Fullt Ráðhús af ungu athafnafólki

In Fréttir by Helena Rós Sturludóttir

Ungar athafnakonur hófu nýtt starfsár með kynningarfundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í gærkvöldi. Á fundinn mættu rúmlega 150 áhugasamir gestir og hlýddu á þær Liv Bergþórsdóttur og Claudie Wilson.

Sigyn Jónsdóttir, formaður UAK, opnaði fundinn og kynnti dagskrá vetrarins ásamt því að segja frá félaginu og kynna nýkjörna stjórn. Það verður af nógu að taka fyrir félagskonur í vetur en meðal viðburða sem verða haldnir fyrir áramót eru tengslakvöld, panelumræður um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, fyrirtækjaheimsóknir til Viðskiptaráðs og Wow air, bíókvöld þar sem sýnd verður heimildarmyndin Hvað er svona merkilegt við það?, fyrirlestrakvöld um starfsþróun og námskeið í streitustjórnun.

Næst á svið steig Liv Bergþórsdóttir forstjóri Nova, stjórnarformaður Wow air og stjórnarmeðlimur CCP. Liv fór létt yfir það hvernig hlutirnir hefðu verið þegar hún var í viðskiptafræði í háskólanum. Á þeim tíma sem hún útskrifaðist voru konur eingöngu í kringum 20% sem er allt önnur tölfræði en í dag. Hún trúir því að við förum að fara sjá hraðar og góðar breytingar í stjórnum og stjórnunarstöðum fyrirtækja á næstunni. Liv nefndi að stjórna fyrirtæki og að vera í fyrirtækjarekstri væri eins og að vera hópíþrótt. Það þarf að setja saman rétta liðið, ef hún hefur ekki fundið rétta liðið þá hefur hún fært sig um set og fundið sér nýjan vettvang. Liv leitar sjálf mikið í startup fyrirtæki, henni finnst sköpunin skemmtileg og hefur gaman af því að sjá hlutina verða til eða gera gamla hluti upp. Hún þrífst í umhverfi þar sem hratt er hlaupið og alltaf eitthvað nýtt að gerast. Þá ítrekaði hún að ef maður vill verða góður í einhverju þá þarf maður að æfa sig og læra gera hlutina.

Þá var komið að Claudie Wilson, héraðsdómslögmanni. Claudie kemur frá Jamaíku en hún flutti til landsins árið 2001 og hefur starfað hjá Rétti lögmannsstofu síðan árið 2013 og fengist þar við mannréttindamál, þá aðallega innflytjenda- og flóttamannamál. Claudie lauk prófi til að öðlast héraðsdómslögmannsréttindi haustið 2016 og er fyrsti einstaklingurinn utan Evrópu til að ljúka slíku prófi hér á landi. Heitið á erindi Claudie var Að vera hetja sögu sinnar í stað fórnalamb. Hún byrjaði erindi sitt á stuttri sögu en hún var stödd í heitum potti ásamt sonum sínum þegar 9 ára sonur hennar bað hana um að segja sér sögu um sig sem barn á Jamaíku. Hún segir glöð frá sögum um barnæsku sína þrátt fyrir að frásagnir hennar væru ekki um prinsessu sem bjó í kastala heldur stelpu sem bjó hjá ömmu sinni og afa og þurfti að labba marga kílómetra í skóla og eins til að sækja drykkjarvatn í fötu. Claudie finnst gaman að rifja upp æskuminningar sínar en það gefur henni tækifæri til að velta því fyrir sér hvar hún er stödd í dag, hvar hún var stödd þá og hvert hún stefnir. Claudie var einungis 18 ára gömul þegar hún fluttist til Íslands, hún ætlaði sér að verða eiginkona og lögfræðingur á Íslandi. Draumar hennar rættust en leiðin að þeim reyndist henni erfið og hugsaði hún m.a. oft um að hætta í náminu. Claudie hefur sett sér markmið hér, hún vill hafa jákvæð áhrif á þeim stað sem hún býr á.

Við tóku svo spurningar úr sal. Það var einstakt tækifæri að geta spurt þær Liv og Claudie spjörunum úr og læra af þeirra reynslu. Stjórn UAK þakkar þeim báðum kærlega fyrir komuna og erum við vissar um að viðstaddir hafi gengið burt frá kvöldinu fullir eldmóðs.

Til þess að taka þátt í viðburðum vetrarins þarf að skrá sig hér en félagskonur frá því í fyrra þurfa að fara aftur í gegnum nýskráningu sökum breytinga á vefsíðu. Eftir sem áður er árgjald Ungra athafnakvenna 6.000 kr.

Eftir áramót verður dagskráin með svipuðu sniði þar sem félagskonur munu hittast á viðburðum 1-2 sinnum í mánuði. Aðalviðburður vetrarins verður svo þann 10. mars 2018 þegar UAK dagurinn verður haldinn hátíðlegur í Hörpu. UAK dagurinn verður ráðstefna tileinkuð ungum konum í íslensku atvinnulífi með það að markmiði að gera leiðtogum og áhrifavöldum í íslensku samfélagi grein fyrir kröftum vel menntaðra kvenna og opna augu þeirra fyrir þeim tækifærum sem felast í að efla ungar konur til dáða.

Við þökkum aftur öllum þeim sem mættu kærlega fyrir komuna í gærkvöldi og vonumst til að sjá enn fleiri ný andlit á næstu viðburðum.