Hvað er málið? Viðhorf til kvenleiðtoga.

In Fréttir by Bjarklind

Opnunarviðburður UAK vorið 2021 fór fram 19. janúar og var yfirskrift viðburðarins Hvað er málið? Viðhorf til kvenleiðtoga.

Viðburðurinn var í opnu streymi á Facebook og þegar þessi frétt er skrifuð hafa tæplega 3000 einstaklingar horft á viðburðinn.  

Inga María Hjartardóttir, samfélagsmiðlastjóri UAK, opnaði viðburðinn og fór yfir komandi viðburði vorannar. Hún tilkynnti dagskrá ráðstefnunnar Frá áhrifum til aðgerða – vertu breytingin og sagði frá þeirri nýjung að fjöldi stafrænna viðburða muni líta dagsins ljós í aðdraganda ráðstefnunnar í UAK vikunni.  

Ragna Árnadóttir flutti hugvekju um mismunandi kröfur til kynjanna og úreltar hugmyndir um leiðtoga. Hún talaði m.a. um mikilvægi þess að leyfa konum að gera mistök rétt eins og við leyfum körlum að gera mistök.

Fjölmiðlakonan Edda Sif Pálsdóttir tók viðtal við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur um hvernig við getum rétt hallann þegar kemur að kynjaskiptingu í leiðtogastöðum og bætt kynjajafnrétti á alþjóðavísu. Hanna Birna tók fram að kvennasamstaða væri það sem skiptir einna mestu máli til að við náum árangri í jafnréttismálum. Þá nefndi hún sérstaklega að félagsskapur eins og UAK sé hluti af frekari framþróun jafnréttisbaráttunnar.  

Að lokum sátu Ragna og Hanna Birna fyrir spurningum frá áhorfendum. Afar áhugaverðar umræður mynduðust enda reynslumiklar konur sem hafa látið jafnrétti sig varða lengi en eru hvergi hættar.

Viðburðurinn heppnaðist einstaklega vel og þakkar stjórn UAK fyrir áhorfið. Hægt er að horfa á viðburðinn hér að neðan.


Posted by
Ungar athafnakonur on Tuesday, January 19, 2021