Hefjum rekstur

In Almennt, Fréttir by Aðalheiður Júlírós

Þann 10. apríl sl. hélt UAK viðburðinn Hefjum rekstur.  Tilgangur fundarins var að útvega félagskonum þær upplýsingar sem þær þurfa til þess að geta tekið hugmyndir sínar áfram og stofnað fyrirtæki, fá hvatningu og innblástur og eiga gagnlegar umræður!

Fullt var á viðburðinn sem haldinn var í Húsi atvinnulífsins en Hugrún Elvarsdóttir, varaformaður UAK, var fundarstýra á viðburðinum. Hugrún hóf leika með því að gefa félagskonum innsýn inn í störf Samtaka atvinnulífsins og þeirra sex aðildarsamtaka sem eru með aðsetur í Húsi atvinnulífsins og byggja á ólíkum atvinnugreinum. Hugrún tók fram að yfir 2.000 fyrirtæki í fjölbreyttum greinum eiga aðild að Samtökum atvinnulífsins, allt frá sjálfstætt starfandi frumkvöðlum til stærstu fyrirtækja landsins og hjá aðildarfyrirtækjum SA starfa um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði.

Því næst var Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir, forstöðumaður á fyrirtækjasviði Arion banka,  með erindi um hvernig félagskonur stofna fyrirtæki. Hún fór yfir praktísk atriði sem gott er að hafa í huga áður en ráðist er í fyrstu skrefin við að stofna fyrirtæki, fjölbreytt rekstrarform sem standa til boða, hvar maður stofnar fyrirtæki, hvort maður þurfi starfsleyfi, hvernig viðkomandi getur sannreynt viðskiptahugmynd, gerð viðskipta- og rekstraráætlana, mikilvægi þess að greina viðskiptavininn, markhópinn, samkeppnina og markaðinn. Guðmunda kom einnig inn á það að fjárhagslegur grundvöllur er forsenda þess að viðskiptahugmynd komist á framkvæmdastig og hvernig útreikningar þurfa að vera til staðar.

Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir

Guðmunda veitti félagskonum UAK því mörg gagnleg verkfæri sem hægt er að nýta við stofnun fyrirtækis og var erindið virkilega upplýsandi og fræðandi!

Á eftir Guðmundu stigu þær Íris Baldursdóttir, CEO og meðstofnandi Snerpa Power og Eyrún Linnet, CTO og meðstofnandi Snerpa Power á stokk með erindið Að stökkva í djúpu laugina. Þær fóru yfir sína vegferð og stofnun á íslenska sprotafyrirtækinu Snerpa Power sem gerir stórnotendum rafmagns (s.s. álverum, gagnaverum og öðrum iðnaði sem notar mikið rafmagn) m.a. kleift að taka aukinn þátt á raforkumarkaði til að jafna sveiflur.

Íris Baldursdóttir og Eyrún Linnet

Þær komu inn á ferlið við að stofna fyrirtæki og hvernig þær fóru frá því að sinna hugmyndinni í frítíma sínum í að gera það að aðalstarfi sínu. Þær sögðust báðar alltaf hafa brunnið fyrir stöðugum umbótum og komu margoft af stað hinum ýmsu nýsköpunarverkefnum í þeim fyrirtækjum sem þær störfuðu í áður, án þess þó að átta sig almennilega á því að þau væru nýsköpunarverkefni.

Eyrún og Íris komu inn á mikilvægi þess að velja sér gott samferðafólk til að fara í rekstur með, aðila með ólíka þekkingu og reynslu en maður sjálfur. Þær töluðu einnig um að æfa sig að hafa mörg járn í eldinum, að halda stillingu og ró í gegnum krefjandi tíma og kunna að forgangsraða. Að vera sífellt að bæta í verkfærakistuna, nýta tengslanetið, setja sér háleita stefnu, gildi og markmið og síðast en ekki síst vera óhræddar við að byrja!

Erindið var persónulegt, skemmtilegt og veitti félagskonum góða innsýn inn í heim nýsköpunar og sprotafyrirtækja.

Að lokum kynnti Ólöf Kristrún Pétursdóttir Blöndal, viðskiptastjóri UAK og verkefnafulltrúi hjá KLAK – Icelandic Startups, sprotaferli KLAK fyrir félagskonum UAK. Ólöf fór yfir starfsemi KLAK sem felur m.a. í sér að hjálpa frumkvöðlum að raungera hugmyndir sínar og stuðla að fjölgun sprotafyrirtækja sem byggja á hugviti og auka þannig sjálfbæra verðmætasköpun Íslands. Hún fór yfir það hvernig KLAK aðstoðar sprotafyrirtækjum líka við að vaxa innanlands og út fyrir landsteinana með því að hraða þróun þeirra og tengja þau við sérfræðinga, fjárfesta og aðra lykilaðila.

Ólöf Kristrún Pétursdóttir Blöndal

Gaman var að heyra frá því mikilvæga hlutverki sem KLAK sinnir í nýsköpunarumhverfinu og heyra af þeim verkefnum sem þau eru með í gangi, t.a.m. viðskiptahraðla og vinnusmiðjur fyrir frumkvöðla.

UAK þakkar Guðmundu, Eyrúnu, Írisi og Ólöfu, fyrir virkilega áhugaverð, gagnleg og skemmtileg erindi. Einnig viljum við þakka öllum þeim félagskonum sem mættu og tóku þátt í viðburðunum og lögðu sitt af mörkum í líflegum umræðum og tengslamyndun í lok dagskrár.