„Ef allir myndu taka einhver skref þá myndum við ná að breyta hlutunum. En við þurfum oft að þora að gera eitthvað sem er umdeilt” sagði Edda Hermannsdóttir, yfirmaður markaðs- og samskiptamála hjá Íslandsbanka en hún tók þátt í stefnuvinnu bankans í sjálfbærnimálum og að samtvinna Heimsmarkmiðin við daglega starfsemi bankans. Edda hefur starfað sem aðstoðarritstjóri á Viðskiptablaðinu, stýrði Gettu betur á RÚV og gaf út bókina Forystuþjóð með Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur árið 2017 sem fjallar um jafnréttismál, en hún er í þann mund að gefa út bókina Framkoma.
Í erindi sínu á UAK deginum talaði Edda bæði um sjálfbærni og jafnréttismál en hún lagði mikla áherslu á það að þora að taka ákvörðunina um að gera breytingar í átt til hins betra og vera óhræddar við það að gera ekki hlutina fullkomlega. Varðandi samfélagslega ábyrgð sagði hún stór fyrirtæki geta haft gríðarlega mikil áhrif með því að velja sína birgja vel og að ungt fólk væri farið að láta sig umhverfið varða í miklum auknum mæli og þora að taka þær breytingar að breyta eigin neysluhegðun.
En af hverju ættu fyrirtæki að láta sig samfélagsleg málefni varða? Ef horft er einungis á fjárhagslegan ávinning eru þónokkrar ástæður samkvæmt rannsókn sem gerð var árið 2019. „75% eru líklegri til þess að hefja viðskipti hjá fyrirtæki sem styður málefni sem þeim er kært, 66% eru tilbúin til að greiða meira hjá fyrirtækjum sem taka afstöðu til samfélagsmála og 71% telja mikilvægt að fyrirtæki taki afstöðu til samfélagslegra hreyfinga.” Edda tók svo dæmi um fyrirtækin Nike og Patagonia sem hafa náð góðum árangri með því að taka samfélagslega afstöðu og að innanlands gangi t.d. veisluþjónustum sem stukku á vegan lestina mjög vel þar sem fjórðungur eða þriðjungur allra árshátíða á Íslandi í dag séu farnar að bera fram vegan vetingar.
Fyrirtæki þurfa að gera sitt besta í því að innleiða sjálfbær viðmið inn í DNA fyrirtækisins. Edda sagði frá vegferð Íslandsbanka og hvernig þau hafa þurft að huga að hverju einasta smáatriði. „Hvernig ætlar starfsfólk í útibúi á Húsavík að hugsa um sjálfbærni þegar það mætir í vinnuna á mánudegi? Hvernig ætlum við alltaf að vera meðvituð um að hugsa um þessi mál samhliða öðrum viðskiptalegum ákvörðunum?”
Varðandi jafnréttismál þá talaði Edda um þá ákvörðun hjá þeim hjá Viðskiptablaðinu árið 2012 að nú væri tími til komin að hvetja konur til þess að koma fram í fjölmiðlum með því að setja fram plan og skapa til þess vettvang. Hún vitnaði einnig í António Guterres, framkvæmdarstjóra Sameinuðuð Þjóðanna, sem talaði fyrir því að leiðin að jafnrétti væri ekki að breyta konum, heldur að breyta kerfinu. Goldman Sacks ákvað t.d. að leggja áherslu á það að hafa a.m.k. Eina konu í þeirra stjórn og fengu við því hörð viðbrögð „Og sumir spurðu; “En hvaðan kemur hún? Á hún að vera hérna?” En það bara skiptir ekki máli. Það er komin kona við borðið sem hefði ekki fengið tækifæri á því að vera þarna annars.”