Fullt hús af ungum athafnakonum

In Fréttir by Dagný Engilbertsdóttir

Fyrsti viðburður nýs starfsárs var haldinn á Nauthól í gærkvöldi. Fundurinn gekk vonum framar en um 130 ungar konur og nokkrir áhugasamir karlar komu saman til að fræðast um starfsemi félagsins og hlusta á þær Kristínu Friðgeirsdóttur og Vigdísi Finnbogadóttur.

Formaður félagsins, Margrét Berg, opnaði fundinn með því að kynna félagið, félagsstarfið og nýja stjórn sem var kosin sl. vor. Kynnti hún einnig dagskrá vetrarins en þar sem stefnan í vetur er að hrista hópinn betur saman þá verður næsti viðburður vetrarins hópefli og tengslamyndun fyrir félagskonur. Aðrir viðburðir á dagskrá í haust eru heimsókn í Icelandic Startups, námskeið í framkomu og ræðumennsku og panelumræður með konum í karllægum geirum. Til að taka þátt í viðburðum vetrarins er nauðsynlegt að skrá sig í félagið hér á heimasíðunni en árgjaldið er aðeins 6.000 kr.

Kristín Friðgeirsdóttir steig næst á svið en hún er Ph.D. í rekstrarverkfræði frá Stanford og starfar sem dósent við London Business School ásamt því að vera stjórnarformaður Haga og sitja í stjórn HR, TM og Distica. Hún sagði okkur frá því hvernig hún komst þangað sem hún er í dag og létti eflaust áhyggjur margra þeirra sem hafa ekki alltaf vitað nákvæmlega hvaða leið þeir vilja fara í lífinu. Hún fór einnig sérstaklega í gegnum fjögur atriði sem hún telur að stuðli að velgengni á starfsferlinum þ.e. að einbeita sér að því sem þú ert best í, að læra að taka gagnrýni og nýta hana á uppbyggilegan hátt, að finna sér mentor og að trúa á heppni.

Frú Vigdís Finnbogadóttir steig næst á svið. Sagðist hún hafa verið afar forvitin um starfsemi félagsins og tók undir öll þau ráð sem Kristín hafði gefið hópnum. Salurinn var til skiptis fullur aðdáunar og skellihlæjandi af frásögnum Vigdísar úr forsetaframboðinu og embættinu sjálfu.

Við teljum fyrsta viðburð vetrarins hafa verið afar vel heppnaðan og trúum því að allir viðstaddir hafi gengið út fullir eldmóðs og áhuga. Það var einstakt tækifæri að geta spurt þær Kristínu og Vigdísi spjörunum úr og læra af þeirra reynslu. Við þökkum því aftur öllum þeim sem mættu kærlega fyrir komuna og vonumst til að sjá enn fleiri ný andlit á næstu viðburðum.