Frjáls verslun: 100 áhrifamestu konurnar 2016

In Fréttir by Elísabet Erlendsdóttir

Þessi frétt birtist upphaflega í blaði Frjálsrar verslunar: 100 áhrifamestu konurnar 2016.

Ungar athafnakonur héldu aðalfund á dögunum þar sem samtökin kusu sér nýja stjórn. Elísabet Erlendsdóttir er ein stjórnarkvenna en formaður er Margrét Berg Sverrisdóttir. Auk þeirra er stjórnin skipuð fjórum konum.

Samtökin voru stofnuð í september 2014 og störfuðu fyrst undir regnhlíf Félags kvenna í atvinnulífinu en hafa síðastliðið ár verið á eigin vegum. Samtökin telja í dag um rúmlega 150 meðlimi. „Ungar konur í atvinnulífinu standa frammi fyrir áskorunum sem þær vita oft ekki alveg hvernig þær eiga að bregðast við.  Þessvegna voru samtökin búin til, til að skapa vettvang til að koma saman, fræðast um  málefni sem tengjast nútímasamfélagi og fá ráðgjöf og leiðsögn,” segir Elísabet.

„Þetta er hópur ungra, metnaðarfullra kvenna sem vill eyða þeim vandamálum sem konur standa frammi fyrir á vinnumarkaðinum. Við sættum okkur ekki við að fá lægri laun eða að einungis einu fyrirtæki af fimmtán sem skráð er á markaði er stjórnað af konu, að hin hefðbundnu kvennastörf eins og hjúkrunarfræði eða leikskólakennsla séu metin til lægri launa og svo mætti lengi telja.”

Hún tekur einfalt dæmi úr starfi samtakanna. „Það er stundum reynt að skýra kynbundinn launamun með því að konur þori ekki að biðja um launahækkun. Við höfum lagt áherslu á að þjálfa ungar konur í sjálfstrausti og sérstaklega í því að sækjst eftir launahækkunum.  Við erum mjög spennar að sjá hvaða áhrif það hefur.”

Elísabet segir það besta við samtökin vera samstöðuna. „Við hvetjum hvor aðra til að takast á við vandamálin. Meðlimir UAK eru úr öllum áttum og ekkert aldurstakmark. „Ef konur finna sig í starfinu hjá okkur eru þær velkomnar. Það er stefna okkar að auka fjölbreytnina hvað varðar bakgrunn og starfsvettvang og menntun.  Okkur vantar konur úr heilbrigðisvísindum og tæknigeiranum inn í samtökin. Það skiptur ekki máli í hvaða vinnu eða námi þú ert, ef þú sérð fram á að finna þig í starfinu eru allar velkomnar.”

Á liðnu starfsári voru tveir stórir viðburðir í samstarfi við Íslandsbanka, Ljónin í veginum og Ljónin úr veginum sem fjölluðu um að takast á við hindranir og sem voru gríðarvel sóttir. „Svo höldum við minni kynningar eins og hvernig á að byggja upp ferilskrá, sækja um vinnu, kynnast fólki og halda uppi samræðum. Allir þessir viðburðir miða að því að auka sjálfstraust og skapa færni í samskiptum og myndun tengslanets.”

Elísabet er í verkfræðinámi við Háskólann í Reykjavík. „Ég finn að ég þarf að sækja mér fyrirmyndir því þær eru ekki fyrir augunum á mér.  Í fyrirtækjaheimsóknum og vísindaferðum leita ég að konu til að tala við og taka mér til fyrirmyndar. Það er mikilvægt að rétta af kynjahallann í öllum störfum.” Hún segir sögu af því þegar hún og vinkonur hennar fóru á tæknisýningu í Laugardalshöll í vetur og gengu á milli verkfræðistofa sem voru að kynna starfsemi sína og spurðu út í kynjahlutfallið hjá þeim. Hún segir þá hafa orðið hissa á spurningunni. „Og þegar þeir reiknuðu út hvað hlutfallið hjá þeim var ójafnt urðu þeir ennþá meira hissa. Sem er ekki skrýtið því þeir hafa ekki haft ástæðu til að gera neitt í þessum málum. En það er alltaf að koma betur og betur í ljós að jöfn kynjahlutföll í fyrirtækjum skila bestum árangri og eru hagsmunamál heildarinnar, ekki bara kvenna.”

Hún telur að það sé mikilvægt að fá karla með í baráttuna. „Þeir karlar sem við leitum til eru yfirleitt mjög spenntir og vilja endilega heyra okkar sögur og reynslu. Vitunarvakningin sem er í gangi um jafnréttismál núna einskorðast ekki við stelpur, samnemendur mínir og vinir eru áhugasamir og vilja spjalla og ræða málin. Ég neita að trúa því að það sé meðvitað að konur séu ekki að fá sömu tækifæri til stjórnunarstarfa og karlar en einhverjar ástæður liggja þar að baki. Við stefnum að því að taka þessar mögulegu ástæður og brjóta þær niður.”

Spurð út í fyrirmyndir segir Elísabet að Ungar athafnakonur leiti ekki langt yfir skammt. “Mömmur okkar því við værum ekki hér án þeirra. En svo auðvitað konur sem hafa langt í sínum geira, hvort sem þeir eru stórir eða smáir. Mér detta í hug Sesselja Vilhjálmsdóttir Ragna Árnadóttir, íslensku kvennalandsliðin í knattspyrnu og fimleikum og svo auðvitað Vigdís Finnbogadóttir.”

Á stefnuskrá UAK er til dæmis að auka umræðu um menntun kvenna og starfstækifæri og vitundarvakning um þau áhrif sem kynbundið ofbeldi og drusluskömmun hafa á tækifæri kvenna á öllum sviðum lífsins.  „Við höfum lagt drög að dagskrá fyrir veturinn og ætlum að hafa viðburði einu sinni í mánuði. Sá fyrsti verður 6. september og þangað eru allir velkomnir sem hafa áhuga á starfinu okkar.” Allar nánari upplýsingar um þennan spennandi vettvang má finna á www.uak.is.