Haustönn 2018

In Fréttir by Auður Albertsdóttir

Haustönn Ungra athafnakvenna 2018 var full af fjölbreyttum og fræðandi viðburðum. Mæting var góð á flesta viðburði og var sérstaklega gaman að sjá hversu duglegar nýjar félagskonur voru að mæta.

Opnunarviðburður starfsársins fór fram á Nauthóli miðvikudagskvöldið 5. september. Gestir kvöldsins voru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og fjölmiðlakonurnar Ingileif Friðriksdóttir og Þóra Arnórsdóttir. Þá var stjórn félagsins og dagskrá starfsársins kynnt.

Um 170 manns mættu til að hlýða á dagskrá kvöldsins. Hægt er að lesa samantekt um kvöldið hér.

Annar viðburður starfsársins var tengslakvöldið sívinsæla en það fór fram á Hallveigarstöðum föstudagskvöldið 21. september. Þangað mættu um 70 félagskonur og skemmtum við okkur m.a. með pub quizzi og fleiri leikjum og gæddum okkur á pizzum og drykkjum. Þá kom uppistandarinn Saga Garðarsdóttir og opnaði kvöldið eins og henni einni er lagið. Þegar dagskrá kvöldsins var lokið fjölmenntu Ungar athafnakonur á Hverfisbarinn þar sem gleðin hélt áfram.

Hægt er að lesa nánar um viðburðinn hér.

Um fjörtíu konur mættu síðan á örfyrirlestrakvöld UAK um fjölskylduréttindi sem fór fram í Háskólanum í Reykjavík miðvikudagskvöldið 3. október. Kvöldið var einstaklega vel heppnað og sköpuðust áhugaverðar umræður eftir öll erindi kvöldsins. Gestir kvöldsins voru Dagný Aradóttir Pind, lögfræðingur, Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Marel, Björt Ólafsdóttir, útvarpskona og fyrrv. þingkona og ráðherra og Helen Breiðfjörð mannauðsstjóri Sýn.

Hægt er að lesa um það sem fram fór hér.

Þá mættu rúmlega 100 manns mættu á panel-umræður UAK þriðjudagskvöldið 30. október. Yfirskrift viðburðarins var  „Eru konur auðveldara skotmark?“ og var umfjöllunarefnið umræða um konur, bæði í fjölmiðlum og annars staðar. Var velt upp spurningum eins og hvort það sé erfiðara að fá konur í viðtal, af hverju konur virðast oft fá harðari og öðruvísi umfjöllun í fjölmiðlum en karlar og hvers vegna það er vegið öðruvísi og oft á persónulegri hátt að konum en körlum.

Viðmælendur kvöldsins voru Andrés Jónsson, framkvæmdarstjóri Góðra samskipta, Edda Sif Pálsdóttir, íþróttafréttakona og þáttastjórnandi hjá RÚV, Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands og Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Panel-stýra var Kolfinna Tómasdóttir, ráðstefnustjóri Ungra athafnakvenna en nánar er hægt að lesa um umræður kvöldsins hér.

15. nóvember var staðið fyrir viðburði undir yfirskriftinni Frumkvöðlakonur. Tilgangur kvöldsins var að veita félagskonum tækifæri til að fræðast um og heyra frá konum sem hafa stofnað fyrirtæki eða starfað í frumkvöðlaumhverfinu á einn eða annan hátt.

Gestir kvöldsins voru þær Jarþrúður Ásmundsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri Icelandic Startups, Kolbrún Bjargmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannís, Helga Valfells, frumkvöðull og stofnandi Crowberry Capital, Vala Halldórsdóttir, frumkvöðull og framkvæmdastjóri Framtíðarinnar og Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch, frumkvöðull og vörustjóri Florealis. Fengum við þær í panel-umræður sem stjórnað var af Snæfríði Jónsdóttur, viðskiptastjóra UAK.

Var farið um víðan völl í umræðunum, m.a hvernig maður láti hugmyndir verða að veruleika, hvert sé fyrsta skrefið að taka, hvar er hægt að fá aðstoð, hverjar eru mögulegar hindranir og mikilvægi tengslanets. Viðmælendur kvöldsins voru flestar sammála um mikilvægi þess að vera í góðu teymi, ekki starfa í einangrun heldur fá fleiri með sér í lið með fleiri sjónarhorn á hugmyndina. Einnig var talað um að konur ættu að vera óhræddar við að hafa samband við hina og þessa í bransanum og biðja um ráð eða aðstoð.

Þegar það kom að hindrunum nefndu viðmælendur m.a. sem dæmi þegar að teymið leysist upp, fjármagnið klárast eða í ljós kemur að hugmyndin sé óþörf. Einnig að frumkvöðlar þyrftu að hafa í huga að frumkvöðlastarf sé erfitt og maður þurfi endalaust að reyna að peppa sig áfram.

Tengslanet og mikilvægi þess kom einnig á góma. Töluðu gestir kvöldsins t.d. um að það væri virkilega mikilvægt að vera með gott tengslanet ekki aðeins upp á tengsl heldur líka til að fá hvatningu og hvetja aðra. Voru nokkrar sem mældu með því að senda skilaboð á ókunnugt fólk til að fá ábendingar og spyrjast fyrir. Með þessu gætu skapast verðmæt tengsl.

Þriðjudagskvöldið 27. nóvember hélt UAK námskeið í framkomu- og ræðumennsku. Fengin var engin önnur en Sigríður María Egilsdóttir til að kenna námskeiðið en hún hefur stundað ræðumennsku um árabil, í gegnum ræðukeppni enskufélagsins á Íslandi, MORFÍs, TedX, á erlendum ráðstefnum og nú nýlega á þingi. Þá hefur hún einnig kennt og þjálfað framsögn og ræðuskrif í nokkur ár, en hún var þjálfari MORFÍs-liðs Verzlunarskóla Íslands í 4 ár.

Síðasti viðburður annarinnar var fyrirtækjaheimsókn í Advania en hún fór fram 5. desember. Á móti hópnum tóku þær Sesselía Birgisdóttir, markaðsstjóri, Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, þáverandi framkvæmdastjóri Rekstrar og þjónustu og Íris Sigtryggsdóttir, fræðslustjóri. Það var virkilega skemmtilegt, fræðandi og hvetjandi að hlusta á og síðan spjalla við þessar öflugu konur.

Sesselía hóf kvöldið og talaði m.a. um mikilvægi þess að skapa og þekkja vel þitt persónulega vörumerki. Fyrir hvað stendur þú og hvað kemurðu með að borðinu? Eva Sóley sagði frá tilviljanakenndum ferli sem var ekki þaulplanaður en samt svo spennandi og skemmtilegur. Lagði hún áherslu á mikilvægi þess að vera opin fyrir tækifærum sem koma og kýla á þau.