Fyrsti viðburður 2017: The impostor syndrome

In Fréttir by Elísabet Erlendsdóttir

Ungar athafnakonur stóðu fyrir viðburði í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum þann 18. janúar sl. þar sem hugtakið the impostor syndrome var tekið fyrir. Þetta var fyrsti viðburður UAK á nýju ári og ákveðið var að hafa hann opinn öllum sem hefðu áhuga. Ríflega 140 manns, konur og karlar á öllum aldri, mættu til að hlýða á Berglindi Ósk Bergsdóttur, tölvunarfræðing, flytja erindi um the impostor syndrome. The impostor syndrome, eða svikaraheilkennið eins og það hefur verið þýtt á íslensku, felur í sér að manneskju líði eins og „svikara” í námi og/eða starfi og það sé einungis tímaspursmál hvenær aðrir komast að því að hún sé að þykjast og sé í raun ekki eins klár og allir halda. Þessi tilfinning er viðvarandi þrátt fyrir ytri merki um góðan árangur. Einstaklingar leiða gjarnan þessar vísbendingar frá sér og stíla á heppni og góða tímasetningu eða að öðrum utanaðkomandi þáttum sé árangrinum að þakka. 

Berglind Ósk hefur starfað hjá Kolibri síðastliðið hálfa árið og þar áður starfaði hún hjá Plain Vanilla þar sem hún bjó til og þróaði Android útgáfu QuizUp. Berglindi lýsti á einlægan hátt sinni reynslu af the impostor syndrome og hvernig hún vinnur gegn þeirri upplifun sem the impostor syndrome fylgir. Gestir fengu tækifæri til að spyrja Berglindi spjörunum úr og það mynduðust mjög líflegar umræður.

Þá var ákveðið að kynna dagskrá UAK næstu mánuði en hún var unnin í samstarfi við félagskonur og samanstendur m.a. af fyrirtækjaheimsóknum, panelviðræðum þar sem talað verður við konur og karla í karllægum geirum, námskeiði í samningatækni og kynningu á umsóknarferli og námi erlendis. Starfsárinu lýkur í maí með aðalfundi félagsins þar sem farið verður yfir árið í góðum félagsskap og kosið verður um tvo nýja meðlimi í stjórn Ungra athafnakvenna. Þær sem hafa áhuga á að taka þátt í starfi félagsins fram að lokum starfsársins stendur til boða að borga hálft ársgjald, 3000 kr. Hægt er að skrá sig í félagið undir nýskráning.

Stjórn UAK er mjög ánægð með góða mætingu og sérstaklega ánægð með frábæra aðstöðu á Hallveigarstöðum. Takk kærlega fyrir okkur og við hlökkum mikið til að starfa með ykkur á komandi mánuðum.