Viðtal við Helgu Sigurrós Valgeirsdóttur – sérfræðing í sjávarútvegi

In Viðtöl by Dagný Engilbertsdóttir

Við fengum Helgu Sig­ur­rós til að svara nokkrum vel völdum spurningum en þrátt fyrir ungan aldur hefur hún víðtæka reynslu af sjávarútveginum. Hún er fædd 1979, er með BS-gráðu í sjáv­ar­út­vegs­fræðum frá Háskól­anum á Akur­eyri og meistara­gráðu í alþjóða­við­skiptum frá Ger­on­ble Gradu­ate School of Business. Hún starf­aði á Fiski­stofu frá árinu 2004 með hléum m.a. sem sviðs­stjóri upp­lýs­inga­sviðs Fiski­stofu. Sumarið 2013 var hún svo ráðin aðstoð­ar­maður Sig­urðar Inga Jóhanns­son­ar, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Til viðbótar var hún starfs­maður sátta­nefnd­ar­innar um end­ur­skoðun á lögum um stjórn fisk­veiða, sat í verk­efn­is­stjórn um mótun atvinnu­stefnu fyrir Ísland og hefur tekið þátt í ýmsu sam­starfi í sjáv­ar­út­vegs­málum á alþjóða­vett­vangi.

Í hverju felst starfið þitt? Ég er viðskiptastjóri í sjávarútvegi á fyrirtækjasviði Arion banka. Ég er með tiltekin stærri sjávarútvegsfyrirtæki í minni lánabók og starf mitt felst í því að þekkja félögin vel, vinna með forsvarsmönnum þeirra að fjármögnun þeirra, gera greiningar á félögunum fyrir lánanefndir og áhættustýringu bankans auk annars sem til fellur í viðskiptasambandi bankans og félaganna. Starfið hentar mér stórkostlega, ég fæ tækifæri til að vera mikið á ferðinni innanlands og aðeins utan og starfa náið með ólíku fólki, þó þéttum hópi stjórnenda og eiganda fyrirtækja í þessari lifandi og skemmtilegu atvinnugrein.

Vissir þú alltaf hvað þú vildir vera þegar þú yrðir stór? Ég setti kúrsinn upp úr tvítugu á viðskiptatengt nám og alltaf með sjávarútveginn í huga. Lengi vel stefndi ég á að verða fyrsti kvensjávarútvegsráðherrann. Ég hef ennþá séns á að verða fyrsta konan til gegna því ráðherraembætti, en pólitíkin væri líkleg til að þvælast aðeins fyrir mér!

Getur þú nefnt atriði sem þú telur hafa stuðlað að því að þú ert á þeim stað sem þú ert í dag. Foreldrar mínir hafa alltaf haft mikla trú á mér og hvatt mig áfram sem er góður grunnur að framtíðinni. Maðurinn minn hefur stundum ýtt mér lengra en ég fattaði að ég ætlaði og verið mér mikil hvatning, verið sveigjanlegur og stuðningsríkur þegar á þarf að halda. Ég hef lært ótrúlega mikið af samstarfsfólki mínu í gegnum tíðina, ég hef gjarnan unnið með fólki sem er aðeins eldra en ég, mest karlmönnum, og átt marga góða fóstra. Þær Hrefna Gísladóttir og Arndís Steinþórsdóttir hafa þó líklegast verið þeir starfsfélagar sem hafa haft mest áhrif á framgang minn í starfi. Báðar voru þær yfirmenn mínir og hvöttu mig óspart áfram, veittu mér athygli og kipptu mér áfram á mjög karllægum vinnustöðum. Mesta tækifæri og reynsla starfsferils míns er það að ég gengdi starfi aðstoðarmanns sjávarútvegsráðherra um tíma þegar Sigurður Ingi veðjaði á mig í það þó ég hefði ekki tekið þátt í póltísku starfi,  það var ómetanleg reynsla og mikill lærdómur að gegna því starfi og ekki síður að vinna með þeim frábæra manni. Ég hef stúderað vel mitt fag og sinnt því af heilindum sem fleytir manni áfram, en það er ekki síður fólkið í kringum mig, sem tekur eftir mér, og hjálpar mér lengra sem skilar mér á þann stað sem ég er hverju sinni. Ég vona að ég fái tækifæri til þess sama gagnvart öðrum sem koma ungir og ferskir inn og þurfa hauk í horni.

Finnur þú fyrir kynjahalla í þinni starfsgrein? Já því verður ekki neitað, sjávarútvegurinn er mjög karllægur. Mér finnst það þó hafa breyst mikið á þeim 14 árum sem ég hef starfað í greininni og áþreifanlega meira síðustu ár. Ég tek í auknum mæli eftir konum í lykilstöðum í sjávarútvegsfyrirtækjum, það fer aðeins minna fyrir þeim ennþá en ég hef fulla trú á að það sé að breytast.

Ef hallar á annað kynið finnst þér það hafa áhrif á fyrirtækjamenninguna, starfsemina og framkomu yfir höfuð?  Það gerir það, það getur t.d. verið flókið og einhæft að vera oft eina konan, stemning er ólík í hópum sem eru eingöngu samsettir af öðru kyninu, í báðar áttir.

Sumri stemningu langar fólki einfaldlega ekki að breyta og þá getur verið erfitt fyrir aðila af hinu kyninu að fá jafnt tækifæri til þátttöku. Konur tala minna um lata karla ef karl er nálægt og karlar minna um frekar konur ef kona er nálægt, en eigum við eitthvað að vera í þeim umræðum í vinnunni hvort sem er?  Mig langar samt að koma því fram að ég upplifi þetta vera að breytast, hvort sem það er það ég er að þroskast og sé þetta öðruvísi eða umhverfið að breytast.

Mér finnst eins og sú kynslóð karlmanna sem er að koma inn í stjórnunarstöðurnar vera opnari fyrir jafnri þátttöku beggja kynja á fundum, samningaviðræðum og viðburðum sem er ákaflega mikilvægt fyrir okkur konur sem viljum taka þátt og fá tækifæri til að gegna stjórnunarstöðum, t.d. í sjávarútvegi. Mér finnst samt að enn megi markvissar vinna í því að jafna tækifærin til starfa í okkar grein og ég upplifi stundum að “karlar tala við karla”. Ég hef upplifað þetta sjálf, sterkar konur hafa kippt mér með og mér er sjálfri mjög umhugað um valdeflingu kvenna í greininni án þess að setja stefnuna á einhverja samtryggingu. Allavega að þær konur sem gegna störfum þess eðlis að þær eigi að taka þátt í samtalinu séu inn í samtalinu, mér finnst það stundum vanta þó konurnar séu sannarlega í starfi sem skipti máli og eiga jafnmikið erindi og karlinn sem á endanum tók fundinn eða samtalið við hinn karlinn.

Hverjar eru stærstu hindranirnar sem þú hefur lent í á vinnuferlinum? Að vera aðeins yngri en hinir, af öðru kyni en hinir. Vera “stelpan” og eiga að vera þolinmóð, og skilja þegar karlarnir þurfa meira pláss og framgang. Vita jafnvel af hliðarfundum til að setja kúrsinn áður en mínar skoðanir og pælingar fengu pláss í umræðunni. Þetta gat gert mig alveg brjálaða. En svo kemur reynsla og framgangur og ég upplifi þetta ekki jafn sterkt í dag, og mun minna eftir að ég fór úr stjórnsýslunni en þar vann ég lengi.

Stærstu sigrarnir þínir? Ég upplifi að ég hafi haft áhrif til breytinga í flestum þeim stöðum sem ég hef gengt, alveg frá því ég var sumarstarfsmaður í háskólanámi. Í hvert skipti sem ég upplifi stolt af dagsverki eða loknu verkefni þá fæ ég sigurtilfinningu og rekst svolítið áfram af því. Ég elska líka að “loka”, vera með verkefni sem þú byrjaðir á, vannst að og það klárast, það jafnast fátt á við það.

Hverja telur þú vera stærstu sigra í jafnréttisbaráttunni á síðustu árum á Íslandi? Aukinn skilningur karla á jafnrétti kynjanna og meðvitund þeirra um að taka þátt í að stuðla að því.

Kynjakvóti – hvað finnst þér um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja? Fyndist þér eiga að vera kynjakvóti víðar? Ég er fylgjandi því á meðan á þarf að halda í stjórnunum, en það þarf að fylgjast með að það skili væntum árangri. Veit ekki hvað mér finnst um mikla reguleringu á kynjakvótum, en við þurfum að gæta að sýnileika beggja kynja í stjórnendastöðum, í umræðunni, við uppeldi barna okkar o.s.frv.

Ertu með tillögur að lagabreytingum og eða hugarfarsbreytingum sem myndu geta ýtt undir frekara jafnrétti? Við þurfum að vera svolítið vakandi, ekki gera hlutina af gömlum vana, vera meðvituð um sýnileika beggja kynja og þátttöku í umræðunni, þannig mótast normið.

Ef þú hefur átt börn tókstu fæðingarorlof og þá hve langt? Ef þú varst í sambandi á þeim tíma tók maki þinn fæðingarorlof og þá hve langt? Hvernig var upplifun þín af því að snúa aftur úr fæðingarorlofi? Ertu með ráð til kvenna sem hafa áhyggjur af því að fæðingarorlofið muni aftra þeim í starfi? Ég á tvær dætur og tók 7 og 9 mánaða fæðingarorlof. Maðurinn minn tók á bilinu 3-4 mánuði, við tókum mikið saman sem okkur fannst æðislegt og hentaði okkar fjölskyldu vel. Orlofin voru mér bæði ljúf og erfið, ég saknaði vinnunnar og fullorðins fólks um leið og mér fannst frábært að vera búið það tækifæri að vera heima með barninu mínu, gleymum ekki að þannig er það ekki alls staðar. Í bæði skiptin skipti ég um starf eftir orlof, að eigin vali, annars vegar innan vinnustaðar og hins vegar milli vinnustaða, einhver gerjun og löngun í nýtt sem átti sér stað og ég nýtti tímann vel til umhugsunar. Ég varð óróleg þegar fór að líða að lokum orlofs, hvernig mér gengi að komast aftur inn, hvernig ég ætlaði að samræma allt, verð ég “soft” o.s.frv. Mitt ráð til kvenna, og karla, í orlofi er að taka allt út úr því sem mögulega hægt er, við vinnum allan ársins hring öll hin árin. Ef vinnuveitandi hefur ekki dug til að standa með þér í og eftir orlof er þér líklegast betur borgið á öðrum miðum, mundu bara að láta það fréttast.

Ertu með einhver ráð fyrir ungar konur á uppleið? Láta bera svolítið á sér, ekki vera feimin. Yngra fagfólk er aðeins óslípaðra, beitt og fellur kannski ekki alveg að prótókól sem getur gert mann feiminn þegar reynslan er ekki til staðar, þetta á jafnt við á nýjum vinnustað meðan maður er að átta sig á starfinu. En það breytist ekkert ef það er alltaf prótókol, munum það. Það þarf að velta steinum og rúlla boltum, það gerist í fjölbreyttu starfsumhverfi þar sem þeir með reynsluna miðla til hinna og þeir yngri reyna að hrista aðeins gólfið, smá árangur er sigur. Og vera þolinmóð….svo er maður bara allt í einu að verða fertugur og ekki lengur yngstur!

Hversu mikilvægt telur þú að vera með gott tengslanet? Það er kostur, en það tekur tíma að byggja það upp og fyrir mér er mikilvægt að tengslin séu bæði persónulegs eðlis og faglegs eðlis. Geta sótt styrk og þekkingu í aðra í faginu. Ég fæ mikinn kraft og þrótt í gegnum öflug tengslanet kvenna en það er mikilvægt að tengslanetið sé breiðara en það til að nýtist í framgang og aukna þekkingu.

Hversu mikilvægt telur þú framhaldsnám (mastersgráða eða annað sambærilegt) vera í samanburði við reynslu? Ég fór erlendis í framhaldsnám sem breikkaði þekkingu mína og skilning á allt annan hátt en námsbækurnar gerðu og ég hefði aldrei viljað sleppa því. Mér finnst endurmenntunarkerfið hér á Íslandi samt ekki ná nógu vel utan um mikið menntað fólk með mikla reynslu, finnst ég oft vera í endurteknu efni.
—–