Heimsókn til ríkislögreglustjóra

In Fréttir by Aðalheiður Júlírós

Í kjölfarið af viðburði sem UAK hélt á Kvennafrídaginn undir yfirheitinu Tölum um ofbeldi , þar sem samankomnir voru aðilar frá Bjarkarhlíð, atvinnulífinu, öryggis- og greinaringarsviði ríkislögreglustjóra, Heimilisfrið og hagsmunasamtökum brotaþola bauð ríkislögreglustjóri félagskonum UAK í heimsókn þann 19. mars sl. Fjölmennt var í heimsóknina en UAK hafa sett umræðu um kynbundið ofbeldi í forgang undanfarið ár eftir að það kom skýrt fram á ráðstefnu UAK vorið 2023 sem bar yfirskriftina ,,Jafnrétti á okkar lífsleið” að Ísland á langt í land þegar kemur að kynbundnu ofbeldi sem brýtur gegn mannréttindum og grundvallarfrelsi kvenna.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, tók á móti félagskonum UAK en í heimsókninni gafst félagskonum tækifæri á að skyggnast inn í störf ríkislögreglunnar, breytingar undanfarin ár og þau verkefni sem eru í gangi á vegum afbrotavarna með áherslu á kynbundið ofbeldi og eiga gagnlegt og fræðandi samtal. 

Sigríður fór yfir áherslur embættisins, kynjaskiptingu innan ólíkra deilda lögreglunnar og þær breytingar sem hún hefur beitt sér fyrir hjá lögreglunni undanfarin ár. Það var ánægjulegt að heyra frá þeim árangri sem náðst hefur en hins vegar talaði Sigríður af einlægni og opinskátt um að þrátt fyrir að lögreglan hafi stigið stór skref í að ná fram nauðsynlegum breytingum að þá er ljóst að mikið verk er eftir óunnið.

Sigríður kom til dæmis inn á alvarleika þess að helmingur allra ofbeldisbrota sem rata inn á borð lögreglu eru vegna heimilisofbeldis. Skráning þessara mála hefur tekið stakkaskiptum í tíð Sigríðar en mikilvægt er að kerfið haldi utan um þessar upplýsingar og að það sé nálgast málaflokkinn á þverlægan hátt í samfélaginu, enda kynbundið of algengt á Íslandi. Samkvæmt vísindarannsókninni Áfallasaga kvenna hafa 40% kvenna orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðis ofbeldi á lífsleiðinni. Einnig kemur fram að 32% hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað á lífsleiðinni og um 14% hafi einkenni áfallastreituröskunar. 

Sigríður ræddi einnig við félagskonur um mikilvægi þess að  horfa til fleiri þátta en tölfræðilegs árangurs á blaði þegar kemur að því að meta árangur í jafnréttismálum. Því þó að margar konur séu í valdamiklum og háum stöðum á Íslandi þá er til dæmis kynbundið ofbeldi enn þá stór blettur á  íslensku samfélagi

Því næst var Sigþrúður Guðmundsdóttir, starfsmaður afbrotadeildar ríkislögreglustjóra, með erindi um þau verkefnum sem eru í gangi á vegum afbrotavarna með áherslu á kynbundið ofbeldi og ofbeldi gegn börnum. 

Sigþrúður Guðmundsdóttir

Sigþrúður talaði um mikilvægi bæði þverlægrar og áfallamiðaðar nálgunar í málaflokknum og fór einnig yfir málefni ráðstefnunnar ,,Á ég að gera það? Samvinna í þjónustu við þolendur heimilisofbeldis“ sem haldin var daginn áður af heilbrigðisráðuneytinu og embætti ríkislögreglustjóra.

Í lok dagskrár kynnti Guðmundur Ásgeirsson, aðstoðar yfirlögregluþjónn, bæði þjálfun og aðstöðu mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar fyrir félagskonum sem fengu m.a. að prófa sýndarveruleika gleraugu sem notuð er við þjálfun lögreglufólks. UAK er ekki frá því að margar félagskonur hafi kynnt sér nám í lögreglufræði að heimsókn lokinni.

Guðmundur Ásgeirsson

Við þökkum ríkislögreglustjóra kærlega fyrir boðið!

Til upplýsinga að þá setti UAK af stað söfnun af stað til styrktar Bjarkarhlíðar sl. haust þar sem allur ágóði af sölu á skissubók UAK rennur til þeirra, sjá hér.

Einnig má benda á umfjöllun á vísi um viðburðinn Tölum um ofbeldi, Ungar athafnakonur ráðast á rót vandans í jafnréttismálum.