Laura Kornhauser er forstjóri og stofnandi nýsköpunarfyrirtækisins Stratyfy sem framleiðir hugbúnað fyrir stjórnendur fyrirtækja sem vilja nýta tölfræðigreiningu við ákvarðanatöku. Áður en hún stofnaði Stratyfy starfaði Laura í 12 ár sem framkvæmdastjóri hjá JPMorgan í New York þar sem hún hafði umsjón með verðbréfaviðskiptum stórfyrirtækja og viðskiptasamböndum þeirra.
Laura deildi með Ungum athafnakonum fjölbreyttri reynslu sinni og sagði frá ákvörðun sinni að segja upp starfinu hjá JPMorgan og hella sér út í frumkvöðlasamfélagið.
Fyrirlesturinn samanstóð af því sem hún hafði lært af ferli sínum í atvinnulífinu og sem nemandi í Columbia Business school.
Af starfsferli sínum hjá JPMorgan dró hún þann lærdóm að vera með góða leiðbeinendur og stuðningsaðila, að fara út fyrir þægindarammann, mynda tengsl og öðlast nýja færni. Hún sagði okkur frá því að hún hefði fókusað á það á hverju ári að reyna að læra nýja hluti og finna út úr því hvernig hún kæmist úr þægindarammanum. ,,Störf eru mikilvæg, en þau eru langt því frá að vera allt” sagðist Laura hafa lært á þeim tíma þegar fjárhagskrísan skall á og í kjölfarið var mörgum sagt upp hjá JPMorgan.
Eftir 12 ár hjá JPMorgan vissi Laura ekki enn hvað hún vildi gera en hún vildi ekki taka öðru starfi án þess að vera nákvæmlega viss um hvað það væri sem hún vildi. Svo hún sagði upp starfi sínu, ákvað að búa til einhverja valkosti fyrir sig, og taka MBA gráðu hjá Columbia. Þá fékk hún að heyra að hún væri klikkuð að hætta. Yfirmaður hennar sagði henni að fólk væri að útskrifast úr þessu námi og fengi síðan vinnu hjá JPMorgan. Hún svaraði þá með því að hún ætlaði ekki að koma aftur.
Á þessum tíma var hún 33 ára og flestir með henni í námi um 7 árum yngri. En um leið og hún kom þangað vissi hún að þarna ætti hún heima. Um þessa ákvörðun sína að fara aftur í skóla sagði Laura: ,,Ekki vera hrædd við að taka stökkið þegar þú ert tilbúin. Það er ein af bestu gjöfum lífsins að fá menntun. Það er eitt það besta sem þú getur gert…. og það víkkaði sjóndeildarhringinn minn að fara aftur í skóla.”
Á öðru ári í Columbia stofnaði hún Stratyfy með 3 öðrum verkfræðingum, allt karlmönnum. “Ég vissi alltaf að ég vildi vera frumkvöðull, en ég vissi ekki hvað það væri sem ég vildi gera. Ég vildi stofna rétta fyrirtækið og ég var tilbúin að taka stökkið með Stratify. Af því blandan var rétt. Rétt teymi, rétt fólk og rétt hugmynd.” sagði Laura um þessa ákvörðun sína.
Aðspurð sagði Laura að til að dafna í karkyns ríkjandi starfsumhverfi þyrfti maður að nýta það sem sína yfirburði. Að vera eina konan í salnum þýðir að maður stendur upp úr og það ætti maður að nýta sem svið til að gera hluti og vera hlustað á.
Laura vildi skilja salinn eftir með orðin ,,fail forward” eða gerðu mistök fram á við. En þetta eru orð sem hún hafði eitt sinn heyrt og hún dró af þessu að ,,maður ætti að þora að taka réttu áhætturnar og ef manni mistekst, hverjum er ekki sama, þú lærir af því og stendur þig betur næst.”