Gleðin við völd á tengslakvöldi

In Fréttir by Elísabet Erlendsdóttir

Tengslakvöld Ungra athafnakvenna fór fram föstudaginn 22. september sl. á kvennaheimilinu Hallveigarstöðum. Markmið kvöldsins var að þétta hópinn vel saman og fá félagskonur til að kynnast betur innbyrðis. Hátt í 100 félagskonur sáu sér fært að mæta og nóg var í boði af pizzum og ýmiss konar drykkjum. Eftir að formlegri dagskrá lauk héldu þónokkrar gleðinni áfram á Hverfisbarnum.

Á viðburðinn kom Margrét Erla Maack veislustjóri, magadansmær og DJ svo fátt eitt sé nefnt, og hélt uppi miklu stuði enda með eindæmum skemmtileg og fyndin skemmtikraftur. Hún tók stutta kennslu í twerk-i og sagði jafnframt frá sér og sinni reynslu í skemmtanabransanum og hvernig henni hefur tekist að markaðssetja sjálfa sig. Það var virkilega fræðandi að hlusta á Margréti Erlu deila sinni reynslu, hún gaf góð ráð og hún tók á okkur mikið „real talk”.

Að loknu erindi Margrétar tóku við umræðuborð. Stjórnin var búin að undirbúa 8 vel valin málefni fyrir hvert borð og svo mátti hver og ein segja sína upplifun eða skoðun. Hver hópur hafði um 20 mínútur við hvert borð og svo mátti færa sig á annað borð. Eins og við mátti búast voru umræðurnar áhugaverðar og líflegar.

Í heildina heppnaðist tengslakvöld UAK virkilega vel og má segja að markmiði kvöldsins hafi verið náð. Takk kærlega fyrir komuna Margrét Erla Maack og kæru félagskonur.