Heimsmarkmiðunum ekki náð án kvenna

In Fréttir, UAK-dagurinn by Auður Albertsdóttir

Allt sem þú gerir hefur áhrif, og á það bæði við um einstaklinga og atvinnulífið. Þetta er slagorð Festu – miðstöðvar um samfélagábygð. Harpa Júlíusdóttir, verkefnastjóri hjá Festu, segir það fagnaðarefni að samfélagsábyrgð, sem eitt sinn var litið á sem „mjúkt hliðarmál” sé nú orðin stór hluti af rekstri fyrirtækja. 

Atvinnulífið gegnir lykilhlutverki í að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem eiga að nást fyrir árið 2030, og segir Harpa að nú sé kominn tími til að vinna að þeim af fullum heilindi og fullri hörku. Á UAK-deginum var sérstök áhersla lögð á þrjú markmið úr heimsmarkmiðunum: jafnrétti, aukinn jöfnuð og loftslagsmál, og sagði Harpa þessi þrjú markmið aldrei geta verið aðskilin, og að baráttan við Covid-19 sýni mikilvægi þess að markmið heimsbyggðarinnar tengist.

Harpa sagði að á þessum tímapunkti væri allt undir og að allt atvinnulífið stæði frammi fyrir gríðarlegri ábyrgð, en jafnframt mjög spennandi tækifærum. Þau fyrirtæki sem ætluðu að taka þátt í þróuninni þyrftu að hafa viðskiptamódel sem byggi á þremur stólpum: samfélagi, umhverfi og hagnaði. Harpa sagði að mikilvægast væri að hagnaður fyrirtækja hefði ekki neikvæð áhrif á samfélagið, heldur ætti hagnaður fyrirtækisins jafnframt að vera hagnaður fyrir samfélagið. Skapast hefði ný sýn á kapítalismann sem snerist ekki bara um að skila ágóða til hluthafa, heldur til allra hagaðila. Nú væri ekki bara hugsað um blússandi hagnað heldur um að vera samfélaginu til góðs til langs tíma.

Þá sagði Harpa að mikilvægt væri að leyfa fyrirtækjum ekki að komast upp með grænþvott eða regnbogaþvott, sem lýsir sér í því að fyrirtæki skreyta sig með umhverfismálum og heimsmarkmiðum en láta aðgerðir ekki fylgja orðum. Það sé tiltölulega auðvelt að skreyta sig með því að hafa kolefnisjafnað rekstur án þess að hafa nokkuð gert til þess að draga úr mengun.

Hjá Festu er krafa gerð um heiðarleika, bæði um árangur og áskoranir, en Harpa sagði að fyrirtæki sem huguðu að þessum málum væru fyrirtæki sem fengju fjármagn, og til að vera með þyrftu þau að vera hluti af lausninni. Ef fyrirtæki gætu ekki selt Gretu Thunberg og hennar kynslóð vöruna sína væri varan orðin úrelt.

Loks sagði Harpa að við næðum ekki heimsmarkmiðunum né markmiðum Parísarsáttmálans án kvenna. Mikilvægt væri að konur væru hugrakkar og beittu gagnrýnni hugsun á allt sem áður var „norm” í rekstri fyrirtækja. Konur horfi til lengri tíma og séu opnar fyrir nýjum hugmyndum, sem sé nauðsynlegt í baráttunni við loftslagsbreytingar.