Nú fyrr á önninni, þann 12. febrúar, fóru Ungar athafnakonur í fyrirtækjaheimsókn til Sýnar. Þar tóku tvær flottar konur, þær Helen og Bára Mjöll, á móti okkur.

Fyrirtækið varð til í lok árs 2017 við sameiningu Vodafone og 365 miðla að fráskildum pappírsútgáfum. Við samrunann tvöfaldaðist starfsmannafjöldi Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, og fór úr 300 starfsmönnum í rúmlega 600. Eins og gefur að skilja hafði þessi stækkun ýmsar áskoranir í för með sér, m.a. að sameina menningu tveggja ólíkra fyrirtækja; annað þeirra var skráð á markað en hitt ekki, sem olli því t.d. að verklag var með mjög ólíkum hætti. Sýn virðist hafa tekist vel til við áskoranirnar og vinna nú út frá pýramída sem listar upp hlutverk fyrirtækisins, stefnu þess, sýn og gildi. Þau hvetja starfsfólk sitt til að vera skapandi og vinna í vinnuumhverfi sem þau kalla BESTA (BEtra STArf, betri andi) en fyrirmynd þess sækja þau í vinnuumhverfi Vodafone erlendis.

Meginþráðurinn í BESTA er að hafa hvetjandi, skapandi og opið umhverfi. Stjórnendur Sýnar eru vissir um að með nýrri kynslóð starfsmanna séu kröfurnar um hreyfanleika og sveigjanleika að aukast og hafa því sveigjanlega vinnuaðstöðu starfsmanna. „Það er ekkert valdaumhverfi í húsinu. Þú getur setið við hliðina á forstjóranum í dag, í sófa á morgun. Valdaveggirnir eru horfnir.“ sagði Helen okkur og benti í framhaldinu á að þetta væri stór þáttur í jafnréttisstefnu fyrirtækisins þar sem fyrirkomulagið auðveldar t.d. aðgengi að stjórnendum.

Það var mjög ánægjulegt að kynnast starfsháttum, starfsmönnum og vinnuumhverfi Sýnar. Það kom smá ferskur blær með þeirri hugsun að við þyrftum í raun ekki alltaf að vera föst við okkar eina sanna skrifborð heldur gæti hreyfanleiki og sveigjanleiki aukið starfsorku og -gleði.
Við þökkum Helen, Báru Mjöll og Sýn kærlega fyrir okkur!