Heimsókn í Sjóvá

In Fréttir, Uncategorized by admin

Mánudaginn 17. febrúar kíktu félagskonur UAK í heimsókn til Sjóvá en fyrirtækið er aðalstyrktaraðili UAK dagsins í ár. Sjóvá hafa lengi látið sig jafnrétti varða. Fyrirtækið varð nýlega fyrsta íslenska skráða félagið til þess að ná einkunninni 10 á kynjakvarðanum GEMMAQ. Stjórn Sjóvá samanstendur nú af 60% konum og er stjórnarformaður félagsins kona. Þá er jafnt hlutfall kvenna og karla í framkvæmdastjórn félagsins.

Auður Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og ráðgjafasviðs fjallaði um sögu Sjóvá og gengi fyrirtækisins á síðasta ári. Það sem ber hæst hjá Sjóvá þessa stundina er sterk staða þeirra í jafnréttismálum. Augljóst er að sterk jafnréttismenning fyrirtækisins hafi góð áhrif á rekstur fyrirtækisins og starfsemina í heild sinni. Með slíkri menningu hafi fyrirtækið náð að skapa mikla starfsánægju sem skilar sér beint til viðskiptavina. „Fjölbreytni skiptir öllu máli, við verðum að vera ólík því þannig tökum við bestu ákvarðanirnar” sagði Auður.

Næst með erindi var Heiður Huld Hreiðarsdóttir, viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði. Heiður, sem byrjaði hjá Sjóvá árið 2007, fjallaði m.a. um sýn sína á fyrirtækið og breytingar sem hafa orðið á undanförnum 13 árum. Hún hafi komið inn í mjög karllægt og gamaldags umhverfi þegar hún hóf störf hjá fyrirtækjaráðgjöf en þá var hún eina konan í deildinni. Þar að auki voru helstu stjórnendur, t.d. framkvæmdastjóri og forstöðumaður karlar. Að mati Heiðar hefur þróunin innan hennar sviðs verið nokkuð hæg en í dag eru fjórar konur starfandi á fyrirtækjasviði. Í lokin varpaði hún spurningum til félagskvenna sem sneru að því hvernig gæti fyrirtækið horft betur inn á við til að fá fleiri konur að borðinu. 

Að lokum fjallaði Sigurjón Andrésson, forstöðumaður markaðsmála og forvarna, um menningu og mikilvægi breytingastjórnunar. Sigurjón sagði félagskonum einnig frá innleiðingu stefnu, svo sem þegar kemur að jafnréttismálum og fór yfir góða stöðu fyrirtækisins en Sjóvá hefur verið efst tryggingafélaga síðast liðin 3 ár, fyrirtæki ársins hjá VR 2019 og fengið jafnlaunamerki velferðaráðuneytisins.

Afar áhugaverðar umræður sköpuðust í lokin sem sneru m.a. að sjálfbærni, mikilvægi fjölbreytileika í atvinnulífinu, helstu áskoranir í jafnréttismálum og margt fleira. Við þökkum Sjóvá fyrir afar áhugaverða og skemmtilega heimsókn og hlökkum til að njóta UAK dagsins með þeim þann 7. mars.