,,Hugsaðu eins stórt og þú þorir, þegar það er orðið þægilegt hugsaðu þá enn stærra“

In Fréttir by Helena Rós Sturludóttir

Nú á dögunum stóðu Ungar athafnakonur fyrir örfyrirlestrakvöldi um starfsþróun og var fundurinn afar vel sóttur en um 80 félagskonur létu sjá sig. UAK fékk til liðs við sig fimm kraftmiklar konur en hver og ein þeirra hélt stutt erindi um málefni sem þær þekkja vel til og tengjast starfsþróun. Félagskonur fengu svo tækifæri til að spyrja þessar flottu konur spjörunum úr.

Það var hún Sandra Björg Helgadóttir, vörumerkjastjóri PepsiCo, sem hóf fyrirlestraröðina en hún fór yfir það hvernig hún komst í gegnum þær hindranir sem urðu á vegi hennar í þeirri starfsþróun sem hún þráði hjá Ölgerðinni. Hún ræddi um mikilvægi þess að láta ekki aðra ákveða þinn veg og þína getu í starfi. Hún þurfti að breyta ímynd sinni innan Ölgerðarinnar til þess að komast á þann stað sem hún vildi. Sandra lét verkin tala til að sýna hvað í henni bjó. Þá fór hún yfir mikilvægi mentora á vinnumarkaðnum og ekki síður að vera mentor fyrir aðra, en hún telur mikinn lærdóm liggja í því að vera leiðbeinandi fyrir aðra.

Mynd: Helena Sævarsdóttir

,,Maður þarf að hugsa eins stórt og maður þorir og þegar það er orðið þægilegt að hugsa þá enn stærra,” sagði Sandra. 

Næst í pontu steig Lára Óskarsdóttir, PCC markþjálfari,  en hún fjallaði um leiðtogahæfni og hvernig við getum unnið gegn vanmati á okkur sjálfum. Hún telur sjálfstal eitt mikilvægasta samtalið sem við eigum og segir mikilvægt að miða okkur við jafnvægið hjá sjálfum okkur í stað þess að horfa á aðra. Við eigum að hugsa um stöðuna núna, hvar við viljum vera og hvernig við ætlum að komast þangað. Þegar við vitum hvert við stefnum þá er hægt að gera áætlun. Þá talaði hún um mikilvægi áskorana og hvernig þær styrkja okkur.

Því næst tók Unnur María Birgisdóttir, þjálfunarsálfræðingur og stjórnandi hjá heilbrigðistæknifyrirtækinu SidekickHealth, við en hún fjallaði um draumastarfið og leiðina þangað. Þegar kemur að því að finna starf við hæfi er mikilvægt að vera fylgin sér. Hún segir tilfinningu leiða okkur áfram mun meira en skynsemi en 80% ákvarðana tökum við út frá tilfinningu en einöngu 20% út frá skynsemi. Unnur fór yfir það hvernig finna megi draumastarfið og fara í gegnum atvinnuleitina án þess að gefa of mikinn afslátt af eigin gildum. Hún lagði einnig mikla áherslu á tengslanetið í tengslum við atvinnuleitina.                                                                                                                                                                                                         

Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands, fór svo yfir undirbúning fyrir viðtöl og samtöl almennt um starfsþróun. Hún fjallaði um það hve mikil sölumennska það er að segja satt og rétt frá sjálfum sér þegar það kemur að því að sækja um starf, skóla eða jafnvel styrk. Þá þarf að sníða umfjöllunina eftir því sem þú sækist eftir og undirbúningur skiptir öllu máli. Kristrún kom með mjög góðan punkt þegar hún talaði um draumastarfið, þó maður viti ekki nákvæmlega hvert draumastarfið er þá þýðir það ekki að maður eigi bara að staldra við og bíða heldur gera það sem manni þykir skemmtilegt á þeim tíma. Það er alltaf hægt að skipta um starf og breyta til, það sem við tökum okkur fyrir hendur að hverju sinni eigum við þó að sinna vel og sýna metnað.

Mynd: Helena Sævarsdóttir

Fimmti og síðasti fyrirlestur kvöldsins fjallaði um laun og launaviðtöl. Það var hún Guðrún Ragnarsdóttir, meðeigandi og ráðgjafi hjá Strategía, sem fræddi félagskonur um þau málefni.

Mynd: Helena Sævarsdóttir

Samkvæmt Guðrúnu er undirbúningur lykilatriði þegar kemur að því að semja um laun. Þá er einnig mikilvægt að vita hverju maður vill ná fram þegar samið er um laun, ásamt því að vera upplýstur neytandi og vita kaup og kjör fyrir sambærileg störf.

Ungar athafnakonur þakka fyrirlesurum kvöldsins fyrir virkilega fræðandi kvöldstund og sömuleiðis félagskonum UAK fyrir frábæra mætingu.