Framtíð ungra kvenna

In Pistlar by Elísabet Erlendsdóttir

Gauti Skúlason skrifar: 

Mánudagskvöldið þann 16. nóvember árið 2015 gerði hópur stúlkna sér lítið fyrir og rúlluðu upp Skrekk, sem er hæfileikakeppni fyrir grunnskólanema á höfuðborgarsvæðinu. Stúlkurnar, sem komu úr Hagaskóla, fluttu fem­in­ísk­an ljóða- og dans­gjörn­ing er ber heitið Elsku stelpur. Ég fæ alltaf gæsahúð þegar ég horfi á þetta magnaða verk, sem er eitt það eftirminnilegasta sem ég hef séð í sögu íslenskrar kvenréttindabaráttu. Í hvert skipti sem maður horfir á verkið þá vekur það mann til umhugsunar um stöðu kvenna í íslensku samfélagi.

Nú eru tæplega tvö ár síðan verkið var frumflutt og stúlkurnar í verkinu eru e.t.v. einhverjar komnar úr grunnskóla í menntaskóla. Það fær mann til þess að hugsa um hvaða framtíð bíður þeirra sem ungra kvenna? Til þess að svara þessari spurningu þá þurfum við e.t.v. að skoða stöðu kvenna nú á tímum.

Staða kvenna

Hér landi virðast vera kjöraðstæður til þess að skapa samfélag þar sem kynin standa jöfnum fæti, t.d. mældist jafnrétti kynjanna hér á landi mest í heiminum í fyrra – áttunda  árið í röð. Það kom fram í hinni svokölluðu „kynjabils“ (e. gender gap)  skýrslu á vegum Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum). Þá má sjá eftirfarandi staðreyndir í bæklingi sem Hagstofa Íslands gaf út í samstarfi við Velferðaráðuneytið og Jafnréttisstofu fyrir árið í fyrra: Atvinnuþátttaka kvenna aldrei verið meiri en í fyrra eða 80%. Tæplega helmingur kvenna á aldrinum 25 til 64 ára er með háskólamenntun. 48% alþingismanna, eftir síðustu þingkosningar, eru konur og 44% sveitastjórnamanna, eftir síðustu sveitastjórnakosningar, eru konur.

Ef tekið er tillit til þessara staðreynda þá ætti framtíðin að vera björt fyrir ungar íslenskar konur. Konur eru í áhrifastöðum, eru vel menntaðar og jafnrétti mælist mest hér á landi áttunda árið í röð.  Þetta getur ekki klikkað, eða hvað?

Grámyglaður veruleikinn

Þrátt fyrir þær staðreyndir sem hér  hafa verið nefndar þá endurspeglar veruleikinn eitthvað allt annað. Við skulum skoða nokkra athyglisverða en jafnframt sorglega punkta.

Síðastliðin fjögur ár hefur Kjarninn framkvæmt úttekt á stöðu kvenna meðal æðstu stjórnenda í fyrirtækjum innan íslenska fjármálageirans. Í þeim fyrirtækjum eru æðstu stjórnendastöður 88 talsins. Úttekt Kjarnans fyrir þetta ár sýnir að af þessum 88 stjórnunarstöðum þá gegna karlar 80 af þeim en konur átta. Karlar eru því 91% þeirra sem stýra fyrirtækjum í íslenska fjármálageiranum og konur aðeins 9%.

Í tölum frá Hagstofunni fyrir síðasta ár sést að karlar voru 74,1% stjórnarmanna í íslenskum fyrirtækjum en konur 25.1%. Þegar kom að stjórnarformönnum í íslenskum fyrirtækjum voru 76,1% þeirra karlar en 23,9% konur. Þá voru 77,9% framkvæmdastjóra í íslenskum fyrirtækjum karlar en 22,9% konur.

Hér fyrir ofan var sagt frá því að konur væru tæplega helmingur þingmanna en þegar horft er til þeirra þriggja flokka sem mynda ríkisstjórn þá gegna karlar formennsku í þeim öllum. Þá eru karlar einnig í meirihluta innan ríkisstjórnarinnar og þ.a.l. eru fleiri ráðherrar karlar en konur.

Ef til vill mætti nefna fleiri hluti eins og t.d. kynbundinn launamun og fjölmiðlaumfjöllun, þar sem hallar verulega á konur. Án þess að fara nánar út í þær umræður er hægt að segja að það sé morgunljóst að samfélagi okkar er stjórnað af körlum, hvort sem er á sviði stjórnmála eða fjármála. Eitthvað stendur í vegi fyrir því að konur öðlist sömu völd og karlar en hvað?

It’s a Man’s Man’s Man’s World

Karllæg menning og staðalímyndir eru meðal hindrana sem konur upplifa innan íslenskra fyrirtækja en þetta eru m.a. niðurstöður greinar sem birtist í blaðinu Tímarit um viðskipti og efnahagsmál eftir Unni Dóru Einarsdóttir, dr. Erlu Kristjánsdóttur og Þóru H. Christiansen.  Samkvæmt greininni er það algengt að íslenskir stjórnendur hafi það viðhorf að kynjajafnrétti muni nást að sjálfu sér með tímanum, án þess að eitthvað þurfi að grípa inn í.

Það virðist því vera sem svo að útslitnar staðalímyndir og letilegt aðgerðaleysi séu, að stórum hluta til, ástæður þess að konur komist ekki í sömu valdastöður og karlar. Kynjajafnrétti virðist því vera í orði en ekki á borði. Hvað er til ráða?

Hugarfarsbreyting

Nokkuð ljóst er að eiga þarf sér stað hugarfarsbreyting í íslensku samfélagi, taka þarf mölétnar staðalímyndir og henda þeim útbyrðis. Stjórnendur íslenskra fyrirtækja þurfa að gera sér grein fyrir að jafnrétti kynjanna er bara ekki eitthvað sem kemur að sjálfu sér – eins og vetur, vor, sumar og haust. Reyndar held ég að það sé óhætt að segja að réttindi fólks komi því miður sjaldnast (ef þá nokkurntímann) að sjálfu sér, fyrir þeim þarf að berjast – þess vegna heitir þetta e.t.v. mannréttindabarátta.

Ábyrgðin hvílir þó á herðum okkar allra, hvort sem það er hvernig við stjórnum fyrirtækjum eða ölum upp börnin okkar. Þó er ábyrgð okkar auðvitað mismikil, við erum auðvitað í misjafnri stöðu til þess að geta hafa áhrif. Fólk í ábyrgðarstöðum þarf að þora að taka ábyrgð, horfa í spegilinn og spyrja sjálft sig hvernig samfélag það vill taka þátt í að skapa fyrir ungt fólk og komandi kynslóðir – réttlátt eða óréttlátt?

Að lokum

Mér finnst sérstaklega mikilvægt að nefna hér þátt karla og ungra karla í jafnréttisbaráttunni, án þess að ætla að láta þessi skrif snúast um karla. Karlar, á öllum aldri, bera mikla ábyrgð þegar kemur að jafnréttisbaráttunni. Ábyrgðin felst ekki í því að vera geðveikt góður gæi og ríða inn á vígvöll jafnréttisbaráttunnar í nýpússuðum herklæðum, á hvítum hest og bjarga konunum frá óréttlæti heimsins – ó nei. Konur eru fullfærar um að bjarga sér sjálfar.

Ábyrgð karla felst frekar í því að viðurkenna það að kynin standa ekki jöfnum fæti, vilja laga það og gera eitthvað til að laga það. Ein leiðin er t.d. að horfa í hvívetna eftir kynjamisrétti allsstaðar, hvort sem það er í vinnunni, skólanum, heima fyrir o.s.frv. Ég get lofað ykkur því að ef þið gerið það þá byrjið þið að sjá hversu ólíkur heimur kvenna og karla er – sérstaklega á vinnumarkaðinum.

Konur og sérstaklega ungar konur búa við allt öðruvísi framkomu í sinn garð á vinnumarkaði heldur en karlar eða ungir karlar. Gott dæmi um þetta er að á meðan ungir karlar eru ákveðnir, þá eru ungar konur frekar. Annað dæmi er að ungir karlar eiga margt ólært en ungar konur eru vitlausar og svona mætti lengi telja. Sem ungur karlmaður hef ég upplifað það forskot sem ég hef á jafnaldra mína sem eru konur, einfaldlega út af því að ég er karl. Þó er ekki nóg að fylgjast með og sjá kynjamisrétti, heldur þarf að bregðast við þegar maður verður vitni að því og fordæma það.

Kynjamisrétti er viðbjóður, við skulum öll taka þátt í að uppræta það – í hvaða mynd sem það birtist.