar eru ein stærsta kvennastétt Íslands sem hefur þurft að standa í ströngu fyrir réttindum sínum. Ég brenn fyrir að bæta stöðu hjúkrunarfræðinga á atvinnumarkaðinum, vekja athygli á stéttinni og þykir mér málefni hjúkrunarfræðinga sérstaklega áhugaverð út frá feminísku sjónarhorni. Mér hefur verið lýst sem „konu sem er óhrædd við að taka pláss” og ég er bara frekar stolt af því. Ég hef komið að ýmsum félagsstörfum í háskólanum, en ég stofnaði geðfræðslufélagið Hugrúnu ásamt öðrum frábærum einstaklingum þar sem ég sit nú sem formaður og hef tekið virkan þátt í stúdentapólitíkinni. Skipulagt félagsstarf og tengslamyndun er eitthvað sem skiptir máli í atvinnulífinu og tel ég að félagið Ungar athafnakonur sé kjörinn vettvangur fyrir slíka starfsemi sem ég vonast til að fá að taka þátt í.

Nafn: Gyða Kristjánsdóttir
Aldur: 27 ára
Starf/nám: Að ljúka meistaranámi í Stjórnun og stefnumótun við HÍ og aðstoðarkennari í Sáttamiðlun hjá Viðskiptafræðideild HÍ
Menntun: BA í Tómstunda- og félagsmálafræði frá HÍ
Ég heiti Gyða Kristjánsdóttir og er að leggja lokahönd á meistaranám mitt við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands í Stjórnun og stefnumótun. Áður en ég leiddist út í viðskiptafræðina var ég aðstoðarforstöðumaður félagsmiðstöðvar hjá Reykjavíkurborg og er ég með grunnmenntun í Tómstunda- og félagsmálafræði frá HÍ. Í vetur samhliða námi og fæðingarorlofi var ég aðstoðarkennari í Sáttamiðlun hjá Viðskiptafræðideild HÍ.
Mig langar til þess að bjóða mig fram í stjórnina því það væri mér sannur heiður að fá að taka þátt í að byggja upp svona áhrifamikið og frambærilegt félag. Að mínu mati er félagið með byltingarkenndan tilgang fyrir atvinnulífið og jafnrétti kynjanna með því að skapa margskonar tækifæri og getur stækkað tengslanet meðlima til muna. Ég veit að ég sjálf bý yfir eiginleikum og tengslum sem myndu nýtast vel fyrir félagið og þær ungu konur sem eru meðlimir. Ég er mjög metnaðarfull, ábyrg, og geri aldrei neitt með hálfum hug. Ég er að eðlisfari mjög jákvæð og drífandi og læt verkin tala og er það minn tilgangur með þessu framboði mínu að ég fái að nýta mína krafta í að leggja mitt af mörkum til þess að styrkja ungar konur áfram í að ná langt í íslensku atvinnulífi

Nafn: Halla Margrét Bjarkadóttir
Aldur: 22 ára
Starf/nám: Fjármáladeild Ölgerðarinnar og mun útskrifast úr viðskiptafræði frá HR n.k. júní
Nú hef ég verið meðlimur í UAK í nokkur ár og hefur það verið mikilvægur partur af mínu lífi. Félagið hefur veitt mér og mörgum öðrum innblástur til að sækjast eftir því sem við viljum í lífinu, óháð mögulegum hindrunum. Ég tek þátt í félagsstarfinu með það hugarfar að með hverjum viðburði sem ég sæki er ég markvisst að vinna að mínum starfstengdu markmiðum. Þó viðburðirnir séu oft ólíkir þá eiga þeir það sameiginlegt að vera hagnýtir fyrir konur sem vilja skara fram úr í sínu starfi. Ég hef mikinn áhuga á að starfa í stjórn UAK og láta gott af mér leiða. Ég sýni frumkvæði í starfi, hef reynslu í viðburðastjórnun og það mikilvægasta: hef brennandi áhuga á starfsemi félagsins.

Nafn: Karen Kristine Pye
Aldur: 29 ára
Starf: Þjónustufulltrúi einstaklinga í Vesturbæjarútibúi Landsbankans.
Menntun: BA í stjórnmálafræði frá HÍ
Kæru félagskonur í UAK. Ég hyggst gefa kost á mér í stjórn Ungra athafnakvenna á aðalfundi þann 1 júní nk. Ég hef víða komið að þegar kemur að félagsstörfum. Sat í stjórn nemendafélags Menntaskólans á Egilsstöðum, sat á lista Vöku í framboði til stúdentaráðs og síðar í stjórn Vöku ásamt því að vera útgáfustjóri Vöku eitt ár og gjaldkeri fyrir Seyðfirðingafélagið í Reykjavík svo eitthvað sé nefnt. Það má segja að ég hafi mikinn áhuga á félagsstörfum og öllu sem því fylgir.
Ég er mikil félagsvera og tók því fagnandi þegar félagsskapurinn Ungar athafnarkonur var stofnaður. Ég hef fundið það í vetur hvað viðburðir á vegum UAK gefa mikið og efla tengslanetið. Ég tel að ég geti nýtt þá reynslu sem ég hef víðs vegar frá og látið gott af mér leiða í að halda áfram að efla tengslanet ungra athafnakvenna og stuðla að frekari uppbyggingu félagsins.

Nafn: Kristjana Björk Barðdal
Aldur: 21 árs
Starf/nám: Iðnaðarverkfræði í HÍ og aukakennari á veturna en sölukona á sumrin.
Ég vil taka þátt í að valdefla fleiri ungar athafnakonur og hjálpa til við að stækka hópinn okkar enn meira. Ég er ekki að ýkja þegar ég segi að þessi samtök hafi veitt mér svo mikla andargift. Ég bíð ávallt spennt eftir næsta viðburði eins og barn á jólunum vegna þess að eftir viðburði líður manni eins og heimurinn sé í höndum manns, eins og maður sé óstöðvandi.
Ég hef talsverða reynslu bæði af stjórnarstarfi og formennsku alls kyns félaga. Næstu ár ætla ég að einbeita mér að fáum hlutum meðfram náminu og tel ég þetta starf vera fullkomið sem áhugamál sem ég get misst mig í. Ég hef mikinn áhuga á markaðsfræði og tel það ásamt skipulagshæfileikunum mínum, drifkrafti og jákvæðni eiga heima í stjórn Ungra athafnakvenna.

Nafn: Patricia ‘Patsy’ Anna Þormar
Aldur: 30 ára
Starf: Verkefnastjóri á Skrifstofu Alþjóðasamskipta Háskóla Íslands
Menntun: Meistaragráða í menningarstjórnun frá Bifröst og BA í Lögfræði frá HR
Ég útskrifaðist með hæstu einkunn úr lagadeild HR árið 2012 en tók síðan U-beygju og lauk í kjölfarið í meistaranám í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst. Í dag starfa ég sem verkefnastjóri á Skrifstofu alþjóðasamskipta HÍ en hef einnig sinnt ýmsum fjölbreyttum störfum svo sem blaðaskrifum og matargagnrýni fyrir Reykjavík Grapevine, utanumhald off-venue dagskrár hjá Iceland Airwaves og kennt prófbuðir fyrir laganema í HR.
Allt frá æsku hef ég haft brennandi áhuga á valdeflingu kvenna og jafnréttismál eru mér afar hugleikin. Hjá Skrifstofu alþjóðasamskipta hef ég haft ýmis tækifæri til að láta að mér kveða og ég er ötull talsmaður alþjóðavæðingar innan HÍ, enda er víðsýni og aukin þekking á öðrum menningarheimum þjóðfélaginu öllu til framdráttar. Þar er jafnrétti kynjanna stærsta og mikilvægasta verkefni alþjóðasamfélagsins, eins og haft eftir Vigdísi Finnbogadóttur. Ég tel að UAK geti orðið brautryðjandi á því sviði og markmið mitt í stjórn væri að koma því til leiðar.

Nafn: Sigyn Jónsdóttir
Aldur: 28 ára
Starf: Sérfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, Stjórnarmeðlimur Mure ehf. og Mentor hjá Startup Reykjavík
Menntun: M.Sc. Management Science & Engineering frá Columbia University í New York, B.Sc. Hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands
Það er spennandi að vera ung kona á Íslandi og tækifærin eru óteljandi en við þurfum allar að standa saman. Þegar ég flutti heim frá New York síðasta haust eftir að hafa lokið meistaranámi í Columbia University hóf ég störf hjá Seðlabankanum, settist í stjórn hjá ungu nýsköpunarfyrirtæki og skráði mig auðvitað strax í UAK. Félagið er gífurlega mikilvægt íslensku samfélagi og það hefur verið frábært að taka þátt í viðburðum starfsársins, ekki síst til að kynnast öðrum konum sem vilja láta til sín taka í atvinnulífinu.
Ég vil bjóða mig fram í stjórn UAK því ég vil taka þátt í að móta starfsemi félagsins og nýta til þess mína reynslu og tengslanet. Minn bakgrunnur er í upplýsingatækni, nýsköpun, blaðamennsku, verkefnastjórnun og rekstrarverkfræði. Ég tel mig hafa ótal margt fram að færa og langar til að fá tækifæri til að starfa fyrir UAK næstu tvö árin.